16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3703)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Haraldur Henrýsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þáltill. sú, sem hér er til umr., fjallar um takmarkað og að ýmsu leyti sérfræðilegt svið, og má því segja, að mál þetta eitt sér sé ekki vel til þess fallið að vekja almennan áhuga til hlustunar á útvarp. Hins vegar hlýtur þetta efni að leiða til almennra umræðna og hugleiðinga um þau vandamál mengunar og umhverfis- eða náttúruverndar, sem knýja mjög á dyr þjóðfélags nútímans. Um þessi efni hefur verið allmikið rætt og ritað í fjölmiðlum að undanförnu og vísindamenn gert grein fyrir hinum ýmsu hliðum vandans. Alþingis hlýtur hins vegar að bíða það verkefni í náinni framtíð að setja heildarlöggjöf um varnir gegn mengun, svo sem gert hefur verið víða, t.d. á Norðurlöndum, og mun löggjöf Svía um þessi efni vera einna fullkomnust.

Till., sem er tilefni þessara umr., fjallar um, að ríkisstj. mæli svo fyrir, að tafarlaust verði komið upp fullkomnum hreinsitækjum í álbræðslunni við Straumsvík til þess að takmarka mengun svo sem kostur er. Þetta mál um öryggisútbúnað í álverksmiðjunni til hindrunar mengun kom strax upp, áður en álverksmiðjan var byggð. Eins og samningsdrög lágu fyrir í fyrstu, var gert ráð fyrir, að frágangur verksmiðjunnar yrði slíkur, að ekki væri unnt að setja öryggisútbúnað síðar, sem hindraði mengun andrúmslofts. Á þetta var bent og þess krafizt, að þegar við byggingu verksmiðjunnar yrðu sett upp hreinsitæki. Það fékkst ekki fram, en hins vegar var sett svo hljóðandi ákvæði í álsamninginn:

„ISAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“

Öll saga þessa máls ætti að vera okkur lærdómsrík og til varnaðar. Af henni sjáum við glögglega, hvaða sjónarmið ráða hjá hinu erlenda auðfélagi, að komast sem ódýrast frá málinu og fallast ekki á neitt fyrr en samningsaðilinn knýr á. Þetta sýnir okkur, hve vel við verðum að halda vöku okkar, því að hér er um það að ræða að verja landið gegn drepandi og eyðandi áhrifum. Við getum ekki léð land til iðn- eða atvinnurekstrar, hvorki erlendum né innlendum aðilum, á þann hátt, að þeir geti hirt afrakstur, sem skiptir milljörðum, en við og næstu kynslóðir sitjum uppi með sviðið land.

