19.03.1971
Sameinað þing: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3637)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör, sem hann veitti við fsp., sem ég bar fram hér fyrr á fundinum, en ég kvaddi mér hljóðs út af því, sem stendur á bls. 2 í till. undir 7. tölul., þar sem segir: Til nýrra framkvæmda í þjóðbrautum og landsbrautum á árinu 1971 39.2 millj. og á árinu 1972 32.8 millj. Í sambandi við þetta var ég að gera aths. við það, að í bráðabirgðaáætluninni fyrir 1972 væri ekkert gert ráð fyrir kostnaðarhækkun við vegagerð. Ég gerði þessar aths. vegna þess, að það leiðir af sér, að talan á bls. 2 um fé til nýrra framkvæmda til landsbrauta og þjóðbrauta, 32.8 millj., er af þessum ástæðum ekki rétt. Frá henni hljóta að dragast a.m.k. í kringum 20 millj., ef ég skil þessa tölu rétt, sem er 17.5% hækkun á þeim upphæðum, sem í gildi eru til einstakra vega, en þessi 17.5% hafa, ef ég hef skilið töluna rétt, ekki verið lagðar ofan á fyrir árið 1972, þó að þær hafi verið lagðar ofan á, eins og rétt er, fyrir 1971. Af þessum ástæðum gefur talan 32.8 millj. á bls. 2, 7. tölul., ekki rétta hugmynd um það, sem til nýrra framkvæmda verður á því ári. Mér sýnist, að í staðinn fyrir 32.8 millj. ættu frekar að koma 12 millj., ef ég skil þessa tölu rétt. Vera má, að þar sé misskilningur í. Ég held, að það sé samt ekki. Ég sé, að tölurnar á bls. 4, tölurnar fyrir 1972, eru ekki hækkaðar, hvorki til þjóðbrauta né landsbrauta af þessum ástæðum.