01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

294. mál, landhelgismál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. kvaðst vænta þess, að stjórnarandstaðan yrði fús til að styðja að því, að fjármagn fengist til þeirra rannsókna á landgrunninu, sem hann taldi réttilega mjög aðkallandi. Fulltrúar Framsfl. hafa þegar lagt fram þá till. í fjhn. Nd. í sambandi við frv. um framkvæmdalán, að 35 millj. kr. verði varið til þessara rannsókna á þessu ári. Við bíðum nú eftir svari frá stjórnarflokkunum um það, hvort þeir vilja styðja þessa till. En óhætt er að segja, að þessar rannsóknir eru mjög aðkallandi til styrktar hinni nýju sókn í landhelgismálinu.

Forsrh. hefði ekki átt að minnast á orsök þorskastríðsins 1958. Það er opinbert leyndarmál, að Bretar héldu, að Íslendingar væru klofnir í málinu og vinstri stjórnin mundi gefast upp strax og brezku herskipin birtust í landhelginni. Þessa röngu ályktun sína byggðu Bretar á því, að Sjálfstfl. hafði haldið uppi miklu andófi gegn útfærslunni, tortryggt hana á allan hátt og á síðustu stundu viljað vísa henni til Atlantshafsbandalagsins. Ef Bretar hefðu haft rétta vitneskju um einhug þjóðarinnar, hefðu þeir sennilega aldrei beitt ofbeldinu.

Það hefur verið háttur flestra stjórnarsinna í þessum umr., að forðast sem mest rökræður, en þyrla upp sem mestu moldviðri um það, að stjórnarandstaðan væri að reyna að gera landhelgismálið að kosningamáli með tillöguflutningi sínum í málinu. Mér finnst rétt að benda á það í tilefni af þessu, að í landhelgisnefndinni voru fulltrúar allra flokka sammála um, að landhelgismálið væri af ýmsum ástæðum komið á alveg nýtt stig og þess vegna væri eðlilegt, að Alþ. gerði nýja ályktun um málið, áður en þessu þingi lyki. Því fer þannig fjarri, að stjórnarandstaðan sé án tilefnis að flytja till. um landhelgismálið vegna kosninganna, þar sem allir flokkar eru sammála um, að Alþ. þurfi að gera nýja ályktun. Ég vil jafnframt benda á, að í till. okkar stjórnarandstæðinga er ekki að finna neitt, sem ekki er í fyllsta samræmi við fyrri stefnu okkar og vinnubrögð. Við höfum alltaf verið á móti landhelgissamningunum við Bretland og V.-Þýzkaland og talið uppsögn þeirra vera óhjákvæmilegan undanfara þess að færa út fiskveiðilandhelgina. Við töldum það rétt vinnubrögð að færa út fiskveiðilandhelgina 1958 eða nokkru fyrir hafréttarráðstefnuna, sem þá var sýnt, að yrði haldin 1959 eða 1960. Það reyndust líka rétt vinnubrögð, því að útfærsla Íslendinga í 12 mílur hafði úrslitaáhrif á gang ráðstefnunnar 1960. Það er ekki sízt vegna þeirrar hagstæðu reynslu, sem við leggjum megináherzlu á það nú, að fiskveiðilandhelgin verði færð út fyrir ráðstefnuna 1973. Annars held ég, að það séu stjórnarsinnar sjálfir, sem setja mestan kosningablæ á umr. um landhelgismálið. Það hefur áreiðanlega ekki farið fram hjá þeim, sem hafa hlustað á þessar umr., að það eru stjórnarsinnar, sem notað hafa stóru orðin og brigzlin. Þeir hafa sagt, að stjórnarandstæðingar gerðu sig seka um ævintýrapólitík, siðleysi og ábyrgðarleysi, eins og hæstv. ráðh. Emil Jónsson gerði hér rétt áðan. Enn lengra gekk þó hv. þm. Birgir Finnsson í skammarvaðli sínum um hv. þm. Ólaf Jóhannesson. Ég mun láta það ógert að svara þessum hv. þm. í sömu mynt. Ég held, að landhelgismálið sé þjóðinni svo mikilvægt, að við ættum að forðast mikil brigzlyrði í sambandi við það og ræða ekki um það eins og götudrengir. Ég trúi því ekki um andstæðinga mína, að þeir hafi ekki áhuga á, að árangur náist í landhelgismálinu. En okkur greinir á um leiðir og aðferðir. Það, sem okkur ber að gera, er að leggja það sem ljósast fyrir þjóðina, hver ágreiningsefnin eru, án allra brigzla og æsinga, og það er svo hennar að dæma, hvaða leið eða aðferð hún vill velja.

