05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

164. mál, samgöngur við Færeyjar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda ræðu, því að það er óþarfi að bæta við það, sem hv. 1. flm. sagði um þetta mál, en ég gerðist meðflutningsmaður þess með mikilli ánægju, enda geri ég ráð fyrir, að segja megi, að það standi ekki öðrum nær en fulltrúum Austfirðinga að stuðla að auknum samskiptum við Færeyjar, því að þótt Færeyingar hafi á liðnum tíma haft mikil samskipti við marga Íslendinga, þá hafa þau þó ekki verið jafnnáin við aðra en einmitt Austfirðinga.

Ég átti því láni að fagna að dvelja í Færeyjum eina viku s.l. sumar, þegar menningarmálanefnd Norðurlandaráðs hélt þar fund sinn í Þórshöfn. Ég hafði lengi hugsað sér að reyna að komast til Færeyja í heimsókn, en þessi draumur rættist s.l. sumar, og ég verð að segja, að það rann upp fyrir mér á þessum dögum, sem við vorum í Færeyjum, hvílíkt tjón það hefur verið, ekkert síður Íslendingum en Færeyingum, hvað samskipti þessara þjóða hafa í raun og veru verið lítil, sérstaklega á menningarsviðinu, þó að samskipti þeirra í atvinnumálum hafi verið ærið náin. Ég vil því mjög eindregið vænta þess, að hv. Alþ. styðji þessa till. og hún verði upphaf nýrra tíma í þessum efnum.