01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

294. mál, landhelgismál

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Líklegast á engin þjóð veraldar orð á sinni tungu, sem nákvæmlega feli í sér það sama og okkar íslenzka orð landhelgi. Þetta orð býr yfir einhverju, sem er stærra og meira í ætt við háleitt markmið en hliðstæð orð á öðrum tungum. Og í kvöld erum við að ræða og því miður að deila um landhelgi Íslands. Við þm. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna höfðum fullan hug á, að um þetta mál, landhelgismálið, næðist full samstaða, bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, að reynt yrði til hins ýtrasta að sameina þjóðina um lausn þess, eins og jafnan áður, og forða því, að það yrði að bitbeini í orrahríð kosninga. Við komum okkur því fyrst niður á það, hvað hlytu að verða ófrávíkjanlegar lágmarkskröfur, bæði með tilliti til ástandsins nú og í næstu framtíð á fiskislóðum landgrunnsins og eins aðstæðna á alþjóðavettvangi. Geigvænleg hætta og sívaxandi blasir nú þegar við fiskstofnunum. Hins vegar er í undirbúningi alþjóðleg ráðstefna um landhelgismál árið 1973. Við töldum því, að útfærslan yrði í síðasta lagi að vera komin í framkvæmd fyrir þá ráðstefnu. Með því veittum við öflugastan stuðning þeim ríkjum, sem ýtrastar kröfur gera, og stuðluðum á áhrifaríkan hátt að því, að sú ráðstefna gangi frá sem rýmstum alþjóðlegum ákvæðum í þessum efnum. Enn fremur er ekki útilokað, að ef tilskilinn meiri hl. á ráðstefnunni gengi frá alþjóðlegum reglum, sem gengju skemur í útfærsluátt en við og fleiri krefjumst, þá yrði e.t.v. undanþága gerð fyrir þau ríki, sem hefðu lýst yfir stærri landhelgi en þar yrði viðurkennd.

Fyrsta staðreynd málsins er því sú, að ástand fiskstofnanna á Íslandsmiðum og alþjóðlegar aðstæður krefjast útfærslu ekki síðar en síðla árs 1972. Annað grundvallaratriði, sem athuga þurfti, var, hvernig standa skyldi að útfærslunni. Öllum mun kunnugt um, að samkv. landgrunnslögunum frá 1948 lýsti Ísland yfir einhliða rétti sínum til yfirráða yfir öllu landgrunninu, þannig að útfærsla landhelgi væri algert innanríkismál, ákveðin á hverjum tíma með einfaldri reglugerðarbreytingu ráðherra. Þannig höfum við líka alltaf staðið að málum, og það hefur skilað okkur vel áfram. Þannig hafa allar þjóðir farið að, sem fært hafa út landhelgi sína. En árið 1961 gerðu núv. stjórnarflokkar illu heilli samning við Breta og ári síðar við Vestur-Þjóðverja, og var ein grein hans á þessa leið:

„Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstjórn Breta slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara. Rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðilinn óskar þess, skotið til alþjóðadómstólsins.“

Og hvað þýðir þetta? Það þýðir í fyrsta lagi algert fráhvarf frá þeirri stefnu, sem þeir höfðu markað með landgrunnslögunum frá 1948 og ítrekað með þál. frá 5. maí 1959, sem allir flokkar stóðu þá að, að landgrunnið allt væri undir íslenzkri lögsögu og lög og reglugerðir þar að lútandi væru íslenzk innanríkismál, sem þar af leiðandi yrði ekki skotið til neinna erlendra dómstóla. Það þýðir einnig, að við hverja útfærslu út fyrir 12 mílurnar verðum við að tilkynna Bretum framkvæmdina með 6 mánaða fyrirvara, og geri þeir ágreining, þá skal alþjóðadómstóllinn í Haag skera úr. Að sjálfsögðu mundi útfærslan tefjast meðan málið væri rekið fyrir dómstólnum, og er það eitt nógu illt út af fyrir sig. Eins og ástandi fiskstofnanna er háttað, þolir útfærslan ekki margra ára bið.