Þótt stjórnarflokkunum og stjórnarandstæðingum beri sitthvað á milli í landhelgismálinu, veldur tvennt mestum ágreiningi. Annað er, að stjórnarandstaðan telur nauðsynlegt að segja upp landhelgissamningunum við Bretland og V.-Þýzkaland, er hafizt er handa um útfærslu. Stjórnarflokkarnir virðast hins vegar telja, að halda eigi þessa samninga til eilífðar. Hitt er það, að stjórnarandstaðan telur, að útfærsla fiskveiðilandhelginnar eigi að koma til framkvæmda fyrir hafréttarráðstefnuna 1973. Stjórnarflokkarnir telja, að við eigum að bíða eftir úrslitum hafréttarráðstefnunnar eða lengur, eftir því hver réttarþróunin í heiminum verður. Þeir vilja enga ákvörðun taka um það nú, hvort útfærsluna eigi að gera eftir 2 ár, 10 ár eða 20. Það á allt að fara eftir réttarþróuninni í heiminum.

Rétt er að athuga nokkru nánar fyrra ágreiningsatriðið, uppsögn landhelgissamninganna. Samkv. þeim geta Bretar og V.-Þjóðverjar krafizt þess, ef Íslendingar færa út fiskveiðilögsöguna, að það verði lagt undir úrskurð alþjóðadómstólsins, hvort útfærslan samrýmist alþjóðalögum eða ekki. Engir alþjóðlegir samningar eru nú fyrir hendi um víðáttu fiskveiðilandhelgi og ekki heldur nein viðurkennd hefð. Hins vegar hafa flest ríki 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Samkv. því er það skoðun helzta sérfræðings ríkisstj., Hans G. Andersens, að 12 mílna reglan hafi nú gildi sem alþjóðalög. Þótt vefengja megi með gildum rökum þessa kenningu, er eigi að síður mikil ástæða til að óttast, að úrskurður alþjóðadómstólsins gæti fallið á eitthvað svipaða leið. Þess ber nefnilega að gæta hér, að dómstólar eru yfirleitt íhaldssamir, ef ekki er hægt að fara eftir glöggum lögum, samningum eða viðurkenndri hefð. Samkv. þessu geta Íslendingar því ekki örugglega vænzt hagstæðs úrskurðar alþjóðadómsins fyrr en a.m.k. helmingur strandríkja hefur fært fiskveiðimörk sín út fyrir 12 mílur. Hvort það verður eða hvenær það verður, getur enginn sagt nú. Ef Íslendingar ætla þannig vegna bindingarákvæða landhelgissamninganna að bíða eftir þróuninni í þessum efnum, verða þeir meðal þeirra síðari eða síðustu, sem færa út fiskveiðilandhelgina, í stað þess, að þeir ættu að vera meðal þeirra fyrstu, þegar þess er gætt, að engin þjóð er færari í fiskveiðum en þeir. Það er ekki hægt fyrir okkur Íslendinga að vera þannig meðal þeirra öftustu í röðinni og þurfa að bíða eftir því upp á von og óvon, að nógu margar þjóðir verði til þess að færa út fiskveiðilandhelgina á undan okkur og skapi þannig alþjóðlega reglu, sem alþjóðadómurinn metur gilda. Fiskimið okkar geta verið þurrausin, áður en slík þróun á sér stað. Í þessu sambandi er ástæða til að árétta það, að fram að þessu hefur nær öll útfærsla á fiskveiðilögsögu orðið með þeim hætti, að einstök ríki hafa tekið sér einhliða rétt til að helga sér stærri landhelgi en samrýmdist þeirri alþjóðavenju, sem þá gilti. Það er þessi einhliða réttarbreyting einstakra ríkja, sem hefur átt mestan þátt í réttarþróuninni varðandi stækkun landhelginnar. Á áratugnum 1950–1960 vorum við Íslendingar í fararbroddi þeirra þjóða, sem höfðu forustu um þessa réttarþróun. Þetta gerðu Íslendingar með útfærslunum 1952 og 1958. Síðan 1961, er umræddir samningar voru gerðir, hafa Íslendingar orðið að halda að sér höndum og bíða eftir því, að nógu margar aðrar þjóðir færðu út landhelgina og sköpuðu þannig nýjar réttarreglur. Þess vegna munum við verða meðal þeirra síðustu í stað þess að vera áfram meðal hinna fyrstu, meðan við segjum samningunum ekki upp og endurheimtum hinn einhliða rétt að nýju.

