16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (3708)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Till. sú, sem er tilefni þessara umr., gerir ráð fyrir, að tafarlaust verði sett upp hreinsitæki í álverksmiðjunni í Straumsvík og þannig dregið úr mengunarhættu frá verksmiðjunni.

Það er býsna athyglisvert, að þessi till. skuli hafa legið í 5 mánuði fyrir Alþ. án þess að fá afgreiðslu. Till. var þó sannarlega ekki flutt að tilefnislausu. Vitað var um mikla mengunarhættu, sem stafar frá álverksmiðjum, og hér höfðu komið fram umkvartanir og viðvaranir, m.a. frá þekktum náttúrufræðingum auk þeirrar sterku og athyglisverðu aðvörunar, sem Alfreð Gíslason læknir gaf á Alþ. um það leyti, sem samningarnir við svissneska álfélagið voru gerðir.

En þrátt fyrir öll varnaðarorð streittust forráðamenn álverksmiðjunnar gegn till. til úrbóta. Þeir töldu enga þörf á hreinsitækjum og málið allt í öruggum höndum sérstakra rannsóknarmanna á vegum fyrirtækisins. Stjórnarvöld stóðu augljóslega með forráðamönnum álverksmiðjunnar og skutu sér á bak við svo nefnda vísindalega skýrslu, þar sem því var haldið fram, að engin hætta væri á ferð. Þá gerðist sá einstæði atburður, að þorri íslenzkra líffræðinga sannaði á ótvíræðan hátt, að hin vísindalega skýrsla þeirra álverksmiðjumanna væri marklaus og beinlínis röng í mikilvægum atriðum. Öll er saga þessi hin furðulegasta hvað snertir þátt forustumanna álversins og þeirra stjórnarvalda, sem með málið hafa haft að gera. Og nú eftir 5 mánaða umhugsunarfrest á Alþ. leggja ríkisstjórnarflokkarnir til að vísa till. um hreinsitæki á álverksmiðjuna til ríkisstj., en það jafngildir að kistuleggja tillöguna.

Till. um hreinsitæki í álverksmiðjunni í Straumsvík til þess að draga úr mengunarhættu er aðeins hluti af miklu stærra máli. Hún grípur á einum þætti náttúruverndarmála okkar, á því að gera ráðstafanir í tíma til að koma í veg fyrir spjöll á gróðri, á því að forða frá eitrun andrúmsloftsins í nágrenni álverksmiðjunnar.

Náttúruverndarmál hafa mjög verið á dagskrá nú um nokkurt skeið. Fyrir frumkvæði Sameinuðu þjóðanna var s.l. ár, árið 1970, sérstaklega helgað náttúruverndarmálum og baráttunni gegn hinni óhugnanlegu mengunarhættu. Margar ráðstefnur hafa verið haldnar til þess að ræða um þessi vandamál, og miklar og mjög athyglisverðar upplýsingar hafa komið fram frá hinum færustu vísindamönnum. Í ljós hefur komið, að mengun í ám og vötnum er víða orðin miklu meiri og alvarlegri en menn höfðu almennt gert sér grein fyrir. Á ýmsum stöðum er mengunarvandamálið orðið svo mikið, að firðir og flóar og jafnvel heil innhöf eru að verða lífvana með öllu. Sjálf heimshöfin eru í hættu að dómi ýmissa vísindamanna, verði ekki þegar í stað gerðar öflugar varnaðarráðstafanir. Mengun andrúmslofts er orðin mikið vandamál í stórborgum heimsins, og ljóst er, að sams konar vandi blasir við minni borgum og bæjum, þar sem verksmiðjurekstur er mikill, verði ekki breytt um stefnu frá því, sem verið hefur.

Umr. um þessi vandamál hafa ekki einvörðungu snúizt um hættur og tjón. Þær hafa einnig orðið til þess að vekja til umhugsunar um gildi hinnar hreinu og óspilltu náttúru. Þær hafa haft þau áhrif á margan manninn, að hann metur nú á annan hátt en áður hreinar og tærar ár, hreint og heilnæmt loft og frjálsa og óspillta náttúru og fegurð landsins.

Við Íslendingar höfum lengi haldið, að mengunarhætta þéttbýlislandanna næði ekki til okkar lands. Við höfum líka haldið, að hættur af samskiptum okkar við landið væru ekki miklar, nema þá helzt í sambandi við ógætilega meðferð á gróðri landsins á stöku stað. Nú sjáum við, að þessar skoðanir eru ekki réttar. Mengunarhættan sækir okkur heim eins og aðra. Fréttir berast um það, að iðnaðarþjóðir Vestur-Evrópu séu farnar að nota hafið ekki langt frá ströndum Íslands sem hálfgerða ruslakistu. Sagt er, að ýmis stórfyrirtæki þessara landa hafi sent hvern skipsfarminn af öðrum af hættulegum eiturefnum, úrgangsefnum frá iðnaðarframleiðslu sinni, og sökkt þeim í hafið suður og austur af Íslandi. Það er því vissulega kominn tími til, að Íslendingar lýsi yfir sérstakri mengunarlandhelgi og geri sínar gagnráðstafanir jafnhliða því sem fiskveiðilandhelgin við landið verði stækkuð í 50 mílur allt í kringum landið, eins og við Alþb.-menn höfðum lagt fram till. um og lögðum fram till. um í landhelgismálanefndinni fyrstir allra flokka.