En eftir hverju á svo alþjóðadómstóllinn að dæma? Engin alþjóðleg lög eða samþykktir eru til, sem hann getur farið eftir. Það á einmitt að vera hlutverk ráðstefnunnar 1973, eins og það var á alþjóðaráðstefnunum 1958 og 1960, sem þó ekki tókst, að slá föstum einhverjum alþjóðlegum reglum í þessum efnum. En alþjóðadómstóllinn gæti reynt að draga saman allar þær sundurleitu reglur, sem nú eru í gildi meðal þjóða heims, og draga af þeim einhverja almenna og algilda ályktun. Það er alveg víst, að í slíku tilfelli mundi hann gæta ýtrustu varfærni og draga hin þrengstu hugsanlegu takmörk. Félli úrskurður hans fyrir landhelgisráðstefnuna, þá væri þar með búið að binda hendur hennar fyrir fram og við miklu þrengri mörk, jafnvel 12 mílur, á þeim forsendum, að það er nú um þessar mundir algengasta reglan, — við miklu þrengri mörk en líklegt er, að ná megi fram að ganga á alþjóðlegri ráðstefnu á annað hundrað ríkja. Alþjóðadómstóllinn gæti líka vísað málinu frá á þeim forsendum, að engin alþjóðleg lög séu til til þess að dæma eftir og núgildandi lög þjóðríkja séu of sundurleit til þess, að af þeim yrði dregin nokkur almenn regla. Hvar stæðum við þá t.d. gagnvart Bretum? Stæðum við þá ekki í sömu sporum og 1958? Jú, nákvæmlega í sömu sporum. En eitt gæti alþjóðadómstóllinn ekki úrskurðað. Hann gæti að vísu úrskurðað, að útfærsla okkar ætti ekki stoð í gildandi réttarreglum, en hann gæti ekki úrskurðað, að útfærslan væri brot á nokkrum gildandi alþjóðareglum eða lögum. Á þessu höfum við byggt alla baráttu okkar. Það hefur verið meginstefnan í öllum aðgerðum okkar, hvort sem þær hafa verið meiri eða minni, frá 1950 til 1958, að þær eru í fyrsta lagi einhliða og þær hafa allar verið gerðar vegna lífsnauðsynjar íslenzku þjóðarinnar. Það hefur verið knýjandi nauðsyn, sem ekki mátti bíða, og svo er það enn. En þær voru allar gerðar í samræmi við þjóðarétt, eins og hann hefur verið á hverjum tíma. Við fórum ekki lengra en í 4 mílur 1952, af því að við höfðum þá ekki annað fyrir okkur en úrskurð alþjóðadómstólsins í málum Norðmanna og Breta, og sá dómur fjallaði fyrst og fremst um rétt grunnlínupunkta og lokun flóa og fjarða. En hann fjallaði alls ekki efnislega um alþjóðareglur um víðáttu landhelgi. Við sættum okkur við það þá, allir þingflokkar,.að fara ekki lengra í það sinn. Við sættum okkur við þær grunnlínur þá, vegna þess að þær voru þá a.m.k. hámark þess, sem þjóðarétturinn leyfði.

Árið 1958 var það víðátta landhelginnar, sem var aðalatriðið, og við breyttum ekki grunnlínum þá, þó að það væri hægt samkv. alþjóðasamþykkt,-það var gert síðar, — af því að 12 mílurnar voru aðalatriði. Við fórum ekki lengra en í 12 mílur þá, til þess að enginn gæti leitað samninga við okkur á þeim forsendum, að við hefðum farið lengra en áreiðanlega væri leyfilegt að þjóðarétti. Við höfðum þá fyrir okkur álit alþjóðalaganefndar Sameinuðu þjóðanna frá 1956, sem við byggðum þessa skoðun á að verulegu leyti, auk allra annarra íslenzkra raka okkar. Margir voru bjartsýnir á það þá, að við hefðum getað fengið 12 mílurnar viðurkenndar fyrir alþjóðadómstólnum. En enginn þingflokkur lagði til, að sú leið væri þá reynd. Og hvers vegna ekki? Um það spurði forsrh. í kvöld. Svarið er einfalt, og hann skal fá það. Það var vegna þess, að þá hefðu 12 mílurnar orðið alþjóðleg regla og loku skotið fyrir frekari útvíkkun landhelgi af okkar hálfu eftir lagalegum leiðum. Um 25–30 ríki höfðu lýst yfir 12 mílna landhelgi, þegar við bættumst í hópinn. Barátta okkar átti drjúgan þátt í, að sú regla sigraði og varð algeng og almenn regla. Þetta gerðist án þess að binda hendur okkar um frekari útvíkkun.

