05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3574)

194. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Hv. flm. þessarar þáltill. nefndi hér allmargar tölur um skort á hjúkrunarkonum við sjúkrahús í Reykjavík. Ég efast ekki um, að allar þær tölur séu réttar og sýni það ástand, sem í þeim málum ríkir hér. En ég vil láta það koma fram við þessa umr., að þetta ástand, sem hann lýsti hér í Reykjavík, er alveg hátíð á móts við það, sem gerist víðs vegar úti um landsbyggðina. Mér er kunnugt um sjúkrahús úti á landi, þar sem eiga að vera 10–12 hjúkrunarkonur, og það þykir gott, ef hægt er að fá sex eða sjö. Mér er kunnugt um sjúkrahús, þar sem eiga að vera sex eða átta, og þeir, sem þeim stjórna, þykjast góðir að hafa tvær eða þrjár. Og mér er kunnugt um sjúkrahús, þar sem þykir gott, ef hægt er að fá eina einustu hjúkrunarkonu, þótt þar ættu að vera þrjár, fjórar eða fimm, ef það væri fullskipað. M.ö.o., vandinn hér í Reykjavík er nokkur, en vandinn úti á landsbyggðinni er margfalt, margfalt meiri, og hann er svo mikill, að til stórkostlegra vandræða horfir í rekstri sjúkrahúsanna af þessum orsökum. Það hefur verið gripið til þess ráðs á nokkrum stóðum að stofna til námskeiða fyrir hina svonefndu sjúkraliða, og það hefur nokkuð bætt úr vandræðunum, en það er vitanlega engin lausn á þessu stórkostlega vandamáli. Það verður að gera ráð fyrir því, að mikil vanhöld verði alltaf á hjúkrunarkonum. Það eru sem betur fer ekki allt nunnur, sem fara í Hjúkrunarskólann, og þess vegna má gera ráð fyrir því, að margar hjúkrunarkonur heltist úr lestinni. Það er því mál málanna að efla þennan skóla svo rækilega, að hjúkrunarkvennastéttin þoli þau miklu vanhöld, sem alltaf hljóta að verða í sambandi við hana.

Nú hefur mjög mikið verið rætt um að auka sjúkrahúsakost í landinu. Allmikið af sjúkrahúsum er í byggingu, en vitanlega er allt slíkt unnið fyrir gýg, ef það stórkostlega vandamál, sem hér hefur verið til umr., verður ekki leyst. Efling Hjúkrunarskólans og viðunandi kjör hjúkrunarkvenna er það, sem hér skiptir mestu máli.