05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (3575)

194. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til þess að þakka hv. 11. þm. Reykv. og viðurkenna það, að hann hafði á réttu að standa um það, að ég hafi mælt þessi orð hér í haust, og tel, að ég sé sízt minni maður fyrir það að viðurkenna það, sem réttara er.

Hann var mér sammála um það, hv. 11. þm. Reykv., að aðalatriðið er ekki nefndarskipanir og ýmis smærri atriði, sem hafa verið nefnd í þessu máli. Vandinn er sá að komast til botns í málinu.

Þá greip hv. þm. Hannibal Valdimarsson hér fram í og spurði í tilefni af því, að ég fagnaði samvinnu við stjórnarandstæðinga um þetta mál, hvort þeir hefðu yfirleitt verið að þvælast fyrir mér í störfum. Er það ekki rétt eftir haft? Ég vænti þess, að þó að ég kunni að vera gleyminn á einstök orð, sem ég hef sagt hér einhvern tíma í haust, þá sé hv. þm. ekki búinn að gleyma því, að hann var í tvö og hálft ár heilbrigðismálaráðherra, og það væri kannske ekki úr vegi að líta aftur til þess tíma og vita, hvernig ástand þessara mála var þá, í tvö og hálft ár. Því hefur væntanlega ekki verið gleymt öllu saman.

Ég kemst nákvæmlega að sömu niðurstöðu og ég komst í minni fyrri ræðu, og ég tel, að við hv. 11. þm. Reykv. séum alveg sammála um, að vandinn í þessu máli er ekki sá, sem í flestum tilfellum er, að okkur vanti peninga. Okkur vantar ekki húsrými til þess að leysa þennan vanda. Þarna er annar vandi fyrir höndum, sem við verðum að finna, áður en við getum lagt fram till. til lausnar. Það er algert grundvallaratriði, að það sé fundið fyrst, af hverju þessi vandi stafar, áður en till. til lausnar koma.

Hv. þm. Daníel Ágústínusson skýrði frá því, að vandinn hér í Reykjavík væri snöggtum minni, svo að ég taki ekki dýpra í árinni, en úti á landi. Þetta er alveg rétt. Þetta vandamál er mjög tengt vandamálinu um læknana. Í dag gegnir einn læknir jafnvel 2–3 læknishéruðum. Og þetta er ekki heldur talið stafa af beinum læknaskorti, heldur af því, að menn fást ekki til að stunda þessa faggrein sína, lækningar, úti í hinum dreifðu byggðum, og hafa þeir sjálfir til þessa borið því við, að aðstaðan til lækninga á þessum stöðum, fyrst og fremst læknisaðstaðan eða starfsaðstaðan, væri það slæm, að það væri ekki hægt að taka á sig þá ábyrgð að bjóða upp á læknisþjónustu undir þeim kringumstæðum, sem þar værir fyrir hendi. Hér er vandinn annar. Hér virðumst við hafa byggt fleiri sjúkrarúm en við fáum starfsfólk til að sinna, svo að það má segja, að þetta sé gagnstætt vandamál, þótt hvort tveggja sé að sjálfsögðu alvarlegur vandi.

Ég vil nú leggja það út á betri veg, sem hann sagði, að það væru vanhöld á hjúkrunarkonum. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Kvenfólk er yfirleitt ekki stöðugur vinnukraftur. Þeim hefur verið falið það af hendi skaparans að sjá um önnur störf, sem daglega eru nefnd heimilisstörf, og þurfa að sjálfsögðu að sinna þeim eins og flest annað kvenfólk, sem vinnu stundar.

Hv. 11. þm. Reykv. benti á það, að tilraunir hafa verið gerðar í þá átt að aðstoða einmitt þessar konur til þess að koma til starfa á ný. Það kann að vera einn þáttur í lausn þessa vanda að auka þessa aðstoð. Þó mundi það hvergi nærri bæta úr þeim mikla skorti, sem hér er um að ræða, og hlýtur að þurfa að koma meira til.

Ég er, eins og ég áðan sagði, ekki tilbúinn til að segja, hver endanleg lausn þessa máls er, en það er unnið að því á vegum heilbrmrn. í samráði við Hjúkrunarfélag Íslands fyrst og fremst og í samráði við þá lækna, sem gerst til þekkja, að finna lausn á þessu máli. Það er rétt að undirstrika það einnig, að uppi eru hugmyndir um, að það kynni að vera nokkur lausn á þessum vanda að stofna annan skóla, sem veitti núverandi hjúkrunarskóla einhvers konar aðhald eða myndaði samkeppni, ef ég mætti orða það svo. Þetta er ein af þeim till., sem ég veit að hafa þegar komizt á blað. En það er svolítið erfitt að kyngja þessari hugmynd á sama tíma og húsrými er fyrir hendi og þörfin er fyrir hendi til þess að fylla þann skóla, sem við höfum þó starfandi. En hugmyndinni hefur verið hreyft, og það skyldi enginn maður kasta neinum hugmyndum, sem til bóta mættu horfa, fyrir borð, án þess að þær fái sína könnun.