Nú hafa 20 ríki víðari fiskveiðilögsögu en 12 mílur, allt frá 18–25 og upp í 200 mílur, og er það síðast talda algengast. Af þessum 20 hafa 11 fært út landhelgi sína eftir 1960. Þjóðarétturinn er því enn í örri þróun á þessu sviði. Því er okkur það lífsnauðsyn, að alþjóðadómstóll slái engu föstu í þessu efni miðað við ástandið í dag. Okkur er jafnframt lífsnauðsyn að færa út landhelgina vegna ástands fiskstofnanna og einnig til þess að geta lagt okkar lóð á vogarskálarnar um frekari þróun þjóðaréttarins í átt að takmarkinu, sem við settum okkur 1948, eins og við gerðum það með útfærslunni 1958. En hér er brezk-þýzki samningurinn hindrun í vegi.

Lágmarksgrundvöllur fyrir samstöðu allra flokka um landhelgismálin nú var að dómi okkar í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna sá, að brezk-þýzka samningnum yrði sagt upp og útfærsla kæmi til framkvæmda fyrir alþjóðaráðstefnuna 1973. Um þetta vildum við fá samstöðu. Við vissum, að það var máske til of mikils mælzt, að stjórnarflokkarnir féllust nú á þau orð okkar stjórnarandstæðinga, þegar samningurinn var gerður 1961, að hann væri nauðungarsamningur, gerður frammi fyrir gínandi byssukjöftum brezka flotans og því að engu hafandi af Íslendingum. Nú, áratug síðar, er hann orðinn staðreynd. Í honum eru að vísu engin uppsagnarákvæði, en þjóðaréttur þekkir ekki og viðurkennir ekki, að til séu nokkrir samningar, sem séu ævarandi og óuppsegjanlegir, sízt ef upphaflegar ástæður og forsendur fyrir gerð hans eru ekki lengur fyrir hendi, eins og í þessu tilfelli. Við vildum fá stjórnarflokkana til þess að segja honum upp vegna gerbreyttra aðstæðna. Og hverjar eru þær aðstæður, sem breytzt hafa? Jú, Björn Jónsson dró upp mynd af því hér í kvöld, hvernig á síðasta áratug hafa komið upp risaflotar stórveldanna, sem æða nú um heimshöfin og eira engu kviku. Flottrollið hefur þróazt gífurlega þennan áratug, og nú er ekki aðeins botninn skafinn heldur hafa menn fullkomið vald á að beita því upp um allan sjó, frá botni til yfirborðs. Rafeindatæknin hefur verið fullkomnuð, og netsjáin getur gefið greinilega mynd af hverjum einstökum smáfiski framan við kjaft vörpunnar. Nú þarf með öðrum orðum engar torfur til. Menn eru meira að segja að komast upp á lag með að beita gervitunglum til þess að afla upplýsinga um fiskgöngur og senda þær samstundis til skipanna. Síldarstofni Norðaustur-Atlantshafsins var næstum því gereytt svo að segja undir nefinu á forustuvísindamönnum þriggja þjóða. Barentshafið og hafið út af Norður-Noregi verður sennilega friðað í vor, og þá stefna stórvirkir flotar gereyðingarmætti sínum hingað á okkar íslenzku fiskimið.

Hæstv. ráðh. Emil Jónsson leyfði sér áðan að vefengja tölur þær, sem Björn Jónsson flutti um fyrirhugaða aukna ásókn Breta á Íslandsmið, en þær tölur eru óvefengjanlegar, það get ég sagt ráðh., því að þær eru fengnar beint úr skýrslu frægustu vísindastofnunar Breta um fiskveiðimál, þó að hæstv. utanrrh. þykist ekkert um þessar tölur eða skýrslur vita.

Jón Jónsson forstöðumaður Hafrannsóknastofnunarinnar benti nýlega á það í blaðaviðtali, að á árunum 1935–1939 hrygndi hver meðalþorskur 2.4 sinnum á æviskeiði sínu. 30 árum síðar, 1965-1969, hafði viðkomumöguleiki þorsksstofnsins rýrnað um helming, því að þorskurinn gat aðeins hrygnt 1.2 sinnum á æviskeiðinu. Og Jón bætti við: Það er augljóst, að stofninn er í hættu, ef þetta ástand heldur áfram. Hann veltir svo fyrir sér, hvort ekki væri betra að ákveða leyfilegt heildarveiðimagn, kvóta þorsks á Íslandsmiðum, og útdeila kvóta til einstakra þjóða, áður en við fáum flotann frá Barentshafi eða lengra að hingað á miðin. Slíkt kann að vera fullnægjandi fyrir þjóðir, sem ekki eiga afkomu sína nema að örlitlu leyti undir fiskveiðum. En það væri óþolandi fyrir okkur Íslendinga, sem eigum líf okkar undir þeim. Okkur dugir ekkert minna en stórfelld útvíkkun fiskveiðilögsögu okkar, annars væru aðrir farnir að skammta okkur úr okkar eigin matbúri.

