26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (3689)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði hér áðan, að það væri alveg skýlaust og augljóst, að íslenzk stjórnarvöld gætu mælt svo fyrir, að komið yrði upp hreinsitækjum í Straumsvík, og þá yrði að gera það. Þetta er ágæt yfirlýsing, en henni fylgir það einnig, að ef ekki verður ráðizt í framkvæmdir á þessu sviði, þá hvílir ábyrgðin algjörlega á okkur. Ef við höfum þetta vald, eins og hæstv. ráðh. segir, og notum það ekki, þá hvílir ábyrgðin á okkur og að sjálfsögðu sérstaklega á þessum hæstv. ráðh. og rn. hans, sem um þetta mál fjallar.

Hins vegar voru ekki jafnskýr svör hæstv. ráðh. við síðari fsp. minni um það, hvort hann teldi ekki, að nú væri orðið algjörlega tímabært, að slík hreinsitæki yrðu sett upp. Hann taldi nauðsynlegt að bíða eftir frekari rannsókn, sem verið væri að framkvæma og safna gögnum til. En er ekki allt þetta tal um rannsókn þessarar nefndar byggt á algjörum misskilningi? Það þarf ekki að rannsaka það í sjálfu sér, hvort mengun er frá álbræðslu. Það er óþarfi að rannsaka það, því að það er vitað, það er staðreynd, sem hefur verið kunn áratugum saman, og það er hægt að reikna og er ákaflega einfalt að reikna út, hversu mikið af mengunarefnum berst frá verksmiðjunni hverja klukkustund. Þetta vita allir. Það vita allir, hver mengunin er frá verksmiðjunni í Straumsvík. Það þarf ekki að rannsaka. Það eina, sem verið er að rannsaka, er það, hvernig þessi mengun komi fram hér á Íslandi á mismunandi stöðum. Það getur ekki verið neitt deilumál, að mengunin á sér stað. Það er aðeins verið að rannsaka, hvar hún birtist, hvernig hún birtist, hvernig hún kemur fram hérna í samanburði við það, sem hún gerir annars staðar. En mengunin sjálf er ekkert rannsóknarefni, og einmitt þess vegna er það ekki aðeins tímabært nú, heldur var það tímabært, þegar samningurinn var gerður, að mæla svo fyrir, að þarna yrðu hreinsitæki.

Það er alveg rétt, sem ég sagði í upphaflegri ræðu minni, að þetta fyrirkomulag, sem hér er haft, er algjört einsdæmi hjá álbræðslum þessa iðnfyrirtækis í Evrópu og Ameríku. Ég spurði aðalframkvæmdastjóra Alusuisse að þessu sjálfan. Ég hitti hann, þegar hann kom hingað heim einu sinni, og spurði hann um þetta, og hann sagði, að þetta væri algjört einsdæmi, þetta fyrirkomulag, sem haft er hér á Íslandi. Og þetta einsdæmi stafar ekki af því, að ekki sé mengun frá bræðslunni þarna, heldur aðeins af hinu, að menn töldu, að mengunin gerði ekkert til, vegna þess að landið umhverfis bræðsluna væri svo ómerkilegt, að það gerði ekkert til, þó að það mengaðist. Þetta er gamla nytjasjónarmiðið, að land sé ómerkilegt, ef það er ekki ræktað, og að skaðsemina sé aðeins hægt að reikna út frá efnahagslegum hagsmunum, hvort það geti spillt gróðri, hvort það geti eyðilagt fyrir landbúnaði, en ekki það sjónarmið, sem núna er sem betur fer að verða mjög ríkjandi í heiminum, að við þurfum að vernda sjálft umhverfi okkar og megum ekki þola það, að því sé spillt með óskynsamlegri iðnvæðingu. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að skilningur á þessu hefur farið mjög ört vaxandi síðustu árin og vitneskjan einnig, og einmitt þess vegna hefði ég talið það vera bæði eðlilegt og skynsamlegt af þessum hæstv. ráðh. að breyta um afstöðu, að læra af reynslunni og læra af fordæmi annarra.

Þegar um það var rætt á sínum tíma og dregið í efa, að ákvæðin í álbræðslusamningnum væru fullnægjandi, þá stafaði það ekki fyrst og fremst af orðalagi ákvæðanna, heldur af grunsemdum um það, að hið erlenda auðfyrirtæki og íslenzk stjórnarvöld vildu losna við sjálfa framkvæmdina með því að festa einhver orð á pappír. Og sú tortryggni hlýtur enn þá að vera við lýði, ef hæstv. ríkisstj. lærir ekki það af reynslunni að mæla svo fyrir nú þegar, að þessi hreinsitæki verði sett upp.

