01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (3673)

294. mál, landhelgismál

Jón Árnason:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Segja má, að íslenzka þjóðin standi nú á vegamótum í einu mesta lífshagsmunamáli sínu, landhelgismálinu. Eins og upplýst hefur verið, hafa að undanförnu staðið yfir viðræður á milli stjórnmálaflokkanna um það, á hvern hátt skyldi staðið að því að marka stefnuna og stíga næsta skrefið í útfærslu landhelginnar.

Fullyrða má, að það hafi verið von flestra landsmanna, að Íslendingar bæru gæfu til þess að standa saman sem ein heild um þetta fjöregg sitt, en notuðu það ekki til pólitísks áróðurs í kosningabaráttunni. Því miður hefur þessi von nú brostið. Stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu ágreining innan landhelgisnefndar til þess eins að geta notað málið pólitískt og hafa nú í þeim anda borið fram sérstaka till. til þál. Nú telja þessir flokkar eðlilegt, að ný útfærsla sé tilkynnt með 18 mánaða fyrirvara, þó að þeir gagnrýndu á sínum tíma harðlega það ákvæði samkomulagsins við Breta, að þeim skyldi tilkynnt með 6 mánaða fyrirvara næsta ákvörðun Íslendinga um nýja útfærslu. Stjórnarandstaðan telur einnig, að nú beri að segja upp því ákvæði samkomulagsins, þar sem því var heitið, að Íslendingar skuli fara að alþjóðalögum. Þetta eru meginforsendurnar fyrir því, að stjórnarandstaðan rauf viðræðurnar og bar fram sína till. til þál. um landhelgismálið.

Í till. ríkisstj. um réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið er kveðið á um, að Alþ. kjósi nú fimm manna nefnd, einn frá hverjum þingflokki, og skal sú nefnd semja nýtt frv. til laga um rétt Íslendinga til landgrunnsins og hagnýtingar á auðæfum þess. Þetta frv. skal lagt fyrir næsta Alþ., sem væntanlega kemur saman á komanda hausti. Í þáltill. er síðan tilgreint nánar, hvaða atriði skuli felast í frv. Þar er t.d. gert ráð fyrir, að útfærsla landhelginnar skuli byggð á 400 m jafndýpislínu, en Alþ. getur leyft, að útfærslan geti orðið a.m.k. allt að 60–70 mílur, en ekki 50 mílur eins og till. stjórnarandstæðinga felur í sér. Þessi mikli munur getur átt sér stað sérstaklega hér út af Vesturlandi. Þessi munur einn getur haft verulega þýðingu fyrir fiskveiði Íslendinga, því að með aukinni tækni og stækkun fiskiskipanna getur hagnýting fiskimiðanna náð á enn meira dýpi en áður hefur átt sér stað. Þá skal þetta frv. fela í sér ákvæði um ráðstafanir, sem séu nægilega víðtækar til þess að tryggja eftirlit af Íslands hálfu og varnir fyrir hvers konar mengun eða áhrifum frá skaðlegum efnum í hafinu umhverfis landið.

Öllum er ljós hættan, sem stafar af því, ef þess er ekki gætt í tíma að forða frá þeirri hættu, sem af því getur leitt, að skaðlegum efnum sé fleygt í hafið. Getur svo farið fyrr en varir, að af hljótist það tjón, sem seint verður bætt. Um það verður ekki deilt, að hér verður að setja einhver mörk. Hvort það eiga að vera 100 sjómílur, eins og lagt er til í till. stjórnarandstæðinga, eða eitthvað annað, hygg ég, að sé erfitt að fullyrða um í dag. Hafstraumar eru ekki lengi að berast 100 mílur, en það eitt er víst og allir ættu að vera sammála um, að hér er um mikið alvörumál að ræða og því höfuðnauðsyn, að allar þjóðir heims taki höndum saman um raunhæfar aðgerðir, sem að gagni mega koma.

Í till. ríkisstj. vil ég vekja sérstaka athygli á því atriði, sem veit að friðunarráðstöfunum utan 12 mílna markanna, þó að hv. þm. Lúðvík Jósefsson vildi lítið gera úr því efni till. í ræðu sinni hér áðan. En þar segir, að Alþ. feli ríkisstj. að undirbúa nú þegar friðunaraðgerðir fyrir öllum veiðum til verndar ungfiski á landgrunninu utan 12 mílna markanna, þar sem viðurkennt sé, að um uppeldisstöðvar ungfisks sé að ræða. Ég tel, að hér sé um mjög mikilsvert atriði að ræða, sem eigi tvímælalaust að koma til framkvæmda þegar á komanda sumri.

Fiskifræðingum og sjómönnum er löngu kunnugt um hafsvæði fyrir Norðausturlandi, sem eru miklar uppeldisstöðvar fyrir ungfisk á vissu aldursskeiði. Á þessu veiðisvæði hefur um langt árabil átt sér stað gegndarlaus rányrkja og verið ausið upp ókynþroska fiski. Slíka rányrkju ber að stöðva og það tafarlaust. Þáð er einnig rétt, að Íslendingar veki athygli á því, hvaða ráðstafanir þeir sjálfir hafa gert innan fiskveiðilandhelginnar til þess að forða síldarstofninum við Suðvesturland frá algerri eyðingu. Takmörkun á veiðimagni og friðun á hrygningartímum er vissulega spor í rétta átt, en það er þó ekki nóg að banna síldveiði í Faxaflóa um hrygningartímann, ef fiskibátum með veiðarfæri svo sem botnvörpu líðst á sama tíma að toga yfir klakstöðvarnar með þeim afleiðingum, að hrognaklasinn kremst í sundur.

