17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

1. mál, fjárlög 1971

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Sem betur fer er nú afgreiðsla fjárl. að komast á lokastig, og ég vil enn við þessa umr. láta í ljós þakkir mínar til hv. fjvn. fyrir hennar störf og þá samstöðu, sem orðið hefur í n. yfir höfuð að virðist vera um þær brtt., sem gerðar eru og sem allar í meginatriðum hafa verið gerðar í fullu samráði við mig og ég hef því ekkert við að athuga á neinn hátt. Það eru nokkur einstök atriði, sem ég vildi minnast á við þessa umr., því að ég tek undir það, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að hér er hvorki staður né stund til þess að fara að ræða almennt um fjárl. málefnalega. Það var gert við 2. umr. og þarflaust að endurtaka það og vona ég, að við getum því við þessa umr. haldið okkur við þær till., sem fyrir liggja, og þau sérstöku atriði, sem nauðsynlegt er að taka til athugunar.

Fyrst vildi ég víkja að tveimur síðustu heimildatill. við 6. gr. frv. Fyrri till. er um það, að heimilað sé að taka lán í Seðlabanka Íslands, allt að 10 millj. kr., til að greiða aukið framlag til Hinnar alþjóðlegu framfarastofnunar (lDA), sem eins og hv. þm. er kunnugt um er ein af dótturstofnunum Alþjóðabankans. Þessi stofnun gegnir geysilega mikilvægu hlutverki og í sívaxandi mæli hefur starfsemi hennar beinzt að því að aðstoða þróunarlöndin með mjög hagkvæmum lánveitingum og styrkjum til þess að byggja upp efnahagslíf sitt og menningarlíf. Starfsemi þessarar stofnunar hefur, eins og ég sagði, aukizt mjög stórlega á síðustu árum, sérstaklega undir forustu núverandi forseta Alþjóðabankans, McNamara, sem hefur lagt geysimikla áherzlu á það að veita aðstoð í gegnum þessa dótturstofnun bankans, og það er ætíð svo á aðalfundum Alþjóðabankans, að það er umfram allt starfsemi þessarar stofnunar, sem af hálfu fulltrúa þróunarlandanna er lögð áherzla á að efla og sem þróunarlöndin binda vonir sínar við. Það hefur oft verið um það rætt, að við Íslendingar ættum að styðja þróunarlöndin og hafa verið uppí ýmsar till. um það. M. a. er nú á Alþ. sérstakt frv. um það efni, sem gera má ráð fyrir að verði samþ. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að gagnlegasta aðstoð, sem við gætum veitt þróunarlöndunum, væri sú að styrkja IDA, þá stofnun, sem hér er um að ræða. Við erum nú þegar meðlimir í IDA ásamt öllum öðrum þátttökulöndum Alþjóðabankans. En meðlimalöndum IDA er skipt í tvo flokka, þ. e. I. og II. flokks lönd og við erum enn þá í II. flokki styrktarlanda IDA. Við höfum greitt að fullu framlag okkar sem slíkir, en þess hefur hvað eftir annað verið óskað af forráðamönnum Alþjóðabankans, að við gerðumst I. flokks land, sem kallað er, þ. e. a. s. veittum aðstoð í samræmi við þá sérstöku aðstoð, sem veitt er af hinum sérstaka hópi styrktarlanda stofnunarinnar. Og í þeim hópi eru öll hin Norðurlöndin og öll hin efnaðri lönd heims. Og á það hefur verið bent af Alþjóðabankanum hvað eftir annað, að þó að við að vísu værum fáir og smáir hér, væri því víðs fjarri, að við værum nokkurt þróunarland efnahagslega og ættum að vera í þessum flokki.

Síðustu árin höfum við bent á erfiðleika okkar í efnahagsmálum, sem væru því til hindrunar, að við gætum gerzt hér aðilar að, en nú er það skoðun ríkisstj., að rétt sé, að Ísland færist upp í styrktarland eða I. flokks styrktarland IDA, sem mun kosta væntanlega á þessu ári, þó ekki víst, að það þurfi að greiða það nú og því er það sett í heimildargrein, 10 millj. kr., sem er þriðjungurinn af því framlagi, sem nú er verið að safna, sem er þriðja aukaframlag til stofnunarinnar. Og mundi hlutur Íslands í því nema samtals 30 millj. kr. Þessi skýring taldi ég rétt, að kæmi sérstaklega fram hér varðandi þetta atriði, þar sem í þessu felst í senn heimild til lántöku og heimild til þess, að Ísland gerist I. flokks styrktarland þessarar mikilvægu stofnunar við þróunarlöndin og sem ég vil einnig benda á, að Alþjóðabankinn leggur mjög mikið upp úr, að við gerum og má segja, að að vissu leyti sé því hér um að ræða atriði, sem komi okkur sjálfum að gagni, vegna þess að við þurfum mikið til Alþjóðabankans að sækja, og tel ég því, að það skipti miklu máli, að við sinnum óskum bankans að þessu leyti um leið og við gerum ótviræða skyldu okkar í því að styðja þróunarlöndin.

