06.04.1971
Sameinað þing: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (3654)

295. mál, réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því, að úr því sem komið er, er ekki aðstaða til þess að ræða þetta mál hér ítarlega. Það er þegar komið að lokum þessa þings, og tími er naumur. Ég hygg líka, að það liggi nú nokkuð ljóst fyrir, að þeir flokkar hér á Alþ., sem fara með meirihlutavald, hafi komið sér saman um ákveðna afgreiðslu á því máli, sem hér liggur fyrir, og það verði því ekki miklu um þokað úr því sem komið er. Það er ljóst, að hæstv. ríkisstj. vill ekki á þessu stigi málsins, að tekin verði nein bindandi ákvörðun um stækkun fiskveiðilandhelginnar við landið. Hún vill bíða og telur enn nauðsynlegt að kynna málið öðrum þjóðum og kanna enn betur skoðanir annarra þjóða á þessu máli, þó að það liggi óumdeilanlega fyrir, að ríkisstj. hefur haft það verkefni frá Alþ. nú um 12 ára tímabil að eiga að kynna stefnu Íslendinga í þessu máli öðrum þjóðum og eiga að reyna að afla viðurkenningar annarra þjóða á rétti okkar í þessum efnum. Eigi að síður er það skoðun stjórnarinnar, að enn sé þörf á því að bíða með ákvarðanir og halda áfram þessu kynningarstarfi.

Eitt atriði hefur sérstaklega komið fram í þeim umr., sem orðið hafa um þetta mál að þessu sinni, en það snertir hina væntanlegu hafréttarráðstefnu, sem ráðgert er, að haldin verði árið 1973. Látið er mjög að því liggja, að ástæða sé til þess að bíða með ákvarðanir í málinu vegna þessarar væntanlegu ráðstefnu. Og í þeim efnum er orðum jafnvel hagað þannig, að helzt er á þeim að skilja, að á þessari ráðstefnu muni verða tekin bindandi ákvörðun um stærri fiskveiðilandhelgi, og helzt er að skilja á sumum þeim, sem talað hafa í þessu máli fyrir hönd hæstv. ríkisstj., að líta megi næstum á þessa væntanlegu hafréttarráðstefnu eins og nokkurs konar löggjafarsamkomu og því sé eðlilegt að bíða eftir því, að þessi samkoma setji lög um það efni, sem hér er um að ræða. Ég vil í sambandi við þetta atriði sérstaklega benda á það, að hér er farið algerlega rangt með varðandi eðli þessarar ráðstefnu. Í fyrsta lagi er það svo, að það er allsendis óvíst á þessu stigi málsins, hvenær þessi ráðstefna verður haldin. Það hefur að vísu verið gerð samþykkt um það, að ráðstefnan verði væntanlega haldin á árinu 1973, en þó var tekið skýrt fram í samþykkt um málið, að 27. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður á árinu 1972, gæti tekið ákvörðun um að fresta ráðstefnunni, ef undirbúningur hennar þætti ekki nægjanlegur. Það þótti sem sagt ástæða til þess að taka þetta sérstaklega fram í samþykktinni á þingi Sameinuðu þjóðanna að reikna allt eins með því, að til þess gæti komið, að það þyrfti að fresta þessum ráðstefnutíma. Ég tel því fyrir mitt leyti, að það geti alveg eins farið á þá leiðina, að þessari ráðstefnu verði frestað.

Þá er einnig þess að gæta, um hvað þessi ráðstefna er í raun og veru fyrst og fremst haldin. Því fer víðs fjarri, að þessi ráðstefna sé kölluð saman sérstaklega út af því máli, sem við Íslendingar berum aðallega fyrir brjósti, þ.e. að taka ákvarðanir um stærð fiskveiðilandhelgi. Meginmál þessarar ráðstefnu er í rauninni allt annað. Meginmál ráðstefnunnar er að fjalla um hin svonefndu hafsbotnsmál, sem eru gífurlega stór mál hjá fulltrúum á þingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem umr. um þau hafa staðið í langan tíma. Það er því verið að halda hér ráðstefnu fyrst og fremst til þess að reyna að setja almennar reglur um nýtingu auðæfa hafsbotnsins og margs konar fyrirkomulag í sambandi við yfirstjórn þeirra mála. Þetta er meginverkefni ráðstefnunnar.

Annað aðalatriðið í verkefnum þessarar ráðstefnu verður síðan að reyna að skilgreina nokkru nánar mörkin á milli hins svonefnda landgrunns, sem tilheyrir að fullu og öllu viðkomandi strandríki, og hins mikla hafsbotns, af því að það er vitað, að uppi eru misjafnar skoðanir hjá hinum einstöku þjóðum um það, hvernig skuli draga þessi mörk. En allt snýr þetta fyrst og fremst að hafsbotninum, bæði næst landinu og lengra út frá landi. Þetta eru meginverkefni þeirrar ráðstefnu, sem boðað er til, þó með þeirri óvissu, sem ég gat um í upphafi míns máls.