Þegar álsamningurinn var til umr. hér á hv. Alþ. á árinu 1966, var það Alfreð Gíslason læknir, þm. Reykv., sem hélt uppi sókn fyrir því, að nauðsynlegur öryggisútbúnaður yrði settur upp í álverksmiðjunni í Straumsvík. Hann sagði þá m.a. í ræðu um þetta mál í almennum stjórnmálaumr. hinn 3. maí 1966, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt mikið hafi verið rætt um álmverksmiðju í Straumsvík að undanförnu, bæði innan þings og utan, hefur þó einni staðreynd málsins lítt verið haldið á lofti, en hún er sú, að álmverksmiðjur reynast öllu lífi umhverfis síns hinn mesti vágestur. Þetta er mikilsvert atriði í heilbrigðislegu tilliti og hvarvetna vandamál, sem leitazt er við að leysa eftir mætti. Hér virðist það hins vegar að mestu sniðgengið og látið eins og ekkert sé. Á þessa hlið málsins benti ég í umr. í hv. Ed., en ekki var sú ábending látin tefja afgreiðslu þess um svo mikið sem eina mínútu, og játaði þó hæstv. iðnmrh., að upplýsingar mínar kæmu honum á óvart. Mér þykir rétt, þótt seint sé, að kynna landsmönnum lítillega, hvað hér er um að ræða. Alþ. benti ég á það í tæka tíð. Frá öllum álmverksmiðjum berast eiturefni út í umhverfið, aðeins misjafnlega mikið eftir því, hvernig um hnútana er búið. Hættulegust þessara efna eru flúorsamböndin, einkum flúorvetni, enda eru þau talin með sterkustu eiturefnum, sem til eru. Ef maður neytir 5–10 gramma af flúorsalti, er honum dauðinn vis innan fárra klukkustunda. Ef flúorvetni í andrúmsloftinu nær 100 mg í einum rúmmetra, þolir það enginn maður í heila mínútu. Sé magnið fjórum sinnum minna eða 25 mg, má þola það örstutta stund. Flúorinn ertir og særir húð og slímhúðir, og af því leiðir einkenni hinnar bráðu eitrunar, svo sem húðsár, hósta, andarteppu og verki í kviðarholi. Á vægu stigi kemur sú eitrun fyrir í sambandi við rekstur álmverksmiðju. Hitt er þó algengara, að þar sé hættan meiri á hægfara eitrun. Þá verður sérkennileg breyting á beinum líkamans, þau verða að útliti eins og mölétin, út úr þeim vaxa beinaukar hér og þar, en óþægindin verða verkir og stirðleiki í líkamanum. Þessari hægfara eitrun á háu stigi verður hver sá maður örugglega fyrir, sem fær 20–30 mg af flúor daglega í mörg ár. Það er atvinnusjúkdómur, sem starfsmenn álmverksmiðja fá, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar þeim til verndar. Svipað gildir um fólk, sem lengi býr í nágrenni þessara verksmiðja. Það verður fyrir óhollum áhrifum flúorsins, ef varúðar er ekki gætt.

Eiturefnin frá álmverksmiðjunum eru ekki aðeins varasöm mannlegri heilsu, þau eru einnig skaðleg dýrum og jurtagróðri. Ég sá nýlega ritgerð eftir norskan prófessor. Greinin, sem ber yfirskriftina „Álmverksmiðjur og skógur“, hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Blöðin segja öðru hverju frá tjóni, sem orðið hefur á skógi, graslendi og húsdýrum umhverfis nokkrar af álmverksmiðjum okkar. Tjónið hefur stundum verið mjög mikið og hvað skógana snertir jafnvel hrein eyðilegging.“

Þannig farast þessum fræðimanni orð, og síðar ræðir hann nánar eyðilegginguna á trjágróðrinum. Þótt blöð í Noregi segi frá slíku tjóni þar, er ekki haft hátt um það hér á landi. Graslendið í nágrenni álmverksmiðja eitrast einnig af flúor, og sauðfé, geitur og nautpeningur, sem á þeim gróðri nærist, veikist oft alvarlega og fellur. Þannig er þetta bæði í Evrópu og í Ameríku. Það fer því ekki á milli mála, að úrgangsefnin frá álmverksmiðjum eru hættuleg mönnum, dýrum og jurtagróðri. Erlendis er lögð áherzla á að draga sem mest úr þessari hættu, en hvað skal gert í því efni hér á landi? Mér skilst, að það sé harla lítið. — Í Straumsvík á engan útbúnað að hafa til þess að hefta reyk og eyða ólofti. Slíkur öryggisútbúnaður er þó alls staðar talinn sjálfsagður, einnig þar sem hentugust gerð bræðsluofna er notuð. Hvers vegna skulu þessar varnir vanræktar á Íslandi? Er það ekki fyrst og fremst til að spara hinu erlenda fyrirtæki kostnað? Reykvarnar- og eyðingartækin eru mjög dýr. Sú afsökun, sem höfð er á takteinum, er, að hér þurfi ekki öryggisráðstafana við, landslag og veðurfar sjái um dreifingu og eyðingu eiturefnanna. Hvort þetta reynist rétt, veit enginn nú, og það er vítavert gáleysi að haga ekki vörnum svo sem gert er í öðrum siðmenntuðum löndum.“

Þetta sagði Alfreð Gíslason á árinu 1966. Ári síðar vakti Alfreð enn máls á þessu atriði og sagði þá í ræðu hinn 8. febr. 1967 m.a.:

„Það þykir alls staðar sjálfsagt nú að hafa reykeyðingartæki, hver svo sem tegund keranna er, og mörg fyrirtæki leggja sig mjög fram um að fullkomna þessi tæki sem mest. En þessi útbúnaður er dýr, og sennilega er það þess vegna, sem teflt skal á tæpasta vaðið í Straumsvík. Þar mun ætlunin að bíða átekta, sannreyna tjónið, áður en hafizt er handa. Það tel ég illa ráðstöfun og raunar þarflausa, því að við höfum næga erlenda reynslu að styðjast við. Í þessu efni tel ég aldrei of varlega farið. Ég minni á Húsnesmálið, sem blöðin sögðu frá á s.l. hausti. Á þeim stað í Noregi, Húsnesi, hafði einmitt auðhringurinn Swiss Aluminium reist alúmínverksmiðju og lýst því yfir, að frá henni stafaði engin hætta. Þar eru hreinsunartæki, en samt eitraðist umhverfið, og varð mikið tjón á gróðri í allt að 10 km fjarlægð frá verksmiðjunni. Þetta virtist koma öllum á óvart þar.“

Af þessum tilvitnuðu ummælum Alfreðs Gíslasonar læknis hér á Alþ. má því segja og sjá, að komið hafi fram öflug aðvörun um hættu af rekstri álverksmiðju.

Á nýafstaðinni ráðstefnu Landverndar og fleiri aðila, sem haldin var dagana 27. og 28. febr. s.l., flutti Hörður Þormar efnafræðingur erindi um mengun andrúmslofts, og þykir mér rétt að vitna aðeins í ummæli hans um flúorsambönd í andrúmslofti og áhrif þeirra. Hann segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. norskum heimildum er almennt áætlað, að um það bil 20 kg af flúor fari út í umhverfið í gaskenndu ástandi fyrir hvert tonn af áli, sem framleitt er, enda sé þá vinnsla verksmiðjunnar með eðlilegum hætti. Samkv. upplýsingum frá Swiss Aluminium Ltd. er hins vegar gert ráð fyrir, að þetta flúortap komist allt niður í 12 kg á hvert tonn. Þess ber að geta í þessu sambandi, að flúortapið er mjög háð gerð rafgreiningarkeranna og öðrum gangi vinnslunnar. Auk flúorgasanna, sem lengst berast og mest mengunarhætta stafar af, getur ryk, sem inniheldur flúor, t.d. álflúorýð og krýolít, einnig borizt til næsta nágrennis álverksmiðjanna, en af því stafar þó minni hætta. Aðalmengunarhættan stafar þó af flúorvatnsefninu, sem getur borizt alllangt frá verksmiðjunni við viss veðurskilyrði.“

Síðar segir: „Flúorvatnsefni er mjög eitrað öllu gróðurlífi, jafnvel þótt það sé í mjög mikilli þynningu. Álitið er, að mengun allt niður í 0.02 p.p.m. geti í sumum tilfellum valdið skaða. Einkum er sígrænn gróður viðkvæmur. Þessi viðkvæmni plöntunnar stafar af því, að hún losnar ekki við þann flúor, sem kemst inn í hana, heldur safnast hann þar fyrir. Flúorvatnsefnið fer aðallega inn í blöðin við öndunina, síðan berst það með æðunum út í jaðra þeirra og sezt þar að. Þar koma því fyrstu eitureinkennin í ljós á þann hátt, að frumurnar þorna upp og blaðjaðarinn fær á sig gulan eða dökkbrúnan lit, eins og hann hafi kolazt. Venjulega eru mjög skörp skil á milli heilbrigða og skemmda hluta blaðsins, en með auknum eiturverkunum breiðist skemmdin æ lengra inn á blaðið, unz hún þekur það allt. Á grösum og barrtrjám kemur skemmdin fyrst fram fremst á oddinum. Oft brotnar skemmdi hlutinn af, og lítur þá blaðið stundum út fyrir að vera bitið.“

