16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3705)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég er eindreginn stuðningsmaður þeirrar þáltill., sem hér er til umr., og tel, að fela beri ríkisstj. að nota þegar í stað tvímælalausan rétt sinn til þess að láta setja hreinsunartæki á álverksmiðjuna við Straumsvík. Hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, var rétt í þessu að færa fram að mínu viti óyggjandi rök fyrir sams konar afstöðu, og þarf ég því ekki að endurtaka neitt af því. En ég ætla að reyna að draga það fram, að mengunarmálið í Straumi er stórmál, ekki aðeins vegna þess, hve mikið er þar í húfi, heldur einnig af því, að þetta mál er grein af einum þýðingarmesta málaflokki í nútímaþjóðfélagi, sem við getum kallað umhverfismál, a.m.k. þangað til betra nafn kynni að finnast.

Stórfelld iðnvæðing nútímans, þéttbýlið í borgunum og öll hin gífurlega mergð úrgangsefna, sem flæða frá þeim tiltölulega litla hluta mannkynsins, sem lifir í allsnægtum, hefur skapað gífurlega hættu, sem ógnar heilbrigðu lífi. Þetta gengur svo langt, að skoða verður mörg grundvallaratriði í nýju ljósi, og til þess að átta sig á þeim viðfangsefnum, sem við eigum fyrir höndum að glíma við, er nauðsynlegt að festa sér í minni nokkur höfuðatriði þessara nýju viðhorfa.

Þýðingarmest af öllu er að gera sér grein fyrir því, að það eru að verða sífellt eftirsóttari lífsgæði að eiga heima í ómenguðu, eðlilegu umhverfi og hafa auðveldan og frjálsan aðgang að útivist á óspilltu, fjölbreytilegu landi. Eftir því sem mengun og önnur vandkvæði þéttbýlislandanna þrengja meira að, verður það þýðingarmeiri þáttur í viðhorfi manna, í hvaða umhverfi þeir eiga kost á að lifa. Þetta þýðir, að þau lönd, sem vel eru sett í þessu tilliti, hafa að öðru jöfnu betri lífskjör að bjóða en önnur. Lífskjör mótast sem sé ekki einungis af fæði, klæði og húsnæði og þátttöku í því, sem menn oft eiga við, þegar þeir tala um menningarlíf, heldur einnig af því, hvort menn eiga kost á því eða ekki að lifa í eðlilegu og viðkunnanlegu umhverfi. Hér er því um landkosti að ræða á borð við aðra þýðingarmestu þætti, og þetta er í fyllsta máta hagnýtt sjónarmið, samhliða því menningarlega, sem í því felst að leggja rækt við land sitt og nágrenni.

Menn verða því að gera sér grein fyrir því, að hreinlegt, óspillt og aðlaðandi umhverfi, sem almenningur hefur aðgang að, er landkostir eins og gott búland, góð fiskimið, fallvötn, jarðhiti og önnur náttúrugæði. En þessi skilningur verður að koma til og setja sitt mót á þjóðarbúskapinn, áður en það er of seint, verður að koma til við upphaf stóriðju á Íslandi t.d., og það þýðir, að alveg nýtt verðmætamat hlýtur að koma til framkvæmda, ef vel á að fara.

Séum við sammála um, að það sé raunverulega mikils virði að lifa í ómenguðu, viðkunnanlegu umhverfi, þá verðum við að vera reiðubúin að láta gera þær ráðstafanir, sem til þess þarf, að svo megi verða, og kosta því til, sem nauðsyn krefur. En sé hik á okkur að viðurkenna þessi grundvallaratriði, þá mætti reyna að mála þetta sterkari litum og spyrja: Hvers virði eru langar og breiðar stofur, mikilfengleg húsgögn og dýrir bílar, ef loftið er mengað, umhverfið löðrandi af óþverra, gróðurlaust og dautt, og vatn og sjór blandað eitri og óhreinindum? Þegar svo er komið, yrði fánýtt að vaða í peningum.

