17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

1. mál, fjárlög 1971

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að taka mjög eindregið undir þau orð, sem hv. síðasti ræðumaður lét falla hér um ákaflega mikið og alvarlegt vandamál. Ég trúi því ekki, að nokkur hv. alþm. treystist til þess að vefengja, að sú lýsing, sem hann gaf á ástandinu hér, er rétt, og ég tel það vera skyldu okkar alþm. að hegða störfum okkar í samræmi við þá vitneskju, sem við höfum alveg óvéfengjanlega, og ég teldi hv. alþm. vera menn að meiri, ef þeir fylgdu nú þessari vitneskju sinni í verki, þegar þessi till., sem hv. þm. gerði grein fyrir, kemur til atkv. hér á morgun.

Að öðru leyti vildi ég aðeins gera grein fyrir þremur till., sem ég stend að, því það er ekki ráðrúm hér til þess að ræða almennt um fjárlagafrv. og þá stefnu, sem í því felst. Það mun verða gert síðar og vafalaust margsinnis. Við 2. umr. flutti ég tvær till., sem ég dró síðan til baka til 3. umr. Önnur þeirra fjallaði um svolitla fjárveitingu til sálfræðiþjónustu i barna- og gagnfræðaskólum og hin um ráðstafanir gegn mengun í höfnum. Ég dró þessa till. til baka til 3. umr., vegna þess að ég vildi gefa fjárveitinganefnd tækifæri til þess að athuga þessi vandamál, sem þar er hreyft, og íhuga, hvort hún gæti ekki komið til móts við þau sjónarmið, sem í till. felast, því þetta eru hvort tveggja till., þar sem vakin er athygli á vandamáli, sem er engan veginn flokkspólitísks eðlis, heldur ættu menn, ef þeir gera sér ljós þau vandamál, sem þar er hreyft, að geta fylgt þeim. Því miður hef ég orðið fyrir þeim vonbrigðum, að hv. n. hefur ekki talið sér fært að koma neitt til móts við þau sjónarmið.

Ég gerði grein fyrir þessum till. við 2. umr. og mun ekki endurtaka það að neinu leyti, sem þar er mælt. En fyrri tillagan er um 2 millj. kr. til sálfræðiþjónustu í barna- og gagnfræðaskólum. Slík þjónusta er rétt aðeins að hefjast hér á landi, en hún er tvímælalaust mjög mikilvæg og hún er orðin mjög ríkur þáttur í starfsemi skóla hér í nágrannalöndunum. Þar er um tvennt að ræða, bæði það að aðstoða börn, sem lenda í ýmiss konar andlegum erfiðleikum meðan á námi stendur, og einnig að veita leiðbeiningu og aðstoð við áframhald náms. Þessi starfsemi er þegar hafin í Reykjavík, þar hefur verið allmyndarlegur vísir tekinn upp að slíkri starfsemi. En svo undarlega hefur brugðið við, að þegar Reykjavíkurborg hefur snúið sér til ríkisins og farið fram á, að ríkið greiddi kostnað við þessa starfsemi af sinni hálfu í samræmi við ákvæði skólakostnaðarlaga, þá hefur þeirri beiðni verið hafnað. Ég geri ráð fyrir, að ástæðan sé sú, að hér er ekki um að ræða almenna starfsemi hér á landi enn sem komið er, en ég held, að það sé alveg augljóst mál, að þetta verður almenn starfsemi og mér finnst, að við alþm. eigum að stuðla að því, að hún verði það. Og þess vegna flutti ég þessa till., til þess að þessi vilji Alþ. kæmi fram og Alþ. gæti þá eða ríkisvaldið gæti greitt að sínum hluta þá starfsemi, sem þegar er hafin.