Síðar segir: „Það er mjög hæpið, að flúormenpun í lofti úti á víðavangi geti orðið það mikil, að dýrum stafi hætta af að anda því að sér. Hins vegar stafar dýrum óbein hætta af henni, því að eins og fyrr er getið, safnar grasið í sig flúor úr loftinu, og getur magn þess orðið margfalt á við það, sem eðlilegt er. Ef slíkt gras er notað sem skepnufóður, getur það valdið flúoreitrunum í skepnum þeim, sem á því lifa. Þar við bætist, að nærri álverksmiðjum er oft flúormengað ryk á sveimi, sem sezt á gróður, er skepnur síðan éta. Þess ber þó að geta, að flúorsölt eru mjög misjafnlega hættuleg dýrum.“

Og enn síðar segir: „Jórturdýr, t.d. nautgripir og sauðfé, eru mjög viðkvæm fyrir flúoreitrunum, og er talið, að þau þoli að meðaltali aðeins 2–3 mg af flúor á hvert kg líkamsþunga á dag. Hestar og svín þola mun meira magn, og enn fremur þola fuglar tiltölulega vel flúorríkt fóður. Mjólkurkýr eru sérstaklega viðkvæmar fyrir flúoreitrun á fóðri, og verða þær oft fyrir bráðum eiturverkunum. Þær leggja þá snögglega af, hætta að mjólka og bera merki um stirðleika í hnjám. Sé eitrunin mikil, lamast þær á framfótum og geta ekki staðið. Virðast allar hreyfingar þeirra vera mjög sársaukafullar. Ef skepnurnar eru settar á fóður, sem er laust við flúormengun, ná þær aftur bata smám saman. Einkennin koma þó fljótlega aftur í ljós, ef þær fá flúormengað fóður á ný.“

Að undanförnu hafa þessi mál verið allmikið til umræðu. Upphaf að þeirri umr. átti Ingólfur Davíðsson grasafræðingur, sem kynnti niðurstöður af athugunum sínum á gróðri í nágrenni álverksmiðjunnar. Taldi hann gróðurinn sýna merki hrörnunar og taldi álverksmiðjuna vera orsökina. Áframhald á umr. um þetta hefur leitt í ljós skoðanaágreining um málið meðal vísindamanna, og m.a. hefur komið fram nál. frá svo kallaðri flúornefnd, sem skipuð er fulltrúum Íslendinga annars vegar og álverksmiðjunnar hins vegar, sem fullyrðir, að verksmiðjan sé með öllu skaðlaus. Enda þótt ekkert verði fullyrt hér, hvað rétt sé eða rangt í þessum efnum, enda ekki á mínu færi, þá verð ég að segja, að viðbrögð ábyrgra aðila og yfirvalda hafi ekki verið á þann veg, að þau sýndu vilja til að finna skjótlega hið sanna. Ég tel, að við getum ekki, eftir að fullyrðingar Ingólfs Davíðssonar grasafræðings liggja fyrir, unað rólegir við niðurstöður flúornefndarinnar, sem er launuð nefnd af hálfu álverksmiðjunnar, enda er nefndin ekki skipuð neinum líffræðingi eða vísindamanni, sem sagt geti til um áhrif flúormengunar á íslenzkan gróður.

Af öllu, sem ég hef lesið og heyrt um þessi mál, virðist mér sem flúoreitrunarhætta sé jafnan veruleg frá álverksmiðjum sem þessari, og hefur reynslan ótvírætt sýnt það, t.d. í Noregi. Ég tel því ekkert áhorfsmál, að við eigum að gera kröfu um þær varúðarráðstafanir, sem hindra þessa mengun. Við hljótum ætíð að krefjast ítrustu varfærni í þessum málum, og við eigum frekar að gera kröfur um of en van. Á þetta verður að líta sem hvert annað slysavarnamál, en bezta slysavörnin er ætíð sú að byrgja brunninn, áður en barnið dettur í hann. Hins vegar verður að leggja áherzlu á, að þær hreinsunaraðgerðir, sem gripið verður til í þeim tilgangi að hindra mengun andrúmsloftsins frá álverksmiðjunni, verði ekki framkvæmdar á þann hátt, að til hættu horfi á öðrum sviðum, t.d. fyrir hafið með því að veita eiturefnunum þangað.