Þannig eru ástæður gerbreyttar frá því fyrir 10 árum, en stjórnarflokkarnir hafa ekki viljað hlusta á þessi rök. Því síður vilja þeir fallast á, að þau réttlæti uppsögn brezk-þýzka samningsins. Þeir bæta gráu ofan á svart. Þessi samningur er í þeirra augum heilagur. Við verðum stimplaðir sem samningsrofar á alþjóðavettvangi. Við missum traust vinveittra þjóða, segja þeir, ef við dirfumst að segja upp, þó með drjúgum fyrirvara sé, venjulegum milliríkjasamningi. óskapleg hræðsla er þetta. Og þeir ganga lengra. Þeir segja, að einmitt samningarnir við Breta séu okkar stórsigur í landhelgismálinu og okkar gæfa, okkar haldreipi, segja þeir. Já, laglegt haldreipi það, sem bindur okkur á höndum og fótum eins og haft og getur innan skamms hert að hálsi okkar líka, ef ekki verður á það skorið. Með brezka samningnum var þvert ofan í alvarlegar aðvaranir stjórnarandstæðinga í fyrsta sinn sáð frækornum varanlegrar sundrungar. Þeir sömu menn höfnuðu nú þeim grundvelli, sem einn getur aftur skapað einingu um landhelgismálið. Brezka ljóninu, gömlu og sljóu, hefur enn þá einu sinni tekizt það, sem heimsveldi þess eitt sinn byggðist á, að deila og drottna.

Við Íslendingar höfum nú um tveggja ára skeið notið stöðugs og síbatnandi verðlags á fiskafurðum okkar erlendis og reist við á skömmum tíma eftir verðhrunið 1967–1968. Alþjóðlegar fjármálastofnanir hafa nýlega gefið út spár um þróun fiskiðnaðarins á næstu árum, þessum áratug og jafnvel fram á hinn næsta. Það, sem einkennir þær allar, er mikil bjartsýni. Fiskiðnaðurinn er talinn verða ein ábatasamasta iðngrein á þessum árum. Margir okkar kunna að vera uggandi um, að nú hljóti hámarki hagstæðrar verðþróunar að vera náð og þróunin fari síðan að snúast við á hinn veginn, en þessa uggs gætir þó ekki hjá hinum annars gætnu fjármálamönnum. Þeir spá áfram stöðugu og síhækkandi verðlagi. Þetta ætti að vera okkur öllum Íslendingum mikið ánægjuefni. Það þýðir, að við getum áfram búið að okkar auðlindum með sívaxandi velmegun án þess að vera á nokkurn hátt neyddir til að raska náttúru okkar eða spilla umhverfinu með stóriðjuverum, spýtandi úrgangi í loft, láð og lög, og án þess að þurfa að raska búsetu okkar frekar en orðið er með mannflutningum til stórverksmiðja, sem auðvitað verða ekki reistar annars staðar en í þéttbýli, án þess að þurfa að grípa til þess ráðs að umsnúa öllum ám og vötnum til framleiðslu á raforku, sem selst á vægu verði. Í þessum efnum getum við haft frjálst val. Án allra efnahagslegra þvingana getum við valið og hafnað að vild. Fiskurinn mun skapa okkur meiri velmegun en nokkur stóriðja megnar, ef — og það er nú þetta stóra ef — já, ef við getum ráðið sjálfir hagnýtingu fiskimiða okkar. Landhelgin er þar það mikilsverðasta. 50 mílna útfærsla er stórt skref, en takmarkið allur landgrunnsstöpullinn, sem landið hvílir á. En við verðum líka að fara að sýna í verki, að þar kunnum við með að fara. Við eigum ekki aðeins að láta nægja að krefjast þess af okkur og öðrum, að við stillum í skynsamlegt hóf sókn okkar í fiskstofnana. Við eigum líka að hjálpa náttúrunni. Ekki stunda bara fálmkennda veiðimennsku heldur hefja ræktun, ræktun í sjónum ekki síður en á landinu. Og þarna geta sumar þær þjóðir, sem nú stunda hvað hamslausasta rányrkju í heimshöfunum, orðið okkur til fyrirmyndar. Japanir, Bretar, Frakkar og V.-Þjóðverjar hafa nú þegar hafið fiskrækt í stórum stíl, ekki aðeins á vatnafiski eins og laxi og silungi, heldur á hvers konar flatfiski t.d. og einnig á rækju. Heimsframleiðslan á þessu sviði nemur nú þegar um 3 millj. tonna auk 1 millj. tonna af skelfiski. Og því er spáð, að þessi framleiðsla muni hafa aukizt upp í 20 millj. tonna árið 1985 eða sem svarar til rúmlega þriðjungs alls þess aflamagns, sem nú er með gegndarlausri rányrkju skóflað upp úr heimshöfunum. Danir flytja nú þegar ræktaðan fisk út fyrir milljarða króna. Hér á landi blasa við ótæmandi verkefni á þessu sviði, bæði á sjó og í vötnum. Ég vil benda á það myndarlega átak, sem nokkrir áhugamenn hafa þegar gert í Lárósi á Snæfellsnesi í sambandi við laxarækt. Ég vil benda á fjörð eins og Hamarsfjörð á Austfjörðum, sem var svo fullur af kola fyrir nokkrum árum, að hann lá í þykkum lögum og fékk ekki nóg vaxtarskilyrði. Hvað mætti ekki gera þar, ef náttúrunni væri hjálpað ögn? Ég vil benda á þá fjölmörgu firði á Vestfjörðum, sem hafa sjálfrennandi heitt vatn upp á að bjóða í flæðarmáli eða á sjávarbotni. Ég vil minna á þá stórbrotnu hugmynd nokkurra áhugamanna að loka mynni Þorskafjarðar með uppfyllingu, sem jafnframt yrði vegarstæði, og hefja síðan fiskrækt í stórum stíl innan hennar. Ég nefni þessi fáu dæmi af handahófi. Þeir eru fjölmargir, þeir firðir, þær víkur og þeir vogar, sem bjóða hin beztu skilyrði fyrir það ræktunarstarf, sem ungir og áræðnir framtaksmenn hljóta að verða fljótlega að hefjast handa um. Hér þarf skipulag, fjármagn og framtak, og þá mun uppskeran ekki láta á sér standa. Það virðist ekki heldur ýkja fjarlægt, að hafið sé uppeldi á nokkrum helztu nytjafiskum okkar, eins og þorski og ýsu.