Þetta verða menn að horfast í augu við öfga- og æðrulaust. Menn verða að gera sér grein fyrir þessum nýstárlegu viðhorfum og takast á við hin nýju viðfangsefni skynsamlega og með fullri festu. Auðvitað verða einhver átök, því að sumir vilja ekki kosta því til, sem þarf, vilja græða meira í skammsýni sinni, þótt því fylgi meira tap fyrir samfélagið en gróðanum nemur.

Allt getur þetta þó farið vel, ef þessi mál eru skoðuð nógu vel niður í rótina og almenningur lætur sig þau nógu miklu varða. Á því veltur í rauninni allt, þegar til lengdar lætur. Almenningsálitið knýr stjórnmálamennina til þess að sinna þessum málum og taka skynsamlega stefnu, sé því fylgt nógu fast eftir, annars ekki.

Forfeður okkar spilltu landinu. Ekki skulum við álasa þeim fyrir það, því að oftast var um lífið að tefla. Við verðum að játa, að við höfum einnig í mörgu tilliti spillt landinu. Við höfum okkar afsakanir kannski. En við höfum aftur á móti engar gildar afsakanir, ef við látum landið halda áfram að spillast, eins og nú er komið, því að við eigum að geta haft ótal ráð til þess að lifa góðu lífi, án þess að slíkt komi til greina.

Við erum ekki í neinni þeirri neyð stödd með bjargræðisvegi, að við þurfum að láta koma hér upp atvinnufyrirtækjum, sem eyðileggja umhverfi sitt eða valda mengun til stórlýta og stórtjóns. Með skynsamlegum ráðstöfunum og heppilegum ráðum í tíma teknum er enda tvímælalaust oftast hægt að samræma iðnrekstur og orkunýtingu og óspjallað umhverfi. En sé slíkt með öllu ókleift í einstökum dæmum, verðum við að vera án þess iðnrekstrar, sem þannig er vaxinn, að hann gerir meira tjón en gagn, þegar rétt er á litið og réttu verðmætamati beitt.

Okkur skortir ekki verkefni og góða afkomumöguleika, sem samrýmast því að bæta landið og halda hreinleika lofts og lagar, en einmitt þeir þættir verða einhverjir traustustu þættir í þjóðarauðnum, ef vel er á haldið. Það má því kosta miklu til og engin mistök mega eiga sér stað, því að þau verða dýru verði að gjaldast af komandi kynslóðum. Okkur, sem nú lifum, verður aldrei fyrirgefið, ef við bregðumst þeim í þessu fyrir blindu á þau einföldu grundvallarsannindi, sem rétt verðmætamat hlýtur að byggjast á.

Ástandið í þessum málum hér er að mínum dómi talsvert alvarlegra en flestir telja, og vottar lítt eða ekki fyrir nýjum átökum enn á framkvæmdastigi þessara mála. Almenningsálitið er hins vegar að myndast og styrkjast, og feiknavinna er í það lögð af áhugafólki að vekja athygli á þessum málum og skapa nýtt viðhorf og gera skynsamlegar till. En hér þarf að verða gífurleg breyting á framkvæmdastiginu, ef vel á að fara.

Sjórinn mengast óðfluga við þéttbýlissvæðin, enda höfum við rækilega lifað eftir þessu gamla máltæki: „Lengi tekur sjórinn við“, sem engan veginn stenzt lengur. Öllum fljótandi úrgangi er brotalaust veitt í sjóinn, og sums staðar fer sorpið sömu leið að meira eða minna leyti. Það mun ekki til á landinu ein einasta stöð til þess að eyða fljótandi úrgangi. Mengunin í sjónum hér við sunnanverðan Faxaflóa er orðin slík, að eina útibaðstaðnum varð að loka. Víða við þéttbýlið eru fjörurnar löðrandi af óþverra, svo að þar er helzt ekki komandi lengur. Samt eru þó fjörurnar oft eins konar umgjörð um byggðarlögin sjálf. Úrgangsleiðslur enda uppi á landi, þótt reglugerðir segi, að þær eigi að ganga langt út í sjó. Skylt er að geta þess, að byrjað er hér á höfuðborgarsvæðinu að athuga strauma og annað ástand sjávarins við strendurnar, sem auðvitað er alger undirstaða þess, að menn hafi hugmynd um, hvað þeir eru raunverulega að gera.