Hin till. var um, að tekinn yrði í þann kafla fjárlaga, sem fjallar um hafnarmál, nýr liður, ráðstafanir gegn mengun í höfnum, 5 millj. kr. Ég ræddi þetta mál þó nokkuð við 2. umr. og minnti menn á það, sem allir hljóta raunar að vita, að hér er um að ræða ákaflega alvarlegt vandamál einnig í sambandi við útflutningsiðnað okkar. Ég minnti þá á það, að einn af þm. Nd., hv. þm. Guðlaugur Gíslason, hefur flutt um það frv., að hafnarlögum verði breytt þannig, að ráðstafanir gegn mengun verði talið sjálfsagt verkefni við hafnarframkvæmdir. Og ég hef fulla ástæðu til að ætla, að það frv. verði samþ. á þessu þingi. En til þess að koma einhverju skriði á framkvæmdir í sambandi við þetta þá þarf fjármagn. Og það fjármagn, sem hér er rætt um, 5 millj. kr., er ekki mikið. Þetta verkefni er ákaflega stórt, og vissulega munu bæjarfélögin verða að taka á sig mestar byrðar í því sambandi, bæði bæjarfélögin sjálf og eins ýmiss konar verksmiðjur, fiskvinnslustöðvar og aðrar verksmiðjur, sem þar eru, og þar sem viðgengst nú, að frárennsli frá slíkum verksmiðjum rennur út í hafnir algerlega óhreinsað. Ég hef tekið eftir því, að margir aðilar í þjóðfélaginu gefa þessu vandamáli nú vaxandi gaum. Og einmitt að undanförnu hefur annað aðalmálgagn hæstv. ríkisstj., Alþýðublaðið, gert mengunarvandamálin að sérstöku umtalsefni, ekki sízt mengun í sjónum. Þannig að ég hefði getað vænzt þess, að þm. Alþfl. gæfu þessu máli sérstakan gaum og að þeir hefðu kannske beitt sér fyrir því, að örlítið væri komið til móts við þessa hugmynd, að Alþ. viðurkenndi þó ekki væri nema að formi til í upphafi, að það vildi taka þátt í þeim miklu framkvæmdum, sem þarna eru nauðsynlegar. Þess vegna vil ég mjög eindregið beina því til hv. alþm., að þeir íhugi það gaumgæfilega, hvort þeir sjái sér ekki fært að fylgja þessari till., þegar hún kemur til atkv. hér á morgun.

Nú við 2. umr. fjárl. flutti ég till. um það, að framlag til byggingarframkvæmda við Kennaraskóla Íslands yrði 20 millj. króna. Þegar fjárlagafrv. var lagt fyrir í upphafi, þá var ekki áætlaður einn einasti eyrir til slíkra framkvæmda. Á því varð nokkur bót í meðförum fjvn., hún lagði til, að til þessa verkefnis yrði varið 5 millj. kr., en raunar voru teknar 3 millj. frá æfingaskólanum og færðar yfir til þessa verkefnis, en æfingaskólinn er eins og kunnugt er almennur barnaskóli og hann er ekki í öðrum tengslum við Kennaraskólann en þeim, að kennaraefnin stunda þar æfingakennslu. Sú tala, sem ég gerði till. um, 20 millj. kr., var ekki nein tala, sem ég hafði spunnið upp í huga mínum. Þetta var ósk sú, sem skólastjóri Kennaraskólans hafði borið fram, og þessi ósk skólastjórans fékk stuðning menntmrn., það mælti með því við fjvn., að það yrði fallizt á 20 millj. kr. til Kennaraskólans. Samt gerðust þau tíðindi hér við 2. umr., að till. um 20 millj. var felld að viðhöfðu nafnakalli og meðal þeirra manna, sem felldu till., var hv. menntmrh., maðurinn, sem hafði mælt með því við fjvn., að 20 millj. yrði varið til þessara nota. Í þessu sambandi er ástæða til að minna á það, að sú fjárhæð, sem nú er talað um til Kennaraskóla Íslands af fjárlagafrv., hún á að fara til þess að byggja íþróttahús. Nú er það vafalaust hin mesta nauðsyn að byggt sé íþróttahús í sambandi við Kennaraskólann. Það háir allri íþróttakennslu í Reykjavík mjög, hvílíkur skortur er á húsakynnum, en ég er nú þeirrar skoðunar, að ef að þurfi að velja á milli framkvæmda, þá séu kennslustofurnar nauðsynlegri. Hins vegar tel ég ekki, að það þurfi að velja þarna neitt á milli.

Ég held, að framkvæmdirnar í sambandi við Kennaraskólann séu dæmi um það, hvernig ekki eigi að haga framkvæmdum. Hv. menntmrh. féllst á áætlun um byggingu Kennaraskólans 1958, fyrir 12 árum, og þá byggingu í fulla stærð, og þegar fyrri áfangi er svo vígður nokkrum árum síðar eða allmörgum árum síðar, þá gerir hv. ráðh. að sjálfsögðu mikið veður út af hinni ágætu frammistöðu sinni í sambandi við það mál, en síðan gerist ekki neitt annað en það, að troðið er inn í þessa byggingu fleiri og fleiri nemendum, þangað til að þeir eru orðnir milli 900 og 1000 í húsakynnum, sem taka með góðu móti innan við 200 manns. Þarna verður að tvísetja og margsetja í kennslustofur, þarna verður að troða nemendum inn, hvar sem hægt er, meira að segja upp á hanabjálkaloftum, sem eru svo léleg, að heilbrigðisyfirvöld í Reykjavík hafa orðið að setja sérstakar reglur um það, hversu lengi nemendur megi hafast við þar. Auk þess er kennsla framkvæmd á 10 stöðum utan skólans. Þarna er um að ræða algert neyðarástand, sem kunnugt hefur verið um árum saman, og þetta er ekki aðeins neyðarástand hvað snertir kennslu og störf í þessum skóla.

