01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3665)

294. mál, landhelgismál

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Verður Íslands óhamingju nú allt að vopni? mun nú vafalaust verða spurt um byggðir Íslands, þegar menn standa andspænis þeirri staðreynd, að íslenzkir stjórnmálaflokkar geta ekki nú á örlagastundu orðið á eitt sáttir í mesta og stærsta lífshagsmunamáli þjóðarinnar, landhelgismálinu. Það mun sem betur fer hverju mannsbarni ljóst, að fiskistofnarnir kringum landið eru sá burðarás, sem heldur uppi sjálfstæði og efnalegri, stjórnmálalegri og menningarlegri tilveru þessarar þjóðar. Af öllum þeim þjóðum, sem veiðar stunda hér við land, erum við sú eina, sem eigum nærri allt bjargræði okkar þeim að þakka. Því verðum við að hafa lögsögu yfir landgrunninu öllu og geta einir sett ákvæði um vísindalega vernd þeirra.

Sá ágreiningur, sem nú er uppi í landhelgismálinu, er vissulega harmsefni. Fyrst og fremst vegna þeirrar algeru sérstöðu, sem þetta mál hefur í þjóðmálunum, hvað mikilvægi snertir. Og jafnframt sökum þess, að landhelgismálið er það mál, sem þjóðin vafalaust er algerlega einhuga um og gerir því óhjákvæmilega þá kröfu, að stjórnmálaflokkarnir allir fylgi stefnu hennar fram af þeirri festu, sem ein sæmir fullvalda þjóð, sem á hvort tveggja í senn lífshagsmuni sína og sæmd að verja.

A því er rík nauðsyn að allir Íslendingar geri sér glögga grein fyrir efni og orsökum þess ágreinings, sem hér er uppi, og í annan stað fyrir því, hvora stefnuna henni ber að fylkja sér um nú og síðar. Til skilnings á þeim ágreiningi, sem nú skiptir Alþ. í tvær fylkingar í landhelgismálinu, er óhjákvæmilegt að gera sér í fyrsta lagi grein fyrir þeim tveimur meginstefnum, sem nú eru uppi um óleyst vandamál um réttarreglur á hafinu og um eignar- og umráðarétt yfir föstum sem hreyfanlegum náttúruauðlindum hafsbotnsins og hafsins í grennd við meginlandsstrendur, og í öðru lagi, hvernig stefna ríkisstj. í þessu máli tengist með hinum ógæfusamlegasta hætti þeirri þægðarafstöðu, sem þessir flokkar hafa aðhyllzt og mótað gagnvart stórveldunum í vestri og hernaðarbandalagi þeirra. Skal nú að þessu tvennu vikið í fáum orðum.

Það er sameiginleg stefna risaveldanna, Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna, og raunar fleiri stórvelda að takmarka fiskveiðilögsögu strandríkja sem allra mest og að ganga þar hið lengsta inn á 12 mílna lögsögu sem hámark eða alþjóðlega lögfestu og algilda reglu nema þá með sérstökum milliríkjasamningum. Varðandi rétt til auðlinda hafsbotnsins er stefnan hins vegar sú, að einkarétturinn og eignarrétturinn sé sem víðtækastur eða helzt allt að 200 mílum frá ströndum. Hagsmunirnir, sem hér liggja að baki, eru nátengdir heimsvalda- og útþenslupólitík þessara stórvelda og þrotlausri leit þeirra að auknum yfirráðasvæðum og náttúruauðlindum. Þessi stórveldi eiga stórfelldá möguleika á gífurlegri nýtingu og öflun iðnaðarhráefna á hafsbotninum og jafnvel í sjónmáli nútímatækni, sem þessi ríki ráða ein yfir, möguleika á að reisa neðansjávariðnaðarborgir og bókstaflega færa mannabyggðir út yfir strendur landanna. Stefnan hér er því sú að bæta upp þurrð iðnaðarhráefna á þurrlendi jarðar með beinni útþenslu landamæra allt að 200 mílum á haf út. Þótt hin rökrétta ályktun þessarar stefnu gagnvart eignarrétti á hafsbotninum væri vitanlega sú, að slík útfærsla landamæra næði einnig til hinna hreyfanlegu auðlinda fiskstofnanna, eru hagsmunir hér aðrir og stefnan önnur. Kjörorð risaveldanna um frelsi á úthöfunum byggist á því, að sakir yfirburða fjármagns og tækni hentar þeim sú stefna í fiskveiðimálum að halda rétti sinum til að beita æ fullkomnari og æ meira gereyðandi veiðitækni hvar sem er á úthöfunum og sem næst ströndum fiskveiðiþjóða, þar sem mest er von afraksturs og afla. Fiskveiðistefna þessara ríkja er sú að hafa sem opnastar leiðir til þess að ausa upp sem mestum fiskafla hvar sem er og hvenær sem er, án alls tillits til hagsmuna smárra strandríkja, sem af fjárhagslegum og tæknilegum ástæðum verða fyrst og fremst að treysta á fiskimiðin hið næsta sínum eigin ströndum. Stefna fiskveiðistrandríkja, sem byggja afkomu sína að meira eða minna leyti á sjávarafla, er í þessum efnum gerólík. Þau hyggja ekki á stóriðju og enn síður á útfærslu mannabyggða á hafsbotni af þeirri ástæðu, að til slíks hafa þau ekki bolmagn hvorki fjárhagslegt né tæknilegt og geta því sætt sig við tiltölulega þrönga landhelgi að því er tekur til auðlinda hafsbotnsins sjálfs, en leggja hins vegar höfuðkapp á að tryggja og þá helzt með alþjóðareglum sem allra víðasta fiskveiðilögsögu, sem færir þeim einkarétt til nýtingar náttúruauðæfa þeirra, sem liggja ofar hafsbotninum sjálfum, þ.e. fiskstofnanna.

