05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3617)

164. mál, samgöngur við Færeyjar

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt fimm öðrum hv. alþm. eftirfarandi þáltill.: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að vinna að því, að samgöngur milli Íslands og Færeyja verði sem beztar. Jafnframt verði keppt að því að efla samskiptin við Færeyinga, bæði á sviði viðskipta- og menningarmála.“

Þegar þessi till. var flutt lá fyrir, að breytingar mundu verða á Færeyjaflugi. Undanfarin ár hefur Flugfélag Íslands annazt þetta flug í samvinnu við SAS, en flugið milli Færeyja og Danmerkur er talið innanlandsflug, og heimila loftferðasamningar ekki flug Flugfélags Íslands milli þessara landa án samþykkis danskra yfirvalda. Hins vegar er, eins og kunnugt er, í gildi samningur um millilandaflug, og er Flugfélagi Íslands heimilt að halda áfram flugi til Færeyja og þaðan til Skotlands og Noregs, ef félagið telur sig geta haldið uppi slíkum samgöngum. Nú hefur sú breyting, sem boðuð hafði verið, tekið gildi, og Flugfélag Íslands er ekki lengur aðili að flugi milli Færeyja og Danmerkur, heldur hefur SAS tekið að sér það flug og fengið það á hendur litlu flugfélagi, sem Mærsk nefnist, en verið er að stofna félag með nafninu Danair, og hugmyndin er, að það annist þetta flug. Þrátt fyrir þessar breytingar heldur Flugfélag Íslands áfram nokkru flugi héðan til Færeyja, og er nú ein ferð farin í viku hverri milli Íslands og Færeyja, en þær verða væntanlega tvær í sumar, og eitthvað mun verða flogið frá Færeyjum til Glasgow. Ljóst er, að það er miklum annmörkum háð að sinna þessu flugi án þess að njóta hagnaðar af fjölförnustu grein þess, sem er milli Færeyja og Danmerkur. Kann þess vegna að verða hætta á því, að flugsamgöngur milli Íslands og Færeyja verði strjálli í framtíðinni en verið hefur og jafnvel, að þær falli alveg niður, ef verulegur halli yrði á þessu flugi. Nauðsynlegt er þess vegna, að íslenzk stjórnvöld fylgist með framvindu mála og veiti atbeina sinn til þess að treysta samgöngur milli landanna. Ljóst er, að Færeyingar eru ekki ánægðir með þá þróun, sem orðið hefur í þessum málum að undanförnu, enda meta þeir mjög mikils starfsemi Flugfélags Íslands. Vafalaust hefði verið æskilegast, að samkomulag hefði tekizt milli Færeyinga, Dana og Íslendinga um samvinnu um þetta flug, og er eðlilegt, að íslenzk stjórnvöld styðji að slíkri samvinnu, þótt vera kunni, að ekki sé grundvöllur fyrir henni nú sem stendur.

Eins og að er vikið í grg., hafa samskipti Færeyinga og Íslendinga verið allt of lítil að undanförnu og raunar alla tíð. Leikur ekki á tveim tungum, að báðar þjóðirnar gætu haft margvíslegan hagnað af því að auka samband sín á milli, ekki sízt á þeim tímum, þegar bæði smáþjóðir og smáfyrirtæki eiga undir högg að sækja vegna voldugra heilda, margháttaðrar samvinnu og samsteypu fyrirtækja. Bættar samgöngur á undanförnum árum hafa stuðlað að því, að nokkuð hefur mjakazt í þá átt, að samskiptin ykjust á milli þjóðanna, en miklu meira má gera í því efni. En þótt samvinna á sviði viðskipta og efnahagsmála sé báðum þjóðunum mikilvæg, þá er hitt þó aðalatriðið, að Íslendingar og Færeyingar eru náskyldar þjóðir og ekki er vansalaust, hve takmörkuð samskipti þeirra á sviði menningarmála hafa verið. Það er ekki óeðlilegt, að Íslendingar hefðu frumkvæðið að því að auka þessi samskipti, og kemur þá margt til greina. T.d. mætti auðvelda færeyskum námsmönnum að sækja menntun til Íslands með því að veita færeyskum stúdentum styrki til náms við Háskólann og raunar líka að athuga, hvort unnt væri að gera færeyskum stúdentum kleift að verða aðilar að lánasjóði stúdenta, ef þeir sæktu nám hingað til lands. Áherzlu ætti að leggja á sölu færeyskra bóka á Íslandi og íslenzkra bóka í Færeyjum. Íslenzkir og færeyskir blaðamenn þyrftu að auka samskipti sín, embættismenn og stjórnmálamenn að sækja Færeyjar heim og bjóða færeyskum starfsbræðrum að koma hingað til lands, og atvinnurekendur og sérfræðingar þyrftu að skiptast á skoðunum og auka samvinnu sína. Margt fleira kemur auðvitað til greina, svo sem aukin samskipti íþróttamanna, heimsóknir íslenzkra leikflokka til Færeyja og færeyskra leikflokka hingað, sýningar á málverkum hvorrar þjóðarinnar fyrir sig í hinu landinu, samvinna tónlistarmanna o.s.frv. En tíminn mun leiða það í ljós, hvernig þessu samstarfi veður bezt háttað. Meginatriðið er, að ekki falli niður það samband, sem á s.l. árum hefur verið á milli þjóðanna, heldur verði allt gert, sem unnt er, til að auka það og bæta.