Stækkun fiskveiðilandhelginnar hér við land hefur um langt árabil verið eitt af heitustu baráttumálum íslenzku þjóðarinnar. Með hverjum áfanga, sem náðst hefur, hafa vonir um betri lífsafkomu glæðzt, og öll þjóðin fagnað því innilega. Óhætt er að fullyrða, að öll íslenzka þjóðin fylgist af miklum áhuga og með athygli með afgreiðslu Alþ. á þessu mikla lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Á stjórnarfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var í dag, var samþykkt ályktun um landhelgismálið. Segist stjórn LÍÚ fagna þeim áhuga, sem fram hefur komið hjá þjóðinni um útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Jafnframt harmar hún, að ekki hefur tekizt samstaða á Alþ. um væntanlegar aðgerðir í málinu, þótt fyrir liggi, að allir aðilar virðist keppa að álíka markmiði. Stjórn LÍÚ telur, að leita eigi eftir samkomulagi við aðrar þjóðir um útfærslu fiskveiðilögsögunnar og bíða beri með einhliða aðgerðir, þar til séð verður, hvort samkomulag tekst eða ekki á fyrirhugaðri hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um, hver réttur þjóða skuli vera til víðáttu fiskveiðilögsögu. Þegar að útfærslu fiskveiðilögsögunnar kemur, má hún ekki ná skemmra að áliti stjórnar LÍÚ en að 400 m dýptarlínu, sem mun í framkvæmd leiða til a.m.k. 60–70 mílna fiskveiðilögsögu við Vesturland og um 50 mílna annars staðar við landið. Jafnframt hvetur stjórn LÍÚ til þess, að svo fljótt sem hægt er verði gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til verndar ungfiski fyrir öllum veiðum á landgrunnssvæðinu, þar sem viðurkennt er, að helztu uppeldisstöðvar ungfisks séu. Ályktun þessi var samþykkt á almennum stjórnarfundi LÍÚ, þar sem mættir voru bæði aðalmenn og varamenn í stjórninni. Hún var samþykkt með 15 atkv. gegn einu. Ályktun þessi er skýr, og hún talar sínu máli til Alþ. í stjórn LÍÚ eiga sæti fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum, alls staðar að af landinu, og á fundinum í dag voru fulltrúar frá Austfjörðum, af Norðurlandi, frá Vestfjörðum, af Vesturlandi og af Suðurlandi. Þeir blanda ekki stjórnmálum inn í þetta lífshagsmunamál sitt og allrar þjóðarinnar, en taka afstöðu til málsins með ábyrgðartilfinningu fyrir því, hvað þjóðinni sé fyrir beztu.

Segja má, að það sé ótrúlega skammt til baka til þess tíma, að fyrst fór að rofa til í landhelgismálum Íslendinga. Allt til ársins 1952 máttum við búa við landhelgi, sem aðeins náði 3 sjómílur frá landsteinunum, en þá fengust verulegar úrbætur, er landhelgin var færð út í 4 sjómílur frá yztu annesjum, þannig að innan landhelginnar voru allir flóar og firðir kringum allt landið. Með 12 mílna útfærslunni 1958 er svo stærsta skrefið stigið. Þá stækkaði landhelgin frá því að hafa verið 24 530 km2 með þriggja mílna landhelginni í 69 809 km2.

Á meðan samningarnir við Breta stóðu enn yfir á árinu 1960, skeði það, að allir þm. Framsfl. og Alþb. í Ed. Alþ. báru fram frv. til laga um að lögfesta þau grunnlínumörk öll, sem ákveðin höfðu verið með reglugerðinni frá 1958. Þessi ákvörðun stjórnarandstöðunnar, eins og á stóð, var af ýmsum talin mjög hæpin og gat raunverulega spillt fyrir því, að unnt væri að ná samkomulagi um hagstæðari grunnlínumörk en í þeirri reglugerð voru, en að því var þá unnið. Sem betur fór náði þetta frv. ekki að skaða málið, og ný grunnlínumörk, sem fólu í sér stækkun landhelginnar um 5065 km2 til viðbótar, komu til framkvæmda skv. þál. ríkisstj. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta, sem samþykkt var á Alþ. þann 9. marz 1961. Þannig hafði á þessu tímabili eða frá útfærslunni, sem átti sér stað 1952, eða á tæpum 10 árum, tekizt að þrefalda íslenzka fiskveiðilögsögu.

Eins og fram kemur í grg. með till. stjórnarflokkanna um landhelgismálið, hefur það verið sameiginlegt álit allra þeirra flokka, sem fulltrúa áttu í landhelgisnefnd, að kominn væri tími til þess að marka nýjar aðgerðir í landhelgismálinu. Til undirbúnings þeim aðgerðum var að frumkvæði ríkisstj. mynduð landhelgisnefnd. Í lengstu lög vildu menn treysta því, að þetta lífshagsmunamál íslenzku þjóðarinnar yrði ekki haft að pólitísku bitbeini í kosningabaráttunni, heldur stæði þjóðin öll og einhuga saman um þær ráðstafanir, sem gerðar yrðu. Þetta fór því miður á annan veg. Af hálfu þríflokkanna var ákveðið, að málið skyldi notað í pólitískum kosningaáróðri og ekki horft í afleiðingarnar.

Þróun landhelgismála hjá öðrum strandríkjum virðist í flestum tilfellum stefna í þá átt, að tíminn sé að vinna með okkur. Megi íslenzka þjóðin hafa sem mesta sæmd og árangur, þegar til þess kemur, að ákvörðun verður tekin um næsta áfanga í útfærslu íslenzkrar fiskveiðilögsögu. — Góða nótt.