06.04.1971
Sameinað þing: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (3653)

295. mál, réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið

Frsm. minni hl. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu verða við þeirri bendingu frá hæstv. forseta, að eðlilegast sé að ræða báðar till. saman, en veit, að afgreiðsla þeirra verður að sjálfsögðu samt sem áður sitt í hvoru lagi að lokum.

Minni hl. utanrmn. telur, að hér sé um svo stórfellt mál að ræða, að eðlilegt væri, að þjóðin sjálf fengi tækifæri til þess að láta í ljós ótvírætt og alveg óbundið vilja sinn í því og því væri rétt að efna til þjóðaratkvgr. um málið samhliða alþingiskosningunum 13. júní. Þess vegna lagði minni hl. í utanrmn. fram svo hljóðandi till. í n.:

Utanrmn. samþykkir að leggja til við Alþ., að samhliða alþingiskosningunum 13. júní n. k. fari fram þjóðaratkvgr. um till. til þál. á þskj. 638 og 647.“

Þessi till. var felld í utanrmn. með 4:3 atkv. Minni hl. telur verr farið, að ekki náðist samkomulag um þjóðaratkvgr. um báðar till., því að með því móti hefðu menn getað tekið afstöðu til landhelgismálsins alveg ótruflaðir af samúð sinni eða andúð á flokkum og frambjóðendum í alþingiskosningunum sjálfum. Minni hl. telur þó þýðingarlaust að flytja sérstaka till. á Alþ. um þjóðaratkvgr., þar sem hann telur fullprófað í utanrmn., að stjórnarflokkarnir geta ekki á hana fallizt, og er þá að snúa sér að afgreiðslu þáltill. tveggja sjálfra. Hefði á hinn bóginn orðið samkomulag um þjóðaratkvgr., var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að afgreiðsla landhelgismálsins á Alþ. biði eftir úrslitum hennar þann 13. júní.

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að þáltill. á þskj. 647. Þessi þáltill. gerir í raun og veru ráð fyrir því frá okkar sjónarmiði séð í minni hl., að öllum ákvörðunum í landhelgismálinu verði skotið á frest. Við teljum allt verða jafnóljóst og áður um það, hvað ætlazt er fyrir í málinu, nái þáltill. samþykki. Kemur t.d. ekki fram í þáltill., hvort ætlunin væri að færa út landhelgina og notfæra sér hin áskildu réttindi á landgrunninu þannig að stefna að kvótaveiðum með öðrum þjóðum á landgrunninu. En okkur sýnist ríka nauðsyn bera til, að ákveðin stefna sé tekin í þessu efni.

Aðalákvæði till. er að kjósa nefnd til þess að semja og setja í nýtt frv. þau efnisákvæði varðandi landgrunnsog landhelgismálið, sem hv. Alþ. og ríkisstj. hafa þegar lögfest eða tekið ákvarðanir um og unnið að undanfarið. Við sjáum ekki þess vegna, að í því sé neitt nýtt.

Í þáltill., sem hv. meiri hl. n. styður, er ekki minnzt á landhelgissamninginn við Breta og Vestur-Þjóðverja né hvernig með hann skuli fara. Þó er sá samningur að okkar dómi í minni hl. alvarlegasta hindrunin á útfærsluleiðinni. Af þessu leiðir, að við teljum þessa þáltill. allsendis ófullnægjandi lausn á þessu máli og leggjum til, að hún verði felld, enda styðjum við þáltill. á þskj. 638, sem ég vil nú fara um nokkrum orðum.

Við, sem að þessari þáltill. stöndum, teljum ríka nauðsyn bera til, að Alþ. samþykki nú, einmitt nú, að færa út landhelgina. Útfærslustefnan í landhelgismálinu verði tekin upp á ný og þar með gert ljóst, svo að engum misskilningi valdi, að Íslendingar stefna ekki að því að deila veiðikvóta með öðrum þjóðum á sínu eigin landgrunni. Sem sé, að kvótastefnunni sé hafnað, en útfærslustefnan tekin upp. Hæfilegt teljum við í þessum áfanga að færa út þannig, að fiskveiðilandhelgin verði 50 sjómílur frá grunnlínum, og rétt, að jafnframt verði ákveðið, að íslenzk lögsaga varðandi mengunarvarnir verði 100 sjómílur.

Við leggjum áherzlu á, að útfærslan verði gerð áður en hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin og þó ekki síðar en 1. sept. 1972. Það er of áhættusöm leið að okkar dómi að bíða fram yfir ráðstefnuna, og frá okkar sjónarmiði hafa Íslendingar allt að vinna með því að bætast fyrir ráðstefnuna í hóp þeirra þjóða, sem einhliða hafa stækkað landhelgi sína út fyrir 12 mílur. Það styrkir stórum sóknina á ráðstefnunni gegn festingu 12 mílna landhelgi með alþjóðasamþykkt, að sem flestar þjóðir hafi einhliða fært lengra út, áður en til ráðstefnunnar kemur. Það gæti líka vel farið svo, takist ráðstefnan illa frá okkar sjónarmiði, að mun erfiðara yrði að færa út einhliða eftir hana en fyrir, að frekar tækist, ef svo færi, að halda því, sem búið er að gera, en gera alveg nýjar ráðstafanir, sem ekki samrýmdust nýjum samþykktum, sem ofan á yrðu á ráðstefnunni.