Með hverjum degi sem líður verður mönnum ljósari sú hætta og þeir agnúar, sem stafa af tillitslausri fjárfestingu í verksmiðjum og iðjuverum fyrir loft, láð og lög. Til tiltölulega skamms tíma voru þessir agnúar lítt viðurkenndir. En nakinn veruleikinn hefur vakið menn til umhugsunar um þessi má1. Víða um lönd er ástandið orðið svo ískyggilegt, að til vandræða horfir eftir skamman tíma, verði ekkert að gert. Innanríkisráðherra Vestur-Þýzkalands lét eigi fyrir löngu eftirfarandi orð falla: „Verði ekki brugðið skjótt við, verða barnabörn mín að setja upp gasgrímur, þegar þau fara út að leika sér.“

Enda þótt við Íslendingar séum vel á vegi staddir í þessum efnum miðað við ýmsar aðrar þjóðir, er sannarlega full þörf á því, að við tökum til hendi. Menn hafa komizt að því, að það er ekki ætíð endanleg lausn við losun úrgangsefna að láta stromp púa reyk út í loftið, rör flytja skolp rétt út í sjó eða grafa úrgang í jörð, svo að eitthvað sé nefnt. Afleiðingar slíkra ráðstafana koma fram síðar, misjafnlega fljótt, og geta orðið banvænar eða til mikils skaða því lífi, sem fyrir verður. Uppbygging atvinnulífs okkar er svo skammt á veg komin, að við höfum tækifæri til að byrgja brunninn strax, að sjá svo um, að þau vandamál, sem aðrar þjóðir glíma nú við og kosta til gífurlegu fjármagni, þurfi aldrei að koma upp hér. Eigi að síður er þegar fyrir hendi atvinnurekstur, sem er varasamur að ýmsu leyti, og við hljótum hið fyrsta að gera ráðstafanir til að draga úr skaðsemi hans fyrir umhverfi sitt. Við bæjardyr Reykvíkinga hefur t.d. áburðarverksmiðjan í Gufunesi blásið eiturgufum svo að nemur hundruðum tonna á ári í nálega tvo áratugi, án þess að neitt sé að gert. Er full ástæða til að rannsaka þegar áhrif þeirra efna, er þaðan koma. Á Akranesi dreifir sementsverksmiðjan sementsryki yfir umhverfi sitt og mun tæplega teljast hollt. Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn mun og hafa áhrif til hins verra á ýmsan hátt í sínu umhverfi. Þá má nefna síldar- og fiskimjölsverksmiðjur um allt land, sem menga andrúmsloftið umhverfi sínu mjög til ama, enda þótt slík mengun frá lífrænni framleiðslu muni vera stórum hættuminni en eiturefni frá gerviefnaframleiðslu. Brennsla olíu og benzíns veldur og mengun andrúmslofts, einkum í þéttbýli, þar sem bifreiðanotkun er mest. Þá má einnig nefna þá mengun, sem verður af þeirri rykmyndun, sem jafnan er á malarvegum okkar og við uppblástur lands.

En enda þótt þannig megi telja upp mörg dæmi um mengun andrúmslofts, sem við verðum að vinna bug á, þá er sú mengunarhætta, sem steðjar að hafinu umhverfis landið, enn geigvænlegri og válegri. Á síðari árum mun það mjög hafa færzt í vöxt, að iðnaðarþjóðir meginlands Evrópu og jafnvel Ameríku sendi skip með hundruð eða jafnvel þúsundir tonna af úrgangsefnum til norðurhafa og sökkvi þeim þar. Þvílík skammsýni og þröngsýni að gera eitt mesta matarforðabúr heimsins þannig að ruslakistu! Slíku athæfi hljótum við að mótmæla kröftuglega, og við verðum að beita okkur af alefli fyrir því á alþjóðavettvangi, að algert bann verði sett við slíku. Hér eru ekki einungis lífshagsmunir okkar og granna okkar í veði, heldur má segja, að allur heimurinn eigi ríkra hagsmuna að gæta hér, þar sem um er að ræða eitt drýgsta forðabúr mannkyns til matar, og ekki mun af veita fyrir komandi kynslóðir.