Á öllum þeim fjölmörgu alþjóðaráðstefnum og fundum, þar sem fjallað hefur verið um þessi mál undanfarin ár og áratugi, hefur þessi djúpstæði ágreiningur á milli risaveldanna og hinna smærri strandríkja orðið æ berari, en hins vegar er jafnframt orðið ljósara, að stórveldin hafa stöðugt orðið að sæta minni samúð í samfélagi þjóðanna og smáríkin sótt á í baráttu sinni og nú síðast í des. á s.l. ári náð þeim mikilvæga áfanga að ná fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna samþykkt gegn vilja stórveldanna um samanköllun alþjóðaráðstefnu, þar sem tilraun væri gerð til að útkljá deilumál með alþjóðasamþykkt. Ráðgert er, að þessi ráðstefna verði haldin 1973, en þó ber að hafa á því allan fyrirvara og sömuleiðis á því, hvort slík ráðstefna fær valdið verkefni sínu og hvort hún lýkur störfum með þeim hætti, að réttur smærri fiskveiðiþjóða verði tryggður.

Í orði kveðnu hefur hin yfirlýsta íslenzka stefna verið í fullu samræmi við stefnu annarra hinna smærri strandríkja, en andstæð meginstefnu stórveldanna. Greinilegar brotalamir hafa reynzt á því, að íslenzkir stjórnmálaflokkar væru á eitt sáttir um aðgerðir til framkvæmdar þessari stefnu. Þær brotalamir stafa og hafa stafað af tengslum þessa máls við hina almennu utanríkisstefnu, sem borgaraflokkarnir mótuðu við lok heimsstyrjaldarinnar síðari, þeirrar stefnu að innlima landið og þjóðina í hernaðarbandalag vestrænna þjóða og gera landið að víghreiðri Bandaríkjanna með herstöðvasamningnum 1951. Þessi utanríkisstefna hefur óhjákvæmilega leitt íslenzku borgaraflokkana, sem verið hafa við völd hart nær óslitið frá ófriðarlokum, til margháttaðrar þægðarstefnu við stórveldin í vestri, og hefur landhelgismálið goldið hennar. Geigvænlegust reyndust þessi tengsl í meðferð landhelgismálsims af hálfu núv. stjórnarflokka um og eftir að vinstri stjórnin færði íslenzka fiskveiðilögsögu út að 12 mílna mörkunum 1958, og í beinu framhaldi af framferði þeirra þá voru nauðungarsamningarnir við Breta og Vestur- Þjóðverja gerðir, þar sem tvö afgerandi óheillaspor voru stigin í senn. Í fyrsta lagi það að ómerkja á mikilvægan hátt 12 mílna útfærsluna með því að veita Bretum og Vestur-Þjóðverjum tímabundna veiðiheimild innan fiskveiðimarkanna og í annan stað, sem margföldu tjóni og hættum gæti valdið, að þvinga Alþ. til að fallast á samninga við þessi ríki um að öll frekari útfærsla fiskveiðilögsögunnar út fyrir 12 mílna mörkin væri háð samþykki þeirra eða dómsúrskurði alþjóðadómstólsins í Haag, sem aðallega er skipaður fulltrúum stórveldanna. Þessi samningur var nauðungarsamningur að því leyti, að hann var samþykktur á Alþ. meðan byssukjöftum herskipa bandamanna okkar í NATO var beint