Hér kemur einnig til að ákveða, hvort Íslendingar eigi að vera í fararbroddi með þeim ríkjum, sem lengst vilja og þurfa að ganga í þessum efnum, eða koma á eftir og sætta sig við það, sem fellur til. Hætt er við, að illa hefði gengið með þreföldun landhelginnar á undanförnum áratugum, ef sá háttur hefði verið á hafður alla tíð.

Við viljum leggja ríka áherzlu á, að það hlýtur að styrkja okkur í þeirri baráttu, sem fram undan er, að láta það ekki dragast að taka ákvarðanir um útfærsluna sjálfa og tilkynna þá ákvörðun núna án tafar, m.a. þeim þjóðum, sem gera nú, einmitt nú, áætlanir um stóraukna sjósókn með stórskipum á okkar landgrunni. Yrði sá háttur á hafður, færi ekkert á milli mála, hvers væri að vænta af okkar hendi, og með engu móti verður þá sagt eftir á, að við höfum vanrækt að gera uppskátt um fyrirætlanir okkar, svo að tillit gæti orðið tekið til þeirra af öðrum í tæka tíð.

Við teljum, að landhelgissamningurinn við Breta og Vestur-Þjóðverja sé hættuleg hindrun á útfærsluleiðinni. Í honum eru ákvæði um, að við einir allra þjóða höfum ekki einhliða útfærslurétt á okkar eigin landgrunni, en séum bundnir Haag-dómstólnum. Alþjóðalög um víðáttu fiskveiðilandhelgi eru þó engin til í gildi handa Haag-dómstólnum að dæma eftir og allt undir mati dómsmannanna sjálfra, hvað þar yrði ofan á, ef til kæmi. Yfir þessa hindrun verður að komast áður en til útfærslu kemur, og þá með því að gera stjórnum Bretlands og Vestur-Þýzkalands grein fyrir því, að vegna lífshagsmuna íslenzku þjóðarinnar og vegna breyttra aðstæðna geti samningarnir ekki talizt bindandi fyrir Ísland og verði þeim sagt upp.

Enginn samningur getur verið óuppsegjanlegur eða þannig vaxinn, að hann skuli gilda um aldur og ævi. Er það sjónarmið nú almennt viðurkennt í umr. um landhelgismálið, og er það ávinningur, að það sjónarmið hefur verið viðurkennt í þeim umr., sem nú hafa farið fram um þessi efni.

Útfærsla landhelginnar nú er lífsnauðsyn. Þannig var það einnig 1958. Það var okkar skilningur, sem að þeirri útfærslu stóðum þá, að við ættum enga völ, enga valkosti, að Íslendinga biði ekki annað en að veslast upp, ef við ekki færðum út landhelgina. Þetta gaf okkur, sem ákvörðunina tókum þá, afl til þess að taka örlagaríka ákvörðun, sem óneitanlega fylgdi talsverð áhætta. En við álitum, að við ættum enga völ. Og var það ekki rétt? Hvað finnst okkur núna? Erum við ekki öll sammála um, að illa væri komið fyrir okkur nú, ef við hefðum ekki fært út landhelgina 1958, og útlendingar þar af leiðandi alla tíð herjað fiskimiðin inn að 4 mílum og gerðu það enn í dag? Og ég fullyrði, að 12 mílum hefðum við aldrei náð án einhliða ákvarðana okkar sjálfra 1958 og án þess að taka þá áhættu, sem því fylgdi. Samningar um slíkt voru gersamlega óhugsandi.

Aftur er svo komið, að við eigum enga völ. Aðeins ein leið er fær. Hún er sú að færa út landhelgina. Þess vegna verðum við að gera það. Við getum mætt erfiðleikum á þeirri leið, en samt getur það ekki endað nema á eina lund: Með sigri þess málstaðar, sem helgast af lífsnauðsyn, ef við sýnum einurð og þrautseigju. Og þjóðin mun einnig eins og þá sameinast, þegar á reynir.

Ég legg mikla áherzlu á nauðsyn þess, að sem flestir standi saman í landhelgismálinu. Það hefur einnig verið ríkjandi skoðun stjórnarandstæðinga undanfarið. Það voru stjórnarandstæðingar, sem tóku það upp í utanrmn. Alþ. í nóv. 1969, að samstarfsnefnd þingflokkanna yrði komið á um landhelgismálið, og það voru stjórnarandstæðingar í n., sem fylgdu þessu eftir allan veturinn, unz hæstv. ríkisstj. féllst á þá aðferð vorið 1970 að setja upp þá samstarfsnefnd í landhelgismálinu, sem starfað hefur síðan og unnið óneitanlega mikið starf og vafalaust mjög gagnlegt. Það eigum við sjálfsagt eftir að sjá, áður en lýkur.

Samstaða náðist að vísu ekki, eins og hinar tvær þáltill. bera vott um, enda geri ég ráð fyrir, að þeir séu æði margir, sem gera sér grein fyrir því, að þess var ekki að vænta, að allir gætu sameinazt um að skjóta nú á frest ákvörðunum í málinu.

En þótt svo fari, að ekki náist samkomulag um það nú, hvað gera skuli, þá er það bjargföst sannfæring mín, að þjóðin muni standa saman sem einn maður um útfærslu landhelginnar, þegar þar að kemur. Það var ekki samkomulag um útfærslu landhelginnar 1958. Langt frá því. Það var heiftar ágreiningsmál. En þjóðin, almenningur í landinu, sameinaðist um hana samt. Svo mun enn fara, og það skiptir mestu máli. Almenningsálitið skiptir sem sé mestu máli, þegar allt kemur til alls.