05.04.1971
Sameinað þing: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3641)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. okkar minni hl. fjvn. á þskj. 825, varð ekki ágreiningur í fjvn. um skipti á þeirri fjárhæð, er til skipta var í vegáætlun þeirri, sem hér er til afgreiðslu. Það var ekki heldur ágreiningur hjá einstökum þm. í kjördæmunum um skiptingu innan kjördæmanna, þar sem allar þær till., er n. bárust, voru samhljóða og voru af hennar hendi afgreiddar þannig. Hins vegar töldum við í minni hl. rétt að skila sérstöku nál., og ber þar tvennt til: að við berum ekki ábyrgð á framkvæmd í vegagerð hjá núverandi valdhöfum og enn fremur vildum við koma að sjónarmiðum okkar í sambandi við afgreiðslu vegáætlunarinnar.

Það er ljóst, eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., að brýna nauðsyn ber til að auka fé til vegaframkvæmda á næsta ári og vegáætlun fyrir það ár og næstu fjögur ár verður ekki afgreidd, án þess að verulega aukið fjármagn komi þar til. Þess vegna viljum við leggja áherzlu á það, að þær leiðir, sem farnar hafa verið í sambandi við tekjuöflun til vegagerðar, eru ekki færar lengur að okkar dómi. Það hefur þegar sýnt sig, að ekki er hægt að hækka svo skattana á umferðinni eins og gert hefur verið á þessu kjörtímabili, sem nú er að líða, þar sem nú þegar er að byrja að draga úr sölu t.d. á benzíni. Það er heldur ekki rétt stefna að gera hvort tveggja í senn, að hafa há aðflutningsgjöld á bifreiðum og háa skatta á rekstrinum. Á þessu þingi var gerð tilraun til þess að lækka aðflutningsgjöldin af bifreiðum vegna atvinnubílstjóra, sem eru í leigubílaakstri, en það tókst ekki nema að takmörkuðu leyti. Það hlýtur að verða stefna framtíðarinnar að samræma þessi sjónarmið og draga þá úr aðflutningsgjöldunum, fyrst rekstrarliðir þeirra eru svo háir sem raun ber vitni um.

Það mun vera öllum hv. þm. ljóst, að eins og nú er komið, verður að sækja aukið fjármagn til ríkissjóðs af þeim tekjum, sem ríkissjóður hefur frá umferðinni og áður hefur verið að vikið. Ég held, að það sé nú að verða almenn skoðun hv. þm., að þannig verði að mæta tekjuþörf Vegasjóðs við næstu vegáætlunargerð. Þetta vildi ég undirstrika í sambandi við afgreiðslu vegáætlunarinnar nú, að þannig verður að standa að fjármögnun Vegasjóðs á næsta ári. Enn fremur vil ég víkja að því, að það ber brýna nauðsyn til að marka ákveðna stefnu um það, hvernig á að standa að framkvæmdum í vegagerð nú, þegar hraðbrautagerð fer að verða nokkur þáttur í vegaframkvæmdum. Þá verður að gera það upp við sig og marka ákveðna stefnu um það, hvort á að hverfa frá malarvegunum, sem við búum við nú, til hraðbrauta af beztu gerð eins og lagðar hafa verið út frá Reykjavík og verið er að leggja, eða hvort þar á að taka nokkurt millistig til þess að hraða framkvæmdum og komast þá með vegina að því marki, að þeir verði ryklausir og holulausir, þó að varanleg vegagerð verði að bíða síðari tíma. Mér sýnist öll rök hníga að því, að þannig verði að vegamálunum að standa, vegna þess að það muni reynast of seinvirkt að leggja hraðbrautir af fullkomnustu gerð nú með því fjármagni, sem við höfum yfir að ráða, og það geti ekki verið gerlegt nema í mestu umferðinni hér í kringum Reykjavík. Jafnhliða þessu finnst mér nauðsyn bera til að marka stefnu um það, hvaða vegi við eigum að leggja áherzlu á í sambandi við uppbyggingu vegakerfisins í landinu, þegar um fleiri leiðir er að velja, eins og verður með ýmsar þær framkvæmdir, sem nú er verið að vinna að. Mér finnst t.d. brýna nauðsyn bera til þess á næstu árum að marka ákveðna stefnu um það, hvort Norðurlandsumferðin á að vetri til að fara um Heydal og Laxárdalsheiði til Hrútafjarðar eða hvort byggja á veginn um Holtavörðuheiði þannig upp, að þar verði einnig varanlegur vetrarvegur. Fleiri slík verkefni eru til í vegagerðinni, sem þarf að marka ákveðna stefnu um. Þá vil ég undirstrika það, að brýna nauðsyn ber til að hraða lagningu hringvegarins í kringum landið og uppbyggingu þeirra þjóðbrauta og landsbrauta, sem nú eru ekki komnar lengra en það að vera ruddir vegir.

Ekki þarf orðum að því að eyða, að verkefni okkar í vegamálum eru stórfelld, og þess vegna munu þau reynast næg á næstu árum og áratugum, því að okkar land er lítt vegað sem kunnugt er, þegar miðað er við þá umferð, sem nú er að verða hér á landi. Við þurfum því að vinna að því markvisst að halda uppbyggingunni í vegakerfinu áfram, og ég vil undirstrika það, sem ég sagði hér við fyrri umr. þessa máls, að einn veigamikill þáttur og kannske einna veigamestur í því, að vegagerð geti haldið áfram með eðlilegum og vaxandi hraða, er, að festa verði í efnahagsmálum þjóðarinnar, svo að gengisáhætta sú, sem Vegasjóður býr nú við, verði honum ekki að fjörtjóni eða fjötur um fót á næstu árum. Þetta vil ég segja við afgreiðslu þessarar vegáætlunar, en skal ekki eyða fleiri orðum þar um.