Varðandi síðasta lið heimildartill. við 6. gr., sem er í því fólginn að heimila lántöku að heildarupphæð 260 millj. kr. eða jafnvirði hennar í erlendum gjaldeyri, er það að segja, að hér er um tvíþætt mál að ræða. 200 millj. af þessari fjárveitingu er ætlað að gangi til hraðbrauta. Það er þegar áfallin 150 millj. kr. skuld vegna hraðbrautaframkvæmda á þessu ári, sem ekki greiðist af lánsfé Alþjóðabankans og er í sambandi við hraðbrautarlagninguna hér austur fyrir fjall. Í hraðbrautaáætluninni er jafnframt gert ráð fyrir því, að unnið verði að öðrum hraðbrautaframkvæmdum, þó að vísu í smáum stíl sé, umfram þær stóru framkvæmdir, sem hér er talað um á Vesturlandsvegi og Austurlandsvegi, en það er fyrst og fremst í grennd við Akureyri, þar sem er orðið mjög erfitt um vik, ef ekki verður ráðizt í veigamiklar lagfæringar á einmitt þeim vegarkafla, sem ætlunin er, að verði í hraðbrautaflokki, og er gert ráð fyrir því, að eitthvað verði unnið að þeim málum nú á þessu sumri og hluti af þessu fé gangi þá til þess að fjármagna þá framkvæmd.

Í þriðja lagi er hér vikið að máli, sem ekki hefur verið gerð grein fyrir hér á þingi áður og ég tel því nauðsynlegt að víkja að, en þar er rætt um, að 60 millj. komi til vegaframkvæmda samkv. samgönguáætlun fyrir Austurland. Ég hygg að vísu, að að þessu hafi verið vikið hér áður á hinu háa Alþ., að unnið væri að samgönguáætlun fyrir Austurland, sem er framkvæmdaáætlun í framhaldi af áður gerðum áætlunum, annars vegar samgönguáætlun Vestfjarða og hins vegar atvinnumálaáætlun fyrir Norðurland, og er fyrir alllöngu síðan hafinn undirbúningur að þessari vegaframkvæmdaáætlun fyrir Austurland í samræmi við óskir Atvinnujöfnunarsjóðs, sem gert er ráð fyrir, að hafi með höndum þessa áætlanagerð, þó að vísu bæði samgönguáætlun Vestfjarða og áætlunin fyrir Norðurland hafi verið til komin, áður en Atvinnujöfnunarsjóður fékk þetta hlutverk og væru því unnar á vegum ríkisstj., en það skiptir ekki meginmáli. Þessari áætlunargerð er nú að ljúka, og það hefur ætíð verið á það lögð áherzla og verið svo framkvæmt í sambandi við þær tvær áætlanir, sem ég áður vék að, að kappkosta, að áætlanir þessar yrðu ekki neitt pappírsplagg, heldur yrði þegar hafizt handa um framkvæmd þeirra, en þær ekki lagðar niður í skúffu, og þó að ekki hafi endanlega verið gengið frá þessari áætlun og Atvinnujöfnunarsjóður ekki endanlega samþykkt hana né heldur ríkisstj., þá þykir samt vera rétt að gera hér ráð fyrir því, að hafizt verði handa um framkvæmd þessarar áætlunar þegar á næsta ári og það má gera ráð fyrir, að áætlun þessi muni kosta samtals um 300 millj. kr., sem mundi skiptast á 5 ár og mundi þá verða 60 millj. kr., sem kæmi til framkvæmda á árinu 1971.

Þetta eru þau tvö atriði, sem ég vildi sérstaklega geta um í sambandi við till. þær, sem fluttar eru af hálfu n., og skýra.

Þá tel ég rétt, að það komi fram í sambandi við brtt. þá, sem gerð er varðandi dagblöðin, að henni er skipt í tvennt, þeirri till.: Annars vegar um kaup á 300 eintökum af dagblöðunum, og jafnframt hef ég lagt áherzlu á, að það kæmi fram sú skoðun, hvort rangt væri að farið varðandi það, sem þegar hefur verið framkvæmt, að kaupa einnig í því sambandi höfuðmálgagn þess þingflokks, sem ekki hefur dagblað, þ. e. a. s. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, og því tel ég rétt, að það komi greinilega fram í fjárlagaheimildinni, þannig að ég verði ekki sökum borinn fyrir að hafa í frammi neina óhæfu í því efni. Í annan stað tel ég ekki auðið að fallast á að kaupa meira en 300 eintök og því verði það að liggja ljóst fyrir, ef menn vilja, að veittur verði frekari styrkur í því efni, þá verði það veitt sem beinn styrkur, og þess vegna er þessari upphæð skipt. Ég skal hins vegar geta þess, að hin upphæðin er miðuð við 300 eintök, þannig að þótt einhver verðbreyting verði á blöðunum, þá mun ekki verða lækkuð sú eintakatala, heldur mun það leiða þá aðeins til hækkunar á því framlagi. Þannig mun ég framkvæma þá heimild, ef veitt verður.