að íslenzkum fiskimönnum og fleytum þeirra. Hitt er líka staðreynd, að hann var gerður í þann mund sem Bretar voru að gefast upp fyrir almenningsálitinu, bæði heima fyrir og vítt um veröld, en eins er það líka staðreynd, að samningurinn við Breta og síðar Þjóðverja var lögformlegur gerningur og samþykktur með lögmætum meiri hl. á Alþingi Íslendinga. Auðsætt er, að þessi samningur var þverbrot á þeirri stefnu, sem lögfest var af Íslands hálfu með landgrunnslögunum frá 1948, sem byggð voru á þeirri kenningu og afstöðu, að íslenzk lögsaga um fiskveiðar og vernd fiskstofna skyldi ná til endimarka landgrunnsins og breyta mætti með einhliða aðgerðum í formi reglugerðar lögsögumörkunum hvenær sem nauðsyn bæri til. Þessir samningar sköpuðu okkur Íslendingum algjöra sérstöðu meðal þjóða heims. Allar aðrar þjóðir hafa haldið fram rétti sínum til einhliða ákvarðana um mörk fiskveiðilögsögu, meðan ekki giltu um þau efni óvefengjanlegar alþjóðasamþykktir. Við einir erum nú bundnir samningi, sem tók þennan rétt af okkur og svipti okkur því ákvörðunarvaldi, sem allar aðrar þjóðir hafa.

Í dag blasir við sá kaldi veruleiki, að ekkert verður aðhafzt eða gefinn möguleiki til að aðhafast til óhjákvæmilegrar verndar íslenzkra fiskstofna utan 12 mílna markanna, nema fyrst allra aðgerða sé horfið að því að losa þjóðina undan bindingarákvæðum brezka og vestur-þýzka nauðungarsamningsins. Ekkert verður gert nema með yfirlýsingu af okkar hálfu um, að hann sé úr gildi numinn eða honum verði á annan hátt sagt formlega upp. Engin skrúðmælgi getur breytt þessum veruleika, þessari höfuðstaðreynd landhelgismálsins, eins og það horfir við í dag. Því er það, að við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna og hinir stjórnarandstöðuflokkarnir erum einhuga um, að fyrsta skrefið í landhelgismálinu hljóti að vera það, að ríkisstj. á grundvelli samþykktar Alþingis segi þessum samningi upp. Stjórnarflokkarnir eru hins vegar ófáanlegir til að lýsa nokkru yfir, sem fyrirheit geti gefið um, að við Íslendingar höldum ekki áfram að vera bandingjar títtnefndra tveggja stórvelda og leyfum okkur að aðhafast eitthvað, sem þeir vilja ekki náðarsamlegast veita okkur samþykki til. En sé litið til stefnu þessara ríkja í málefnum varðandi fiskveiðilögsögu, þarf engum getum að því að leiða, hver útfærsla yrði samþykkt með þeirra leyfi og þeirra náð. Af þessari ástæðu er stefna okkar gerólík stefnu stjórnarflokkanna, sem ekki þora eða vilja lýsa neinu yfir um það, að þeir muni skilyrðislaust losa þjóðina undan hinum niðurlægjandi ákvæðum brezk-þýzku samninganna. Vilja ekki tjá þann vilja sinn, að oki þeirra verði aflétt, hvorki með uppsögn eða öðrum hætti.

