05.04.1971
Sameinað þing: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (3647)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að svara fyrir hv. 4. þm. Reykv., en mér finnst ekkert undarlegt, þó að hann sé ekki búinn að lesa þessar till., sem hér liggja fyrir. Ég efast um, að það sé nokkur búinn að lesa þær. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. samgrh. hafi lesið þær, en líklega ekki margir aðrir. Það hefur enginn tími verið til þess að lesa þessar till. Og er það satt að segja nokkuð öðruvísi en ætti að vera.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og samúðina, sem hann lét í ljós við fólkið á Norðausturlandi, sem er læknislaust og getur ekki fengið rudda vegina, svo að læknarnir úr nágrannahéruðunum geti komizt þangað landveginn, þegar á þarf að halda. En samúðin er ekki nóg. Hæstv. ráðh. sagði það, ég held í apríl í fyrra, að hann ætlaði að láta endurskoða snjómokstursreglurnar. Það var í tilefni af spurningu, sem ég bar fram. Nú segir hann aftur þetta sama, að hann ætli að láta endurskoða snjómokstursreglurnar. Og ég vona, að samúð hæstv. ráðh. eigi nú eftir að aukast svo, að hann láti úr þessu verða, láti úr þessu verða einhvern tíma í vor að ljúka þessari endurskoðun á reglunum. Við erum ekki að fara fram á, að þessi landshluti sé tekinn út úr, eins og það var orðað, sé gert hærra undir höfði en öðrum landshlutum að því er varðar ruðning á vegum, heldur að þeir njóti jafnréttis. Það, sem við fórum fram á í fyrra, var það, að settar yrðu reglur um snjómokstur tvisvar í mánuði. Og það held ég nú, að hafi verið hóflegt. Nú sagði ráðh. raunar, að það mundi verða ofan á að moka einu sinni á ári og það væri búið að ganga inn á það að moka einu sinni á vetri. Og mér þótti nú gott að heyra það út af fyrir sig, því að á þessum vetri hefur aldrei verið mokað, en það verður þá væntanlega gert nú næstu daga að ryðja veginn milli Húsavíkur og Vopnafjarðar og er þess líka full þörf. Þessi vegur var einu sinni ruddur í fyrra, á ofanverðum vetri, það var af sérstökum ástæðum, sem ég ætla ekki að fara að nefna hér. Það vakti mikla athygli, þegar það var gert. Ég veit ekki, hvort Vegasjóður hefur greitt kostnaðinn við þann ruðning.