Þetta eru meginrökin fyrir því, að stjórnarandstæðingar vilja losa þjóðina undan bindingarákvæðum landhelgissamninganna við Breta og V.-Þjóðverja. Hagsmunir okkar leyfa okkur ekki, að við bíðum eftir því að vera meðal hinna síðustu í röðinni. Við getum ekki vegna lífsafkomu okkar verið bundnir á þennan hátt einir allra þjóða. Þess vegna höfum við fyllsta rétt til að segja upp þessum samningum, þó að þeir hafi ekki nein uppsagnarákvæði. Enginn samningur er eilífur, þótt hann hafi ekki sérstök uppsagnarákvæði. Í umræddum samningum er ekki heldur neitt, er bannar uppsögn. Aðeins ein tímamörk eru í samningunum, þriggja ára undanþága, sem brezkir og þýzkir togarar fengu til að veiða innan 12 mílna markanna. Þau þrjú ár eru liðin og sjö ár til viðbótar. Þetta ásamt mörgu öðru styður rétt okkar til uppsagnarinnar, en mikilvægast er þó það, að það er vafalítið mesta lífshagsmunamál þjóðarinnar að færa fiskveiðilandhelgina út.

Ég kem þá að því ágreiningsatriðinu, hvort færa eigi út fiskveiðilögsöguna fyrir eða eftir hafréttarráðstefnuna 1973. Stjórnarflokkarnir segja, að við eigum að bíða eftir úrslitum hennar, því að margt bendi til, að niðurstaða hennar geti orðið okkur hagstæð. Ályktanir sínar um þetta byggja stjórnarflokkarnir einkum á því, að allir játa nú í orði, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir gegn ofveiði, og margir játa einnig í orði að veita beri strandríkjum vissan forgangsrétt. Þetta gera ekki sízt Bandaríkjamenn og Rússar, en þeir og hinir mörgu fylgismenn þeirra vilja ekki gera þetta á þann veg, að fiskveiðilandhelgin verði færð út, heldur verði hún bundin við 12 mílur og strandríki fái einhvern mjög takmarkaðan forgang utan þeirra marka. Að öðru leyti verði samið um hámark veiðinnar á svæðinu utan 12 mílna markanna og henni sé skipt milli þeirra þjóða, sem áður hafa stundað veiðar þar, eftir vissum hlutföllum. Fyrir Íslendinga væri það hið mesta áfall, ef þessi stefna yrði ofan á. En það getur að sjálfsögðu enginn fullyrt nú, og vafasamt, að það skýrist til fulls fyrr en í lok ráðstefnunnar. Það er algengt á slíkum ráðstefnum, að mörg ríki breyti afstöðu sinni á síðustu stundu, m.a. vegna hrossakaupa um brtt. Í því sambandi má vitna til þess, að á síðustu fjórum dögum hafréttarráðstefnunnar 1960 snerust 11 ríki til fylgis við landhelgistillögu Bandaríkjanna, eftir að hafa áður annaðhvort greitt atkv. gegn henni eða setið hjá. Það gæti t.d. alveg ráðið úrslitum nú varðandi fiskveiðilandhelgina, hvort Bandaríkin og Sovétríkin fallast á hugmyndir þróunarríkjanna svo nefndu varðandi væntanlega alþjóðastjórn á hagnýtingu úthafsins, en frá sjónarmiði þeirra er það miklu stærra mál en fiskveiðilögsagan. Það eitt er nú örugglega víst