Þetta mál er nátengt einu okkar brýnasta lífshagsmunamáli, landhelgismálinu. Við verðum að helga okkur hafsvæði langt út fyrir þá landhelgi, sem nú gildir, til varnar gegn mengun. Sókn að þessu verður að hefjast nú þegar. Það er hins vegar átakanlegt, hve ríkisstj. okkar er nú úrræða- og athafnalaus á þessu sviði. En það er vegna þeirrar fáránlegu og stórhættulegu samningagerðar við Breta og Vestur-Þjóðverja, sem hún stóð að á árunum 1961 og 1962 og torveldar stórlega sókn okkar að settum markmiðum í landhelgismálum. Næsta og brýnasta verkefni okkar er að upphefja áhrif þeirra samninga og hefjast síðati ótrauðir handa. Þingflokkur Samtaka frjálslyndra og vinstri manna hefur ásamt Karli Guðjónssyni lagt fram í landhelgisnefnd A1þ. till. um stefnu Alþ. í landhelgismálum, sem ég vil leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir, að það telur höfuðskyldu hverrar íslenzkrar ríkisstj. að fylgja fast fram til sigurs þeirri meginstefnu í landhelgismálum Íslendinga, að Íslendingum beri réttur til yfirráða og lögsögu yfir landgrunni Íslands öllu, sbr. 5. tölul. hér á eftir, jafnt að því er tekur til hafsbotnsins og mögulegrar nýtingar hans og sjávarins yfir landgrunninu og lífvera hans og nýtingar þeirra með fiskveiðum. Alþ. telur, að reynsla undanfarinna áratuga hafi ótvírætt sýnt, eigi aðeins Íslendingum, heldur öllum öðrum þjóðum, sem hlut eiga að máli, að fiskstofnarnir á Íslandsmiðum hafa verið í yfirvofandi hættu og allar aðgerðir Íslendinga til einhliða útfærslu íslenzkrar fiskveiðilögsögu hafa átt fyllsta rétt á sér. Alþ. telur það nú vísindalega sannað, að vegna stóraukinnar tækni við fiskveiðar og stóraukinnar sóknar erlendra skipa á fiskimiðin við Ísland utan núverandi 12 mílna marka sé fiskstofnunum við Ísland stefnt í meiri háska en nokkurn tíma áður, sem beinlínis geti leitt til eyðileggingar þeirra vegna ofveiði, og því sé það ekki aðeins mesta lífshagsmunamál íslenzkrar þjóðar, heldur einnig hagsmunamál alls mannkyns, að nýjar reglur verði settar til verndar þeim, sem og öðrum helztu fiskveiðisvæðum heimsins. Það telur, að þessu aðkallandi markmiði verði bezt náð með því, að viðurkenndur verði á alþjóðavettvangi réttur strandríkja, sem eiga lífsafkomu sína að meira eða minna leyti undir nýtingu fiskimiða, til þess að setja reglur um nýtingu þeirra og til aðgerða samkv. þeim, eins og Íslendingar hafa gert og telja sig hafa fyllsta rétt til. Alþ. telur, að eins og nú er komið og horfur benda til um háskalega ofveiði á Íslandsmiðum, geti Íslendingar ekki beðið með aðgerðir í landhelgismálinu eftir niðurstöðum væntanlegrar alþjóðaráðstefnu um réttarreglur á hafinu, sem ákveðin er á árinu 1973, en hins vegar beri nauðsyn til að marka nú þegar stefnu þjóðarinnar á þeirri ráðstefnu í störfum að undirbúningi hennar. Þess vegna ályktar Alþingi:

1. Að fela ríkisstj. að tilkynna nú þegar stjórnum þeirra ríkja, sem sérstakt samkomulag varðandi landhelgismál var gert við á árunum 1961 og 1962, að íslenzka ríkisstj. telji sig nú, m.a. vegna gerbreyttra aðstæðna, ekki lengur bundna af því samkomulagi.