Hin atriðin, sem síðan snerta hin almennu landhelgismál, hefur þótt rétt að taka upp í sambandi við verkefni ráðstefnunnar, og voru þó sannarlega ekki allir sammála um það, og þá einnig þau verkefni, sem snerta sérstaklega fiskveiðilandhelgi eða fiskveiðiréttindi þjóða og ekki verða flokkuð beinlínis til landhelgismála eins og aðrar þjóðir ræða yfirleitt um þau, þó að í umr. hér hjá okkur falli þetta mjög mikið saman, að við ræðum fiskveiðiréttindi eða fiskveiðilögsögu og landhelgismál almennt.

Nú er þess einnig að geta í þessum efnum, að því fer víðs fjarri, að ráðstefnur af þessu tagi líkist á nokkurn hátt venjulegu löggjafarþingi eða löggjafarsamkomum. Hin almenna regla, sem gildir um svona ráðstefnur, er sú, að til þess að till. um málefni, sem þar er fjallað um, nái samþykki, þarf 2/3 atkv. Og jafnvel þó að 2/3 atkv. styðji tiltekna till., þá er ekki þar með sagt, að hún sé orðin að lögum, þannig að allar þjóðir þurfi síðan að beygja sig undir slíka samþykkt. Samþykkt á þeim grundvelli verður aðeins til þess, að litið er svo á, að þá hafi skapazt grundvöllur til þess að gera sérstaka alþjóðasamþykkt, sem síðan verður að leggja fyrir hin einstöku þjóðþing hinna mörgu aðildarlanda, sem síðan verða að segja til um það, hvort þau vilja gerast aðilar að þessari alþjóðasamþykkt, sem á þennan hátt hefur verið grundvölluð.

Þegar þetta er allt haft í huga ásamt mörgu öðru, þá sjá menn það, hvað því fer víðs fjarri, sem hefur verið reynt að halda fram í umr. um þetta mál, að það sé í rauninni óeðlilegt að bíða ekki eftir þessari ráðstefnu, vegna þess að mjög líklegt sé, að hún muni leysa þann vanda, sem við eigum við að glíma í þessum efnum. Það liggur einnig fyrir í þessu máli, að þær þjóðir, sem jafnan hafa reynzt áhrifamestar á ráðstefnum eins og þessari, risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, — í þessu tilfelli reyndar einnig studd af öðrum stórveldum, — þau berjast fyrir því af miklu kappi að fá fram alþjóðasamþykkt um það, að hámark landhelgi skuli vera 12 sjómílur, og við Íslendingar vitum vel, — og enginn ætti að vita það betur en hæstv: ríkisstj., — að fulltrúar frá þessum risaveldum hafa beinlínis ferðazt á milli hinna einstöku þjóða nú að undanförnu til þess að reyna að fá þær til að styðja sjónarmið sín í þessum efnum. Við vitum það, að þetta mál liggur þannig fyrir, að öll stórveldin, sem koma til með að taka þátt í væntanlegri hafréttarráðstefnu, eru andvíg þeirri skoðun, sem við berjumst fyrir í þessu máli. Og við vitum það líka, að allar þjóðir Evrópu, hver ein og einasta, standa á móti okkur í þessu máli og eru á öðru máli. Það er engin tilviljun, að þær þjóðir í heiminum, sem barizt hafa fyrir stærstri landhelgi sér til handa — og þá m.a. fiskveiðilandhelgi eins og Suður-Ameríkuríkin — hafa beinlínis lagzt á þá sveif að reyna að fá þessari ráðstefnu frestað, af því að þau hafa óttazt, að gerðar yrðu samþykktir a.m.k. með meiri hl. atkv. á þessari ráðstefnu, sem gætu gert aðstöðu þeirra, sem berjast fyrir víðáttumikilli landhelgi, óhagstæðari en hún hefur verið.

