05.04.1971
Sameinað þing: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3644)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég mun verða stuttorður, aðeins svara fsp. frá hv. þm. Hann talaði um snjómokstur á milli Vopnafjarðar og Þórshafnar, og ég verð að segja það, að ég hef mesta samúð með því, að það sé hægt að bæta úr því. Mér hefur nú nýlega borizt bréf, það var í marzmánuði s.l., frá vegamálastjóra um þessi mál í tilefni af bréfi hv. tveggja þm. Norðurl. e. varðandi snjómoksturinn. Á þessari leið, sem hér um ræðir, er samkv. reglunum gert ráð fyrir að opna vegina einu sinni í mánuði. Og segja má, að það sé ekki mikið. Ég hefði mesta samúð með því, að hægt væri að gera þetta oftar, og það hefur staðið til að endurskoða snjómokstursreglurnar. Það er ekki unnt að taka eina leið út úr. Það verður að hafa yfirsýn yfir allt landið, og það kostar stórfé, eins og hv. þm. vita. Á s.l. ári kostaði vetrarviðhaldið 46 millj. kr., en það er að langmestu leyti snjómokstur. Kostnaður við snjómokstur á þessum leiðum, sem hér um ræðir, var árið 1970: Húsavík — Raufarhöfn 520 þús., Raufarhöfn Þórshöfn 210 þús. og Þórshöfn —Vopnafjörður 280 þús. Ég verð nú að segja það við hv. fyrirspyrjanda, að vetrinum er nú að ljúka að þessu sinni og snjóalög eru ekki mikil, þótt læknirinn hafi nú ekki komizt þessa leið, en ég tel alveg sjálfsagt, að þessi reglugerð verði endurskoðuð með það fyrir augum að opna oftar en verið hefur leiðina, þegar sýnilegt er, að það sé ekki til einskis. Það þýðir náttúrlega ekki að vera að moka opna leiðina, ef það er skafbylur. Í þessu bréfi hefur vegamálastjóri lagzt gegn því, að þetta væri gert að þessu sinni, en við höfum rætt um það, að vorið og sumarið verði notað til þess að gera endurskoðun á snjómokstursáætluninni og það verði þá tilbúið fyrir haustið. Þá á einnig að endurskoða vegáætlunina, og þá þarf, ef mögulegt er, að ætla fjármagn í þetta. Og það veit ég, að hv. fyrirspyrjandi skilur.

Um Dettifossveginn var rætt hér við fyrri umr. Hv. þm. segir eins og er, að ég hafi tekið því líklega. En ég tók það ekki svo, að ég ætti að koma þessari ósk þm. á framfæri í hv. fjvn. Það hélt ég, að hann mundi gera sjálfur. Mér finnst það koma vel til greina að gera Dettifossveg að aðalfjallvegi. En ég tel, úr því að búið er að skipta öllu fjármagninu upp með góðu samkomulagi þm. kjördæmanna, að þá sé ekki stór skaði skeður, þó að það bíði eftir næstu endurskoðun.