í sambandi við hafréttarráðstefnuna 1973, að helztu og áhrifamestu stórveldi heims, þ.e. Bandaríkin, Sovétríkin og Japan, mann á ráðstefnunni og þá sérstaklega í lok hennar beita öllum sínum áróðursmætti, og sá máttur er mikill, til að fá 12 mílna fiskveiðilandhelgina samþykkta ásamt ófullnægjandi sérrétti fyrir strandríkin utan hennar. Það er af þessum ástæðum, sem stjórnarandstæðingar telja, að ekki sé hyggilegt að draga útfærsluna fram yfir hafréttarráðstefnuna 1973. Úrslit hennar geta ekki síður orðið okkur óhagstæð en hagstæð. Um slíkt vitum við ekki með neinni vissu fyrr en í lok ráðstefnunnar. Og þá getur verið orðið of seint að bregðast við. Ef úrslitin verða okkur hagstæð, er engu tapað, þótt við höfum fært út fiskveiðilandhelgina áður. Ef úrslitin verða óhagstæð, getur verið torvelt að færa út landhelgina eftir ráðstefnuna. Þess vegna megum við ekki bíða. Ef við færum út fiskveiðilandhelgina fyrir ráðstefnuna, mun það áreiðanlega verða til að styrkja þar stöðu okkar og annarra þeirra, sem svipað er ástatt um, og gera hinum óhægra fyrir, sem vilja gera 12 mílurnar að bindandi reglu. Við töpum engu með því að færa út fyrir ráðstefnuna, en getum tapað miklu, ef við drögum að gera það.

Stjórnarflokkarnir hampa því talsvert, að það geti leitt til árekstra við nábúa okkar, ef við færum út fiskveiðilandhelgina fyrir ráðstefnuna. Vafalaust verða árekstrarnir einhverjir, en þeir geta líka orðið alveg eins miklir eða meiri eftir ráðstefnuna. Um það verður ekkert fullyrt á þessu stigi. Ákaflega er það ósennilegt, að þetta leiði til nokkurra alvarlegra árekstra. Landhelgisdeilurnar 1952 og 1958 hafa aukið skilning á því, að Íslendingum er það meira hagsmunamál en nokkurri annarri þjóð að vernda fiskimiðin við landið. Það hefur líka sýnt sig, að ekki er hægt að buga Íslendinga með löndunarbanni eða þorskastríði. Þess vegna er ákaflega ólíklegt, að Íslendingar verði að þessu sinni beittir einhverjum hefndaraðgerðum. Fari samt svo, að það ólíklega gerist, að slíkt verði reynt, munu Íslendingar mæta því með festu og þrautseigju alveg eins og 1952 og 1958. Það eru eðlileg viðbrögð þjóðar, sem veit, að hún er ekki að gera sig seka um neinn órétt eða ofríki, heldur eingöngu að þjóna sjálfsagðasta réttinum, réttinum til að lifa. Íslendingar mega því ekki láta neitt tal um áhættu eða hefndaraðgerðir aftra sér frá því að gera það, sem nauðsynlegt er. Það er ekki til nema ein mikil áhætta í þessu máli, og hún er fólgin í því að gera ekki neitt eða vera of seinn. Við framsóknarmenn hvetjum þjóðina eindregið til að forðast þá áhættu. En fyrst og fremst hvetjum við þjóðina til þess að íhuga þetta mál rólega og æsingalaust. Þá kvíðum við ekki dómi hennar. — Góða nótt.