05.04.1971
Sameinað þing: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3612)

47. mál, menntaskólar í Reykjaneskjördæmi

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Eins og sjá má á þskj. 526, sem er nál. hv. fjvn., þá leggur n. til einróma, að þessi þáltill. verði samþ. óbreytt. Sú skoðun kom raunar fram í n., að vera mætti, að tillöguflutningur sem þessi væri ekki bráðnauðsynlegur, vegna þess að það er svo tekið fram í lögum um menntaskóla, sem voru samþ. á síðasta Alþ., að menntaskólar skuli vera svo margir sem þörf er á. Og ég held, að ég megi segja það, að n. varð sammála um, að það væri orðið tímabært að setja á stofn menntaskóla á fjölbýlissvæðunum hér við Faxaflóa, fleiri en þá, sem nú þegar eru í Reykjavík, og ég held, að mér sé óhætt að segja það, að hæstv. menntmrh. hefur skilning á þessu máli, og marka ég það af því, að ég las fyrir nokkru viðtal við hann, sem var birt í málgagni sambands menntaskólanema. Þar minnist hæstv. ráðh. einmitt á þetta og telur þörf á því, að stofnsettur verði menntaskóli, og nefnir alveg sérstaklega Hafnarfjörð í því sambandi. Það er eins og ég sagði, að n. leggur til, að þessi þáltill. verði samþykkt.