Ég er alveg viss um það, að það er ekki hægt að haga framkvæmdum á kostnaðarsamari hátt en þennan, að byrja, framkvæma áfanga og hætta svo. Þetta kostar þar að auki stórfé að standa þannig að hlutum. Mér er kunnugt um það, að málsvörn ráðamanna í þessu sambandi er sú, að til standi að breyta Kennaraskólanum, fyrirkomulagi hans, og að ekki liggi fyrir teikningar að síðari áfanga hússins, breyttar teikningar, frá því sem áður var. Á síðasta ári voru veittar 5 millj. kr. til skólans og því hefur verið borið við, m. a. af formanni fjvn., að þessi upphæð hafi ekki verið notuð til þess að halda áfram að teikna. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að ég hef hér í höndum mínum bréf frá skólastjóra Kennaraskóla Íslands til menntmrn., þar sem hann víkur sérstaklega að þessu máli. Þar minnir hann á það, að jafnskjótt og kunnugt varð um fullar líkur á fjárveitingu þessari, þ. e. a. s. fjárveitingu þeirri, sem samþykkt var fyrir einu ári, „hóf ég þegar viðræður við rn. um leyfi til þess að láta teikna áfangann. Í framhaldi af þeim umr. skilaði ég grg. til byggingardeildar rn. 17. nóv. 1969“ — þ. e. fyrir rúmu ári. „Ég átti fund með forstöðumanni byggingardeildarinnar og skilaði sundurliðaðri áætlun skólans um kennslustundafjölda í einstökum námsgreinum 8. jan. 1970. Forstöðumaður byggingardeildarinnar gerði á þessum forsendum skýrslu um málið og yfirlit um húsnæðisþörfina til ráðuneytisstjóra Birgis Thorlacíus dags. 18. febr. 1970. Ráðuneytisstjórinn fól mér að gera grein fyrir óskum skólans um æskileg og skynsamleg áfangaskil þessara framkvæmda og gerði ég það í till. mínum til fjárl. fyrir árið 1971. Loks endurtók ég beiðni mína um leyfi til að láta hefja teikningar í bréfi til rn. 28. okt. s. 1. Enn beiðist ég þess, að rn. láti gera eða veiti leyfi til, að gerðir verði uppdrættir af viðbótarbyggingu við Kennaraskólahúsið við Stakkahlið og að íþróttahúsi fyrir skólana báða, Kennaraskólann og æfingaskólann, og sé þá stuðzt við þá undirbúningsvinnu, sem byggingardeildin hefur þegar látið í té, og till. mínar til rn. um fjárl. fyrir árið 1971.“

Þarna kemur sem sé fram, að skólastjóri Kennaraskóla Íslands hefur beðið um það í heilt ár, að fá að láta gera teikningar að viðbótarbyggingu við skólann. En hann hefur ekki fengið þetta leyfi og síðan er þessi staðreynd, að hv. menntmrh. hefur ekki leyft að byggja, notuð sem röksemd fyrir því að hafna þeirri till., sem studd er af sama ráðh., að skólinn fái þá fjárveitingu, sem hann biður um. Þetta er skollaleikur, sem menn eiga að taka gildan. Þarna er verið með fullum óheilindum að bregða fæti fyrir eðlilegar framkvæmdir við þessa skólabyggingu. (Gripið fram í.) Er búið að leyfa það núna? Það er ánægjulegt að heyra, að eftir árs baráttu er búið að leyfa teikningar, en skólastjóri Kennaraskólans hefur sagt mér, að hann telji, að skólanum mundi nýtast fullkomlega af því að fá upphæð til að halda áfram byggingu skólans sjálfs á þessum fjárl. Hann telur, að undirbúningsstörfum sé komið það langt, að þessi dráttur á því að leyfa teikningar, sem stóð í heilt ár, hann þurfi ekki að tefja framkvæmdir svo, að ekki sé gerlegt að veita fjármunum til þessara framkvæmda. Þessa till., sem ég flutti við 1. umr., hana flyt ég aftur nú ásamt hv. þm. Sigurvini Einarssyni. Við höfum lækkað upphæðina, vegna þess að það má ekki flytja tvívegis till. um sömu upphæð. Við höfum lækkað hana niður í 15 millj. og ég tel, að það ætti að vera hæstv. ríkisstj. áhugaefni að firra sig þeirri vansæmd, sem afskipti hennar af málum Kennaraskóla Íslands hafa verið nú um margra ára skeið.