Á sjálfu náttúruverndarárinu í fyrra voru afgreidd hér á hv. Alþ. fjárlög, sem nema á 12. milljarð, en til náttúruverndar voru ætlaðar tæpar 600 þús. kr. Allar friðlýsingar eru löngu strandaðar vegna fjárskorts. Náttúruverndarfrv. var loks lagt fram fyrir stuttu og þá búið að plokka út úr því ákvæðin um að byggja upp náttúruverndarsjóð. En þetta eru allt angar af sama málinu, ef rétt er á litið.

Mengunarhættu frá áburðarverksmiðjunni hefur ekki verið sinnt, svo að mér sé kunnugt, en um hana voru gefnar athyglisverðar bendingar á mengunarráðstefnu áhugamanna. Hér hefur sá einstæði atburður gerzt, að reist hefur verið álverksmiðja án hreinsunartækja.

Undirstöðurannsóknir í þessum efnum öllum eru afar ófullkomnar og í molum og þekkingu því mjög ábótavant til þess að velja heppilega staði fyrir iðnfyrirtæki, virkjanir og aðrar þvílíkar framkvæmdir. Hér hefur legið í landi að hrapa að ákvörðunum um örlagaríkar stórframkvæmdir. Ætti Laxárvirkjunarmálið að verða mönnum slík aðvörun, að algerum stefnuhvörfum valdi. Ekkert er þýðingarmeira en að öll sjónarmið komi til greina í tæka tíð, þegar í stórvirki er ráðizt. Mun reynslan sýna, að nálega alltaf má finna viðunandi úrlausnir, ef sá háttur er á hafður.

Líklega hefur engin þjóð betri aðstöðu en við til þess að sameina landvernd og nytsamar framkvæmdir af því tagi, sem við þurfum til þess að lifa hér öfundsverðu lífi. En það dugir ekki annað en að gera sér grein fyrir því. að hér verður þá stórfelld stefnubreyting að koma til í umhverfismálum, og skulum við ekki metast um það, sem orðið er. Við höfum öll sofið og erum að rumska. Það sama má víst ekki síður segja um menn annars staðar. Við erum þó svo gæfusöm, að við eigum fleira óspillt í þessu tilliti en margir aðrir. Okkar vegur verður þá líka minni, ef við leggjum okkur út af á ný og látum slarka sem áður.

Hér þarf margt að koma til, og mun ég minnast á sumt. Náttúruverndarlögin nýju þurfum víð að fá og í þeim náttúruverndarsjóðinn, því að ekkert að ráði er hægt að gera til friðunar nema hafa einhver fjárráð. En því nefni ég þetta, að náttúruverndarmálin eru liður í sömu keðju og varnirnar gegn mengun.

Framkvæmdir til þess að fyrirbyggja mengunaráhrif, svo að viðunandi sé, verða hiklaust að teljast með sjálfsögðum rekstrar- og stofnkostnaði allra iðnfyrirtækja og teljast með öðrum útgjöldum, en ekki á eftir öðrum útgjöldum, eins og við hefur brunnið. Þessi útgjöld verða afdráttarlaust að teljast með, þegar það er gert upp, hvort fyrirtækin eiga rétt á sér eða ekki samanborið við önnur úrræði. Ég endurtek það, sem ég áðan sagði, að íslenzka þjóðin er ekki í neinni þeirri neyð stödd með bjargræðisvegi að slaka þurfi á slíkri stefnu sem þessari.

En það er ekki nóg að játa þessa stefnu með vörunum, það verður að framkvæma hana afdráttarlaust og ekki taka neina áhættu í því sambandi, og þar komum við aftur að þáltill., sem fyrir liggur. Straumsvíkurmálið er æðimikið prófmál á okkur og því afar þýðingarmikið, hvernig það fer.