Herra forseti, góðir hlustendur. Ég hef nú lýst þeim glæsilegu framtíðarhorfum, sem blasa við fiskiðnaði okkar á næstu árum. Til þess að þær verði að veruleika. þarf aðeins að tryggja eitt, nægilegt hráefni. Eins og horfir fyrir fiskstofnunum, er útfærsla fiskveiðilögsögu okkar svo fljótt sem auðið er það einasta, sem það getur tryggt. Ég hef bent á, hvernig brezk-þýzki samningurinn hefur hindrað okkur í því, hvernig hann hefur verið rekinn eins og fleygur inn í samstöðu okkar, gert höfuðandstæðingnum kleift að deila og drottna. Þetta haldreipi okkar, sem stjórnarsinnar nefna svo, fjötrar okkur á höndum og fótum og getur, eins og ég áðan sagði, áður en varir herpzt að hálsi okkar. Aðeins ein leið er nú til, sem gæti aftur skapað einhuga samstöðu í þessu máli: Að kjósendurnir svipti núv. ríkisstj. þingmeirihluta sínum í kosningunum, sem fram undan eru, og geri það svo rækilega, að þótt núv. stjórnarflokkar, annar hvor eða báðir, semji sig inn í næstu ríkisstj., treysti þeir sér ekki til annars né minna en þess, sem lagt er til í þeirri till., sem stjórnarandstaðan, þrátt fyrir allan annan ágreining, stendur nú sameiginlega að. Ég vil mega treysta því, að hvorugur hinna stjórnarandstöðuflokkanna vilji vinna það til fyrir stjórnarstóla að slaka á þeim meginatriðum, sem hér hafa verið sett fram. Brezk-þýzka samningnum sé sagt upp. Útfærsla ákveðin ekki minni en 50 mílur og framkvæmd ekki síðar en 1. sept. 1972. Samtök frjálslyndra og vinstri manna munu setja það að skilyrði fyrir myndun hverrar þeirrar ríkisstj., sem þau kynnu að eiga aðild að. Afnám brezk-þýzka samningsins í eitt skipti fyrir öll í þessum kosningum. Opnum á ný leiðina til samstöðu. Höldum áfram að eiga þátt í þróun þjóðaréttar til takmarks okkar, sem er óskoruð yfirráð yfir öllu landi okkar ofan sjávar og neðan. — Góða nótt.