Það er líka bert, að enn ber það á milli, að stjórnarflokkarnir vilja ekki gefa nein fyrirheit, hvorki um ákveðna útfærslu né um það, hvenær hún skuli í síðasta lagi fara fram. Að því er bezt verður séð, er stefna þeirra sú, að engin útfærsla fiskveiðilögsögunnar fari fram fyrr en í fyrsta lagi, er Bretar og Vestur-Þjóðverjar leyfa, og í öðru lagi ekki fyrr en fiskveiðilandhelgi hefur verið ákveðin með alþjóðasamþykkt. En allir vita, að engin trygging er fyrir því, að slíkt verði gert á næstu árum eða jafnvel áratugum, þótt líta megi með nokkurri óvissri bjartsýni til ráðstefnunnar 1973 og þeirrar baráttu, sem þar verður háð milli risaveldanna og smáríkjanna.

Stjórnarandstöðuflokkarnir allir líta svo á, að slíkar hættur vofi nú yfir fiskstofnunum á Íslandsmiðum, að lífshagsmunir þjóðarinnar krefjist þess, að nú þegar sé bráður bugur undinn að því að undirbúa og framkvæma útfærslu fiskveiðilögsögunnar hið fyrsta og framkvæmdin verði ekki dregin lengur en til 1. sept. á næsta ári, þannig að útfærslan liggi fyrir sem staðreynd á ráðstefnunni 1973, staðreynd, sem hvort tveggja í senn tryggi íslenzka hagsmuni og styðji réttarkröfur fiskveiðistrandríkjanna til enn frekari útfærslu, eftir því sem þær kunni að reynast nauðsynlegar. Hætturnar, sem nú blasa við, eru bæði margar og geigvænlegar, svo geigvænlegar, að fullkomin tortíming þeirra fiskstofna, sem eru undirstaða atvinnulífs og afkomu Íslendinga, dynur yfir á næstu árum, ef ekki er þegar brugðizt skjótt og djarflega við vandanum. Sakir standa nú m.a. þannig, að flestar Vestur-Evrópuþjóðir hafa þegar eytt fiskimiðum sínum, svo að til algjörrar ördeyðu horfir þar. Stór innhöf eru þegar svo eitruð af hvers konar mengun frá efnaiðnaði og úrgangsefnum stórborga, að hættulegt er orðið heilsu manna að neyta þess fisks, sem þar hjarir enn. Öðrum hafsvæðum hefur verið lokað í von um, að nær aldauðir fiskstofnar þar kunni aftur að hjarna við á löngu árabili algjörrar friðunar, og þá er stefnan tekin og verður tekin á fjarlægari mið, og þar eru Vestur-Þjóðverjar og Bretar síður en svo einir á ferð. Tvö önnur risaveldi gerast æ mikilvirkari á nær öllum heimshöfum. Japanskir og sovézkir flotar, verksmiðjutogarar af æ fullkomnari gerðum, æða um höfin, eirandi engu, sem á sér bærir í djúpum hafsins. Togarar, sem auðveldlega skafa botninn allt niður í 700–1000 m dýpi, eru þegar staðreynd. Margir slíkir eru búnir nær öllum hugsanlegum veiðitækjum, svo fullkomnum í tortímingarmætti, að ekkert er eftir skilið, þar sem þeir fara, annað en svifið í sjónum. Slíkir togarar hafa m.a. nú nýlega verið teknir að ólöglegum veiðum innan fiskveiðimarka annarra þjóða, rannsakaðir og óhugnanlegum eyðingarmætti þeirra lýst í heimsblöðum. Enn má nefna, að veiðar með hjálp rafstraums eru þegar hafnar og munu senn af tilraunastiginu. Er slík tæki komast í gagnið, verður trúlega unnt að reka hvert kvikindi, sem í djúpunum leynist, inn í iður hinnar fljótandi stórverksmiðju. Rányrkja og aftur rányrkja, án nokkurs tillits til afleiðinganna fyrir smáþjóðirnar og raunar fyrir allt mannkyn, er það, sem setur svip á fiskveiðistefnu stórveldanna, ef ekkert er að gert og smáþjóðirnar þjappa sér ekki saman með álit almennings í öllum löndum að baki sér til þess að stöðva þá helstefnu, sem nú er í uppsiglingu.