Allt þetta, sem ég hef sagt nú, sýnir, að á því er auðvitað enginn vafi, að það eru verulegar hættur á ferðinni í sambandi við þessa ráðstefnu, verði hún haldin á árinu 1973. Þar kunna að koma fram a.m.k. meirihlutasamþykktir eða till., sem hljóta meiri hl. atkv., sem fælu í sér að lýsa það óheimilt að færa landhelgi frekar út en í 12 mílur. Það er ekki ótrúlegt, að þeir, sem í dag kvarta undan því, að það kunni að vera erfiðleikum bundið fyrir okkur Íslendinga að færa út landhelgismörk okkar með einhliða yfirlýsingu, ættu eftir að kvarta og kvarta sáran undan þeim vanda, sem því fylgdi að gera einhliða ákvörðun í þessu máli eftir að t.d. meiri hl. þjóða á slíkri ráðstefnu sem hér er gert ráð fyrir að halda hefði lýst yfir skoðun, sem færi þvert á okkar fyrirætlanir. Ég tel því, að eins og upplýsingar liggja fyrir og við eigum að vita um, — því að ekki ætla ég, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki fylgzt með því, sem hefur verið að gerast í þessum málum á undanförnum árum, og hafi ekki heyrt þær skoðanir, sem fram hafa komið í umr. um þessi mál, — þá höfum við fulla ástæðu til þess að óttast, að það kunni að gerast á þessari ráðstefnu, sem gæti torveldað okkur fyrirhugaða útfærslu. Það er því mín skoðun, að hvort tveggja sé, að það sé orðin brýn nauðsyn fyrir okkur vegna aðstöðunnar á fiskimiðunum við landið að draga ekki útfærsluna meira en orðið er, og einnig út frá þeirri stöðu, sem við vitum, að liggur fyrir í þessum málum á alþjóðavettvangi, sé það sjálfsagt fyrir okkur einmitt nú að færa út landhelgi okkar með einhliða yfirlýsingu eins og allar þjóðir hafa gert í öllum tilfellum, þegar þær hafa þurft að stækka sína landhelgi á liðnum árum. Það er auðvitað alrangt, að við séum einir um það að velja þá leið að stækka okkar landhelgi með einhliða ákvörðun. Það hafa allar þjóðir þurft að gera.

Sú skoðun, sem fram hefur komið, að við þurfum að semja við aðrar þjóðir um stækkun okkar fiskveiðilandhelgi, jafnvel þótt við förum ekki með stækkunina út fyrir okkar landgrunnsstöpul, er auðvitað alröng. Og sú skoðun getur ekki verið í samræmi við fyrri samþykktir hér á þingi. Við höfum lýst því yfir á ótvíræðan hátt með lagasetningu, að fiskimiðin á landgrunninu við landið eigi að lúta okkar lögsögu, eftir því sem við einir ákveðum. Við eigum því ekki að þurfa að semja við aðrar þjóðir um þær reglur, sem við viljum setja á þessu svæði. Þeir, sem halda uppi slíkri kenningu, eru að vinna að því að taka hér upp nýja stefnu í okkar landhelgismáli.

Ég sagði hér í upphafi míns máls, að það hefði líklega ekki mikla þýðingu að ræða þetta efni hér í löngu máli, því að ákvarðanir mundu verða teknar um úrslitin. En ég hélt þó á tímabili, að það kynnu að vera einhverjir möguleikar á því, að hægt yrði að samræma þau sjónarmið, sem upp hafa komið í málinu á milli stjórnarandstöðu og stjórnarflokkanna. Ég hélt m.a., þegar ég heyrði um till., sem einn hv. stuðningsmaður ríkisstj., hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, hafði tekið saman og sýnt m. a. okkur í stjórnarandstöðunni, að það væri e.t.v. að skapast grundvöllur til samstöðu hér á Alþ. um afgreiðslu þessa máls. En svo sé ég það, að afgreiðslan hefur orðið sú, að þær hugmyndir, sem þessi hv. þm. hafði um möguleika á því að leysa málið, eru látnar hverfa skyndilega og ríkisstj. virðist halda fast við sína till. Ég tel það miður, að ríkisstj. skuli hafa tekið þannig á þeim hugmyndum, sem þar komu fram, og það sýnir kannske, að það þýðir ekki mikið að ræða um málið úr því sem komið er. Ríkisstj. virðist vera alveg ákveðin í því að halda sig við þá till., sem hún hefur flutt um málið, þó að hún viti, að hún er þannig, að við í stjórnarandstöðunni getum aldrei á hana fallizt.

Ég skal svo ekki ræða þetta í lengra máli á þessum takmarkaða tíma, sem þingið ræður nú yfir, en lýsi yfir þeirri afstöðu okkar Alþb.-manna, að við teljum, að einmitt nú á þessu þingi eigi að taka bindandi ákvörðun um stækkun fiskveiðilandhelginnar við landið, og við vörum sterklega við þeirri hættu, sem því mun fylgja að skjóta þessu máli enn á frest og láta það bíða hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Við munum því standa með þeirri till., sem flutt er af okkur þremur á þskj. 638, en gegn þeirri till., sem hæstv. ríkisstj. hefur flutt um málið.