2. Að gera ráðstafanir til og þá m.a. fela fulltrúum sínum á alþjóðavettvangi að vinna að því, að sem nánust samvinna og samstaða takist milli Íslands og þeirra fjölmörgu ríkja heims, sem svipaðra hagsmuna eiga að gæta og Íslendingar, um rétt strandríkja til yfirráða og lögsögu yfir landgrunni sínu og nýtingu þess og sjávarins yfir því, eigi sízt til fiskveiða.

3. Að taka undir og styðja þær skoðanir og kröfur, sem fram hafa komið um, að bezta framtíðarlausn fiskverndunarvandamálsins sé að færa út fiskveiðilögsögu strandríkja til marka landgrunnsins eða til 200 sjómílna fjarlægðarmarka eftir því, hvor leiðin gengur lengra.

4. Að fela fulltrúum sínum að halda fast við þá till., sem íslenzka sendinefndin bar fram á fundi landgrunns- og hafsbotnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í marz 1970, að mörk landgrunnsins yrðu ákveðin 150–200 sjómílur út frá ströndum, og halda fram og styðja ýtrustu kröfur um rétt strandríkja til ráðstafana gegn mengun sjávar.

5. Að hefja nú þegar undirbúning að útfærslu fiskveiðilögsögunnar, t.d. í 50 sjómílur sem fyrsta skrefi, þannig að hún komi til framkvæmda sem fyrst, a.m.k. eigi síðar en áður en alþjóðaráðstefnan um réttarreglur á hafinu kemur saman.“

Við Íslendingar eigum mikil náttúruauðæfi, sem enn hafa ekki verið nýtt. Þau birtast aðallega í formi vatnsorku og jarðhita. innan við 6% af nýtanlegri vatnsorku landsins hefur verið nýtt. Auðvitað hljótum við að stefna að því, að þessar orkulindir okkar verði nýttar, enda er það nauðsynlegt til frambúðar búsetu í landinu við lífvænleg skilyrði. En þetta verðum við að gera á þann hátt, að ekki brjóti í bága við eðlilega og nauðsynlega umhverfisvernd. Tilgangur og markmið umhverfis- eða náttúruverndar er að vernda umhverfi mannsins gegn spillandi og eyðandi áhrifum við nýtingu landsins og við þau ígrip í náttúruna, sem þessi nýting hefur óhjákvæmilega í för með sér. Það er misskilningur, að umhverfis- eða náttúruvernd sé andstaða við nýtingu landgæða. Hún á þvert á móti að tryggja það, að nýtingin fari þannig fram, að hún tákni sókn þjóðarinnar til betra og fegurra lífs í landinu. Við ákvörðun um og skipulagningu á þeim mannvirkjum, sem nauðsynleg eru, verðum við að samræma sjónarmið hagfræðinnar, verkfræðinnar og umhverfisverndarinnar. Verði það gert á skynsamlegan hátt, mun nýting landsins tákna sókn. Því miður verður vart annað sagt en við séum í vörn enn að þessu leyti. Eða hafa menn hugleitt, að frá því að menn tóku sér bólfestu hér á landi á landnámstíð, hefur helmingur gróðurlendis tapazt og þriðjungur landsins orðið örfoka? Sá gróður, sem við búum nú við, er að sögn náttúrufræðinga ekki í samræmi við legu landsins og þau skilyrði, sem loftslag býður upp á. Hann er afleiðing af gróðureyðingu og skemmdum, sem má rekja til þess, að of nærri gróðrinum hefur verið gengið. Og svo er enn. Við erum enn í vörn. Þannig höfum við í 11 aldir gengið bæði á forða lands og sjávar án þess að bæta fyrir. Það þykir ekki góður búskapur. Sé það ætlan okkar að búa áfram í þessu landi, hljótum við nú í krafti þekkingar okkar og tækni að snúa vörn upp í sókn, skila aftur því, sem tekið hefur verið, og nýta auðæfi landsins að hætti skynsams bónda. Fyrri kynslóðir hafa þá afsökun, að þeim gátu ekki verið þau sannindi, sem nú blasa við, með öllu ljós. Þá afsökun höfum við ekki, og því mun okkar sök þeim mun meiri, ef við höfumst ekkert að.