Hætturnar, sem hér blasa við, eru síður en svo fjarlægar. Þær eru við bæjardyrnar. Ég hef hér fyrir framan mig nákvæma áætlun um fyrirhuguð veiðisvæði brezka togaraflotans á þessu ári, og kemur þar fram ákvörðun um að beina öllum eða því nær öllum veiðimætti úthafstogaranna á Íslandsmið upp úr miðju þessu ári. Miðað við 1969 verður um tvöföldun úthaldsdaga að ræða í ágúst n.k. og heldur betur í sept. og okt. Í nóv. verða úthaldsdagar á Íslandsmiðum þrefaldaðir frá 1969 og í árslok þessa árs fimmfaldaðir. En þetta er aðeins vísbending, lítið dæmi, um hættuna, sem yfir Íslandsmiðum vofir. Í kjölfarið munu sigla Vestur-Þjóðverjar með a.m.k. 130 stórtogara, Frakkar, sem nú gera út um 500 nýtízkutogara, svo og vafalaust Norðmenn og fleiri Vestur-Evrópuþjóðir, sem þegar hafa nær þurrausið sín heimamið og lokað mikilvægum veiðisvæðum, svo sem við Bjarnarey og í Barentshafi. Og við má bæta líklegri stórsókn Japana og Rússa, sem byggt hafa gífurlegan úthafsveiðiflota með þúsundum skipa og móðurskipa, sem enginn blettur úthafanna er öruggur fyrir. Er líklegt, að þessar þjóðir sneiði hjá Íslandsmiðum fremur en öðrum líklegum veiðisvæðum? En fyrir flota þessara risavelda á heimshöfunum væri það fljótlegt verk að gereyða íslenzkum fiskstofnum á örskömmum tíma.

Þegar til þessa er litið, hljóta allir raunsæir menn að spyrja, hvor stefnan, stefna ríkisstj. eða okkar stjórnarandstæðinga, sé líklegri til að bægja frá þeim þjóðarvoða, sem hér vofir yfir. Stjórnarflokkarnir lýsa því yfir, að þeir ætli að halda sig í einu og öllu nú og framvegis við nauðungarsamningana, sem þeir gerðu við Breta og Vestur-Þjóðverja, og kom það greinilega hér fram í ræðu hæstv. forsrh. Bein afleiðing þess er og verður sú, að engin útfærsla verður framkvæmd né heldur nokkrar friðunaraðgerðir aðrar utan 12 mílna markanna, sem þessar þjóðir ekki samþykkja. Og dýrkeypt reynsla og öll raunsæ hugsun sannar, að úr þeirri átt er einskis að vænta og raunar miklu síður nú en áður.

Stjórnarflokkarnir fullyrða í öðru orðinu, eins og hér var gert hjá síðasta ræðumanni, að þeir vilji ekki og muni ekki afsala okkur rétti til einhliða ákvarðana um útfærslu fiskveiðilögsögunnar, en segja í hinu orðinu, að auðvitað hljóti Haag-dómstóllinn að skera úr, ef útfærsla yrði ákveðin. Ella gerðumst við samningsrofar, sem enginn tryði eða treysti í milliríkjasamskiptum. En allir, sem vilja vita, sjá auðvitað, að dómsniðurstaða yrði ekki annað en um óbreytt ástand, enda engin alþjóðalög til að dæma eftir. Við stjórnarandstæðingar segjum hins vegar: Eina færa leiðin til bjargar fiskstofnum og fiskimiðum við Ísland er hin sama og allra annarra fiskveiðiþjóða, sú að ákveða einhliða útfærslu, óbundnir af oki nauðungarsamnings, sem við einir þjóða heimsbyggðar höfum lotið svo lágt að gera um sjálfa lífshagsmuni okkar. Undan oki hans verður þjóðin að losa sig nú þegar með því að segja honum upp. Og til þeirrar uppsagnar höfum við bæði siðferðilegan rétt og fullan lagarétt samkv. öllum viðteknum venjum um samninga þjóða í milli. Sá réttur er jafn óyggjandi, þó að stjórnarliðið virðist telja samninginn eilífan og óuppsegjanlegan. Fyrst þegar þessi smánarsamningur ríkisstj. er þannig úr sögunni, er opnuð raunhæf leið til að færa út fiskveiðilögsöguna til endimarka landgrunnsins sem fyrsta skref í 50 mílur frá grunnlínum og síðan allt til marka djúphafsins niður á 1000–2000 m dýpi eða í 200 sjómílur frá grunnlínum í samfélagi og samvinnu við þær þjóðir, sem mestar kröfur gera um þetta efni.