Ég sagði áðan, að samskipti milli Íslendinga og Færeyinga hefðu verið allt of lítil. Á þessa staðreynd hefur raunar áður verið bent, þó án þess að verulegar úrbætur yrðu. Þannig má t.d. til gamans rifja það upp, að Jón Helgason ritaði árið 1919 grein, sem hann nefndi „Færeysk þjóðernisbarátta“, og í henni segir m.a. um leiðir til þess að auka samskipti íslendinga og Færeyinga, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrst og fremst getum við keypt færeyskar bækur miklu meira en við gerum, við munum ekki iðrast þess. Aldrei er verra að vita, hvernig aðrir hugsa en maður sjálfur. Og ef við komum á annað borð auga á, hve náskylt bæði mál og annað er með okkur og Færeyingum, er engin hætta á, að okkur líði það nokkru sinni aftur úr minni. Ef Færeyingar gætu treyst því, að nokkur hundruð eintök mundu seljast á Íslandi af hverri nýtilegri bók, sem þeir gæfu út, ætti það að geta orðið þeim nokkur styrkur. Bezta ráðið að kenna Íslendingum að læra færeysku er sennilega það að gefa út nokkra færeyska leskafla með íslenzkum skýringum, málfræði og orðasafni. Þá þyrfti að gefa út tilsvarandi bók handa Færeyingum með íslenzkum lesköflum, því að þeir eiga að sjálfsögðu eigi síður að lesa okkar mál en við þeirra. Íslenzk blöð ættu að flytja ritdóma um færeyskar bækur og helzt líka greinar á færeysku við og við. Íslenzkir bókaútgefendur ættu að senda fáein eintök af því, sem þeir gefa út, til bókasafnanna í Færeyjum, svo sem amtsbókasafnsins og bókasafna skólanna, fyrst og fremst lýðháskólans. Íslenzkir unglingar þurfa að komast í bréfaskipti við jafnaldra sína færeyska. Málið ætti ekki að vera til baga. Það þarf að fá til Íslands færeyska fyrirlesara og Íslendinga til Færeyja í sama skyni. Og væri loks ekki ráð að stofna íslenzkt- færeyskt félag til að vinna að öllu þessu og mörgu öðru?“

Þótt þegar fyrir hálfri öld og raunar nokkru sinni. síðar hafi þannig verið vakin athygli á því, hve fráleitt það er, að samskipti Íslendinga og Færeyinga skuli ekki vera meiri en raun hefur á orðið, hefur lítil breyting orðið til bóta. Helzt er það nú hin allra síðustu ár, að fólk í báðum löndunum gerir sér grein fyrir því að auka þarf samstarfið milli þjóðanna, og er það vafalaust fyrst og fremst að þakka flugsamgöngum, sem haldið hefur verið uppi.

till. þessari standa þm. úr öllum þingflokkum, og leyfi ég mér að vænta þess, að allir hv. alþm. séu sammála um það, að eðlilegt sé að Alþingi Íslendinga samþykki till. sem þessa. Af þeim sökum ætti að vera óþarft að hafa um hana öllu fleiri orð. Ég legg til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. allshn. og vænti þess, að n. afgreiði hana frá sér fljótlega, þannig að hún verði samþ. sem ályktun Alþingis.