Það virtist svo sem enn væri nokkur þykkja í hæstv. ráðh. út af deilum, sem hann átti í fyrir einum fimm árum við þáv. þm. Alfreð Gíslason, því að hann var með allónotalegan tón út í ræðu, sem Alfreð hafði haldið hér á þingi, og vitnaði m.a. til þess, að einhver norskur sérfræðingur hefði sagt, að hann vissi engin dæmi þess, að tjón hefði orðið á mönnum í sambandi við álbræðslur. Ég hygg nú, að það sé hægt að benda á dæmi um þetta. En ég held, að hitt sé þó miklu stærra atriði, sem ég vék raunar að í framsöguræðu minni, að vitneskja okkar um þessi mál er allt of lítil. Það eru ekki nema örfá ár síðan læknar töldu sig hafa sannað það vísindalega, að sígarettureykingar hefðu tiltekin áhrif á mannslíkamann, og urðu að gera það með tölfræði. Öll slík áhrif á mannslíkamann eru ákaflega flókið mál, og við skulum sannarlega forðast að vera með allt of ákveðnar staðhæfingar um þá hluti. Hitt hygg ég að sé sjónarmið vísindamanna nú í mjög vaxandi mæli, að það sé einmitt mjög nauðsynlegt að forðast efnafræðileg áhrif á mannslíkamann eins og mögulegt er.

Hæstv. ráðh. vék hér að rannsóknarnefndinni, sem ég minntist á áðan, og sagði, að hún væri skipuð fjórum ágætum mönnum, tveimur tilnefndum af íslenzkum stjórnarvöldum og tveimur af hinu svissneska fyrirtæki. Vafalaust eru þetta hinir ágætustu menn, ekki hef ég neina ástæðu til þess að draga það í efa, þó að ég hafi að vísu með nokkurri undrun fylgzt með því, hvernig eini Íslendingurinn í nefndinni, Pétur Sigurjónsson, hefur í málflutningi sínum ævinlega verið með þann pólitíska tón, eins og hann væri að bera blak af hæstv. ríkisstj. og hennar ákvörðunum. Hann hefur ekki talað um þetta eins og óháður vísindamaður, heldur eins og einhvers konar maður, sem væri að verja flokk og ráðh. En ég held, að þessi tilhögun, að eftirlitsnefnd sé að hálfu leyti í höndum hins erlenda fyrirtækis og kostuð af hinu erlenda fyrirtæki, — ég held, að þessi tilhögun sé algjörlega ótæk. Slíkar eftirlitsnefndir eiga að vera algjörlega óháðar, gjörsamlega óháðar þeim aðila, sem þær rannsaka. Það er meginregla, sem ég held, að hvarvetna sé talin skynsamleg núna, og ég veit, að víða um lönd hafa menn einmitt verið að breyta slíku fyrirkomulagi, vegna þess að sá aðili, sem á hagsmuna að gæta, hann getur haft tök á að hafa áhrif á slíkar nefndir.

Hæstv. ráðh. fannst það annarlegt, að ég skyldi bera fram till. um það, að þessari till. yrði vísað til hv. menntmn., og brosti við. Ég held, að hann hafi sagt, að þetta væri barnalegt, hún ætti frekar heima í iðnn. Nú er það að vísu ekki á meðal stórmála, til hvaða nefndar slík till. fer. Samt vil ég benda hæstv. ráðh. á það, að hér er í sjálfu sér um að ræða grundvallarviðhorf. Um mál, sem fara til iðnn., er fjalluð frá sjónarmiði iðnaðarins. Það er verkefni þeirrar n. að kanna stöðu iðnfyrirtækja og hvað hægt sé að gera á því sviði út frá sjónarmiði iðnaðarins. En hér er ekki um að ræða hagsmuni þessa erlenda fyrirtækis eða viðfangsefni þess, heldur viðhorf fólksins í landinu og fólksins, sem býr í kringum þessa álbræðslu. Það hefur tíðkazt hér í þinginu, að menntmn. hefur farið með málefni eins og náttúruvernd og mengun, og mér finnst, án þess að ég vilji fara að gera það að einhverju úrslitaatriði, þá finnst mér það mjög eðlilegt, að út frá þessu sjónarmiði fjalli menntmn. um þetta mál. Í því sambandi er einmitt þetta ákaflega mikilvægt, að skilja þessi viðfangsefni frá atvinnutækjunum sjálfum og meta hlutina út frá hagsmunum almennings, en ekki út frá hagsmunum fyrirtækjanna.

Það má vel vera rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það sé ekki stór upphæð, sem það kosti að setja þarna upp hreinsitæki og starfrækja þau. Engu að síður þá vitnaði ég hér í upphafi í ummæli Steingríms Hermannssonar, sem hélt því fram, að þetta hefði ráðið úrslitum um staðsetningu verksmiðjunnar. Hún hefði orðið dýrari sem nemur hreinsitækjunum, ef hún hefði verið byggð í Eyjafirði, og þá hefði ríkisstj. ekki getað náð sömu samningum um raforkuverð og hún náði. Hún hefði orðið að sætta sig við lægra verð. Þetta er vitnisburður Steingríms Hermannssonar, sem tók þátt í þessum viðræðum og á að vita full deili á þeim. Ég skil nú varla, að hann hafi farið að spinna þessi viðhorf upp úr sjálfum sér.