Það leiðir af sjálfu sér, að stjórnarflokkarnir vilja ekki og geta ekki vegna stefnu sinnar gefið þjóðinni nein fyrirheit um neinar tímasetningar um, hvenær þeir hyggist færa út íslenzka fiskveiðilandhelgi. Þeir láta lönd og leið þá samhljóða kröfu, sem rís nú hærra með hverjum degi sem líður meðal allra landsmanna, að sókn verði nú þegar hafin og tryggt, að raunhæfar aðgerðir verði ekki látnar bíða, þar til flotar erlendra yfirgangsmanna hafa eytt Íslandsmið með líkum hætti og margar þjóðir hafa nú þegar gert með ofveiði og mengun innan fiskveiðimarka sinna, en reyna nú að bæta sér orðinn skaða með eflingu úthafsflota og rányrkju á miðum þeirra strandríkja, sem enn hafa ekki tekið sjálfar fullan rétt sinn til eigin náttúruauðlinda við strendur sínar. Við stjórnarandstæðingar segjum hins vegar: Þjóðin á rétt á skýrum svörum um ákveðin tímamörk fyrir fyrsta skrefið, 50 mílna útfærslu. Við leggjum heiður okkar við, að sú útfærsla fari fram fyrir 1. sept. á næsta ári, ef þjóðin gefur okkur umboð til þess í alþingiskosningunum að vori. Og við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna bendum jafnframt hiklaust á, að lykillinn að farsælli lausn landhelgismálsins er, að sú ríkisstj. verði felld, sem unnið hefur sér það hvort tveggja til óhelgi að reyra fjötra brezka og vestur-þýzka nauðungarsamningsins að þjóðinni og neitar síðan að segja honum upp nú, þegar líf liggur við. En bezta ráðið til þess er að efla flokk okkar til úrslitaáhrifa á Alþ. í komandi kosningum. Verði það ekki gert, halda stjórnarflokkarnir velli og fljóta sofandi að feigðarósi í þessu stærsta og mesta máli þjóðarinnar, sem og mörgum öðrum. Ég lýsi því jafnframt yfir í umboði flokks míns, að hann mun engan hlut eiga að myndun nokkurrar þeirrar ríkisstj., sem ekki tryggir framgang allra þeirra fyrirheita, sem í þál. stjórnarandstöðuflokkanna þriggja felast.

Ég minnist svo að lokum á fleyg orð, sem Ólafur Thors, þá sjútvmrh., mælti á sjómannadaginn 1953, er hann ræddi landhelgismálið og viðræður, sem hann þá nýlega átti við McMillan, forsrh. Breta:

„Og loks sagði ég í viðræðunum við stjórn Bretlands; að hvorki núv. ríkisstj. né nein önnur vildi víkja í þessu máli. Það gæti heldur engin ríkisstj. gert, þótt hún vildi. Sú ríkisstjórn Íslands, sem það reyndi, yrði ekki lengur stjórn Íslands, hún yrði að láta sér nægja að vera fyrrv. ríkisstj.

Og enn sagði Ólafur Thors:

„Tillögur ríkisstj. liggja ljóst fyrir, þeim verður ekki breytt. Það fyrirheit tei ég mig geta gefið íslenzkum sjómönnum á þessum hátíðisdegi þeirra, enda treysti ég því, að sérhverri ríkisstj., sem reynir að bregðast hagsmunum Íslands í þessu máli, muni tafarlaust vikið frá völdum.“

Núverandi ríkisstjórn Íslands hefur brugðizt í landhelgismálinu. Hún hefur gert það með samningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja, og hún hefur endurtekið svik sín nú með enn háskalegri hætti með því að rjúfa þá sjálfsögðu þjóðareiningu, sem nú gat skapazt um þetta brýnasta mál Íslendinga, en útilokað var, að tekizt gæti, nema ríkisstj. hyrfi frá villu síns vegar og sameinaðist stjórnarandstöðunni um einarðlega og óhvikula stefnu, sem ein sæmir fullvalda þjóð, þegar um lífshagsmuni hennar er að tefla. Og þess vegna á hún nú að sæta dómsorðum ólafs Thors frá 1953 að láta sér nægja að vera fyrrv. ríkisstj. og verða tafarlaust vikið frá völdum.

Ég þakka áheyrnina og býð góða nótt.