Það er ekki aðeins mengunarvandamálið, sem gert hefur vart við sig hér hjá okkur. Við stöndum þegar frammi fyrir fyrirætlunum um veruleg landspjöll, frammi fyrir ráðagerðum um stórfellda röskun í íslenzkri náttúru. Áætlanir hafa verið gerðar um að sökkva undir vatn nokkrum sérstæðum gróðurvinjum inni á hálendi landsins. Áætlanir hafa einnig verið gerðar um stórkostlega vatnsflutninga á milli landsfjórðunga, án þess að nokkrar rannsóknir hafi verið gerðar af náttúrufræðingum eða líffræðingum um áhrif slíkrar röskunar á líf og gróður viðkomandi landsvæðis. Vandi okkar í þessum efnum er meiri en sá, sem stafar af áætlunum og ráðagerðum.

Norður í Laxárdal í Þingeyjarsýslu hefur þegar verið ráðizt í umdeildar framkvæmdir við raforkuvirkjun. Þar var upphaflega ráðgert að færa í kaf nokkur bændabýli og sökkva einum fegursta dal í landinu undir vatn. Stjórn Laxárvirkjunar, en aðili að því fyrirtæki er íslenzka ríkið, réðst í virkjunarframkvæmdir þar nyrðra í fullri andstöðu við nær alla þá bændur, sem hagsmuna áttu að gæta á virkjunarsvæðinu. Hæstiréttur hefur úrskurðað, að Laxárvirkjunarstjórn hafi ekki farið að lögum og tryggt sér rétt til framkvæmda. Almenn mótmælaalda hefur risið svo að segja um allt land gegn þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið af forsvarsmönnum virkjunarinnar, sem enn vinna að verkinu í mikilvægum greinum á grundvelli þeirra áætlana, sem upphaflega voru gerðar um miklu stærri virkjun en nokkur lagaleg heimild var um.

Umr. um náttúruvernd eru miklar hér á landi um þessar mundir. Deilur eru um einstaka þætti málsins, en í meginatriðum eru allir sammála. Allir eru náttúruverndarmenn, a.m.k. í orði. En fögur orð og góðar yfirlýsingar duga ekki ein saman. Það er afstaðan í reynd, sem skiptir máli. Ríkisstj. flytur á Alþ. frv. um náttúruvernd. Hún vill allt gera til að koma í veg fyrir mengun, og hún vill hlúa að náttúru landsins. En þegar kemur að álverinu í Straumsvík og mengunarhættunni frá því og þegar kemur að Laxárdeilunni, þá bögglast allt fyrir hæstv. ráðh, og ekkert fæst gert.

Reynsla annarra þjóða af náttúruverndarmálum og af baráttu gegn mengunarhættu er sú, að hættan sé mest af stóriðjufyrirtækjum og rekstrarsamsteypum hinna voldugu auðhringa. Í augum stóriðjumanna réttlætir brot úr eyri í rafmagnsverði það, að heilum byggilegum dal sé sökkt undir vatn. Einn eyrir í rafmagnsverði mundi réttlæta í þeirra augum stórfellda röskun í náttúru heils héraðs. Hinir voldugu auðhringar halda hagsmunum sínum fast fram. Þeir víla ekki fyrir sér að knýja með ýmsum ráðum veikar ríkisstj. til undanláts. Við Íslendingar erum sannarlega komnir á hættusvæðið með okkar náttúruverndarmál. Stjórnarvöld landsins keppast við að flytja þjóðinni þann boðskap, að það sé erlend stóriðja, sem ein geti bjargað efnahagsmálum þjóðarinnar á komandi árum. Auðlindir landsins eru auglýstar fyrir erlendum peningamönnum. Ráðizt er í dýrar virkjunarrannsóknir, allt með það í huga, að hægt verði að bjóða hinum voldugu erlendu auðhringum ódýrari raforku hér en hægt sé að fá í nokkru öðru landi. Helztu áróðursmeistarar ríkisstj. boða með fögnuði, að hér þurfi að rísa 20–30 álverksmiðjur af þeirri stærð, sem verið er að byggja í Straumsvík, og sem fyrst þurfi að byggja hér olíuhreinsunarstöð, sem jafnvel taki að sér stórfellda olíuhreinsun fyrir aðrar þjóðir. Svo fullkomlega blindaðir af þessum áróðri eru ýmsir stuðningsmenn ríkisstj., eins og bezt kom fram hér í ræðu Sigurðar Ingimundarsonar, talsmanns Alþfl., að þeir telja vaxandi þjóðartekjur síðustu ára stafa af erlendri stóriðju, þó að allir viti, að það er aukinn fiskafli og hækkandi fiskverð, sem ráðið háfa úrslitunum um auknar þjóðartekjur hin síðari ár.

