29.10.1970
Neðri deild: 8. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 2. landsk. þm., að það er sjálfsagt mál, að Alþ. fallist á þá ósk samningsaðila, að sú breyt. verði gerð á l., sem farið er fram á í þessu frv. En ég er einnig á sömu skoðun og þessi hv. þm. um það, að mér hefði fundizt, að hæstv. ráðh. hefði getað gert dálítið betri grein fyrir því, hvernig málin standa. Ég hygg, að hæstv. ráðh. viti það fullt eins vel og allir aðrir, að æðimikil vitneskja um þessar samningaviðræður er nú meðal almennings. Við erum nú þegar æðimargir, sem teljum okkur vita í nokkuð stórum dráttum, hvernig þessi mál standa, og ég held, að það sé verið að stinga höfðinu í sandinn, þegar staðið er hér í þessum virðulega ræðustól og sagt, að þarna sé ekki óhætt að segja neitt til þess að spilla ekki samningsstöðunni. Þetta er ekki raunsætt, og þetta er ekki rétt. Hitt vil ég segja hæstv. ráðh., að þær efasemdir eru uppi hjá æðimörgum, að það séu ekki aðeins erfiðleikar í sambandi við efni samninganna, sem valdi því, hversu lengi þeir hafa dregizt, heldur að hæstv. ríkisstj. hafi haft hug á því að draga þessa samninga fram yfir tiltekna atburði aðra, og þar á ég við þær efnahagsaðgerðir, sem búið er að tilkynna, að gripið verði til af hálfu hæstv. ríkisstj. núna eftir hálfan mánuð eða svo, og sem tvímælalaust fela í sér skerðingu á umsömdum kjörum, sem gengið var frá í vor.

Samningar við opinbera starfsmenn eru ákaflega veigamikið atriði. Þeir eru veigamikið atriði fyrir starfsmennina sjálfa, sem á ýmsan hátt búa nú við launakerfi, sem er gjörsamlega úrelt og óþolandi, en þetta er einnig mjög veigamikið atriði í sambandi við alla fjárhagsþróun íslenzka ríkisins. Eins og Vísir gat um þá jafngildir sú prósentutala, sem talað hefur verið um, að stefnt sé nú að, um 600 millj. kr. á fjárlögum. Í kjölfarið koma ýmsir aðrir hjá bæjarfélögum, hjá bönkum, og hjá ýmsum aðilum öðrum, sem nota kjör opinberra starfsmanna til viðmiðunar. Ég held, að það væri algerlega ótækt, ef Alþ. ætti að fjalla um efnahagsmálin, um þessi svokölluðu bjargráð, án þess að hafa þá fengið vitneskju um það, hvernig þessi mál standa.

Og ég er eiginlega hingað kominn til þess að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann muni ekki vilja meta það við alþm., sem afgreiða þetta frv. jafngreiðlega og dæmin munu sanna, meta það með því að heita alþm. því, að það verði ekki teknar neinar ákvarðanir hér á þingi um efnahagsmálin almennt, fyrr en vitað er, hvernig þessum málum lyktar.