Meginstefna okkar í þessu tilliti verður að vera sú, sem nú er verið að taka upp í öðrum löndum, þar sem farið er að taka fastar á þessum málum, að þeir borga varnirnar, sem tjóninu mundu valda, ef ekkert væri að gert. Við verðum að koma því á, eins og þær menningarþjóðir, sem nú eru að koma nýrri og betri skipan á þessi mál, að allar meiri háttar framkvæmdir verði framvegis hannaðar að höfðu samráði við þær stofnanir, sem falin er forsjá umhverfismála. Efla þarf umhverfisrannsóknir í sambandi við staðarval, þegar um meiri háttar fyrirtæki er að ræða, en vitneskja um veðurfar, strauma og fjölmörg önnur atriði er nauðsynleg undirstaða skynsamlegra ákvarðana um þessi efni. Var rækilega fram á þetta sýnt á mengunarráðstefnunni, sem haldin var á dögunum. Setja ætti upp stjórn fyrir þessi mál, sem samræmir rannsóknir og framkvæmdir, þar með taldar almennar hreinlætisráðstafanir úti við, og líklega væri bezt, að þar undir kæmi einnig æðsta yfirstjórn náttúruverndarmála og yfir höfuð öll þau málefni, sem lúta að því, að menn geti lifað í mannsæmandi og viðkunnanlegu umhverfi þrátt fyrir iðnvæðinguna og skynsamlega hagnýtingu náttúruauðlinda, sem verður að eiga sér stað.

Það úir og grúir af lagaákvæðum hjá okkur, sem fjalla um einstaka þætti þessara mála. Eru sum merk og nýlega sett að vel yfirveguðu ráði og miðuð við nútímaþarfir. En þó eru eyður í þessu, sem skilmerkilega var gerð grein fyrir einmitt á mengunarráðstefnunni, og samræmi vantar. Framkvæmdaafl skortir mjög, og yfirstjórn þessara mála er í molum, fellur meira að segja undir mörg rn. og fjölda stofnana. Á þetta bæði við um ráðstafanir til þess að bæta úr þeirri mengun, sem orðin er, og ekki síður um það, sem gera þarf, ef stemma skal á að ósi í sambandi við vaxandi iðnvæðingu.

Hér ber því allt að sama brunni, hvort sem litið er á rannsóknar- eða framkvæmdahlið mengunarmálanna eða umhverfismálanna. Yfirstjórn þessara mála þarf að magna og samræma. Það kemur hið sama í ljós hér og í nálægum löndum, enda er þar óðfluga verið úr að bæta. og alls staðar er byrjað með því að samræma átök þeirra mörgu stofnana, sem koma við sögu.

Það verður að vera þáttur í því nýja viðhorfi til þessara mála, að opinberar framkvæmdir í umhverfismálum, gegn mengun, til náttúruverndar, til landgræðslu og til þess að tryggja mönnum aðgang að útilífi í skemmtilegu umhverfi, þ. á m. fólkvanga og þjóðgarða, verði settar í flokk með þeim, sem þýðingarmestar eru taldar, en ekki hafðar í úrkastsflokki. Við mættum hafa það fast í huga, að hér er ekki um lúxusframkvæmdir að ræða, sem menn eiga að veita sér, þegar öllum þessum nýtízkulegu nútímaþörfum hefur verið fullnægt, jafnóðum og þær eru búnar til, heldur er þvert á móti um það að tefla, hvort við teljum okkur hafa ráð á því eða ekki að lifa í óspilltu, eðlilegu umhverfi.

Ég er ekki í neinum vafa um, hvar við stöndum raunverulega í þessum málum, ef við íhugum okkar ráð vandlega og gerum okkur vel grein fyrir samhenginu, svo að réttu mati á verðmætum verði komið við. Þetta skulum við gera núna, einmitt áður en það er orðið of seint, minnug hins forna spakmælis, að ekki er ráð, nema í tíma sé tekið.

Loks er þess að minnast, að framundan bíður Íslendinga mikil barátta fyrir ráðstöfunum á alþjóðavettvangi gegn mengun hafsins, og verður þar um að tefla sjálfan grundvöllinn fyrir lífi þjóðarinnar í landinu framvegis. Verður það eitt að nægja nú að minna á þennan stórfellda þátt mengunarmálanna, sem verður mikilsverður liður í utanríkismálum Íslendinga á næstu árum.