Í þriðja lagi er rétt, að það komi fram hér, að í sérstakri athugun er sérstök aðstoð við þingflokkana, en ég vék að því í sambandi við, þegar þessi mál voru til umr. á síðasta þingi, að það væri eðlilegra, að þetta væri tekið upp að einhverju leyti sem aðstoð við þingflokkana og það hefur, að ég hygg, orðið um það samkomulag, að á framhaldsþinginu verði undirbúin eða fyrir framhaldsþingið verði undirbúin sérstök löggjöf, sem geri ráð fyrir aðstoð við þingflokkana með sérstökum hætti, sem ég sé ekki ástæðu til þess að víkja efnislega nánar að hér, en tel rétt aðeins, að komi fram hér til skýringar því, að þessi upphæð, sem hér er veitt dagblöðunum sem slíkum, er ekki jafnhá eins og upphæðin var, sem veitt er í fjárl. ársins í ár. En það ber að skilja með hliðsjón af því, að þess er að vænta, að sérstök aðstoð verði veitt þingflokkunum og hef ég talið nauðsynlegt að setja um það sérstaka löggjöf.

Varðandi horfurnar um jöfnuð á fjárlagafrv., eins og nú standa sakir, er það að segja, að enn eru þar ekki öll kurl til grafar komin, því að eins og hv. 3. þm. Vesturl. vék hér réttilega að, er ekki enn þá lokið samningum við opinbera starfsmenn. Og meðan þeim er ekki lokið hef ég ekki talið rétt að taka inn í frv. neina sérstaka tölu í sambandi við kostnað af þeim samningum, en hins vegar er óneitanlega greiðsluafgangur frv. við það miðaður, að það sé hægt að rísa undir þeim tilkostnaði. Og enda þótt ég vilji ekki á þessu stigi nefna ákveðna tölu í því sambandi, þá er það skoðun mín, að með þeim greiðsluafgangi, sem er á frv., muni takast að jafna þann nettókostnað, sem verður á útgjöldum ríkissjóðs vegna samninganna við opinbera starfsmenn, en hins vegar sé ekki um að ræða neinn frekari afgang á fjárlagafrv. og því sé ekki auðið að hækka útgjöld ríkissjóðs meira, heldur verði að skilja eftir þennan afgang. Ég segi hér nettó, ég geri ráð fyrir, að útgjaldaaukningin verði hærri brúttó. En á móti kemur það, að niður munu verða felldar ýmsar aukagreiðslur, sem þróazt hafa á síðustu árum vegna bágborinna launakjara ýmissa hópa opinberra starfsmanna. Hér hafa áður verið til umr. á Alþ. aukagreiðslur, sem veittar hafa verið t. d. ríkisforstjórum. Þetta hefur einnig átt við um ýmsa sérfræðinga og starfshópa, og ákveðið er, að allt slíkt falli niður við tilkomu þeirra samninga, sem nú verða gerðir, og ég vonast til, þó að það sé rétt að fullyrða ekkert um það fyrr en allt er endanlega til skila komið og menn hafa sett nöfn sín undir samninga, að samningar náist nú fyrir þessa helgi, ef ekkert óvænt kemur fyrir. En þetta tel ég nauðsynlegt, að komi fram hér, bæði vegna þess að þm. eiga að sjálfsögðu rétt á að fá að vita um þetta atriði svo gerla sem auðið er og einnig vegna hins, að nauðsynlegt er í sambandi við brtt. að gera sér grein fyrir því, að þó að hér sýnist vera um töluvert mikinn greiðsluafgang að ræða, þá er sá greiðsluafgangur ekki til, og það hlýtur að marka afstöðuna til þess, hvort auðið er að fallast á hækkun fjárlagafrv. frá því, sem gert er ráð fyrir í till. fjvn. Það tel ég sem sagt ekki auðið og get bætt við þar því miður, vegna þess að sumar hugmyndir, sem uppi hafa verið, óskir um útgjöld, eru vissulega þess eðlis, að það hefði verið ánægjulegt að geta sinnt þeim, en um það er ekki að ræða, vegna þess að það kemur að mínu mati ekki til nokkurra mála að afgreiða fjárlögin með greiðsluhalla.

Ég held ekki, herra forseti, að það sé ástæða til, að ég ræði málið frekar, nema sérstakar fyrirspurnir komi fram eða tilefni verði til, en ég taldi rétt að gera grein fyrir þessum einstöku atriðum, sem ég hef hér gert að umtalsefni.