Auðhringar Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna eiga nú í vaxandi erfiðleikum með ýmsar mengunarmestu verksmiðjur sínar í sínum heimalöndum. Þannig er t.d. ástatt með olíuhreinsunarstöðvar, álbræðslur og ýmsar efnaverksmiðjur. Skyldi það verða leið þessara auðhringa út úr vandanum að staðsetja eitthvað af slíkum flóttaverksmiðjum sínum á Íslandi? Það er hætt við því, að íslenzk stjórnarvöld, einkum þau, sem tapað hafa allri trú á íslenzka atvinnuvegi, iðnað landsmanna sjálfra, á sjávarútveg og landbúnað, en trúa á almætti erlendrar stóriðju, ráði litlu um stefnu í náttúruverndarmálum gagnvart hinum erlendu stórfyrirtækjum, verði þau mörg í landinu.

Það er nauðsynlegt, að allir Íslendingar, sem í fullri alvöru hugsa um náttúruverndarmál, sem gert hafa sér grein fyrir þeim hættum, sem íslenzkri náttúru getur stafað af mengun og af ógætilegri umgengni mannsins við umhverfi sitt, geri sér glögga grein fyrir þeim hættum, sem munu fylgja með erlendri stóriðju og þeim einstrengingslegu peningasjónarmiðum, sem eigendur hennar jafnan miða allar sínar athafnir við. Vissulega verða landsmenn sjálfir að gæta vel að sínum eigin gerðum í landinu. Sannarlega þurfum við öll að ganga betur um landið og sýna betur en við gerum nú, hvers við metum hreint land og fagurt land.

Væntanlega segja tilfinningar landsmanna til sín á eðlilegan hátt, þegar að vandanum kemur og þegar ljóst er, hvað er í húfi. En eru nokkrar líkur til þess, að erlendir fjáraflamenn, sem hingað koma til að græða peninga, finni til með íslenzkri náttúru á líkan hátt og landsmenn munu gera? Er ekki nokkurn veginn víst, að þeir munu láta gróðasjónarmið sín sitja fyrir öllu öðru?

Sú stefna, sem miðar að því að stórauka þátttöku erlendra aðila í atvinnurekstrinum í landinu, mun færa með sér margvísleg vandamál. Hún mun grafa undan efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, hún mun gera íslenzk stjórnarvöld háð erlendum atvinnurekendum og hún mun auka á hættuna af tillitslausri framkomu við náttúru landsins, auðlindir þess og allt umhverfi. Álverið í Straumsvík er fyrsti prófsteinninn í þessum efnum. Eigendur þess knúðu fram strax í upphafi heimild til þess, að þeir mættu sleppa við að setja upp hreinsitæki á verksmiðjuna, þó að vitað væri, að allar slíkar verksmiðjur séu nú orðið byggðar með þannig tækjum. Hinir erlendu eigendur voru að spara sér peninga, og íslenzk stjórnarvöld létu undan. Enginn vafi er á því, að mikill meiri hluti landsmanna krefst þess í dag, að hreinsitæki verði sett á álverksmiðjuna í Straumsvík. Enginn vafi er heldur á því, að mikill meiri hluti landsmanna krefst þess, að stöðvaðar verði ólöglegar virkjunarframkvæmdir norður í Laxárdal og engar meiri háttar breytingar verði gerðar á náttúru Mývatns og Laxárdals án undangenginna líffræðilegra rannsókna.

Fram til þessa hefur aðalverkefni okkar Íslendinga verið á sviði matvælaframleiðslu. Til okkar eru gerðar miklar kröfur um hreinlæti, um örugga framleiðslu, um að matvælin frá okkur standist hina ströngustu skoðun. Við gerum okkur ljóst, að við þurfum enn að herða á okkar framleiðslukröfum. Við byggjum nýjar og fullkomnari framleiðslustöðvar, ætlum að tryggja hreint og ómengað vatn til framleiðslunnar, og við treystum því, að hráefnið okkar sé eitt það bezta, sem fáanlegt er í heiminum til matvælagerðar. Við eigum vissulega að leggja metnað okkar í að geta sýnt og sannað, að á Íslandi sé matvælaframleiðsla á hærra gæðastigi en annars staðar og þaðan komi matvæli úr ómenguðu umhverfi. En til þess að slíkt megi verða, verðum við að gæta varúðar. Slíkt gæti aldrei gerzt, ef við létum erlenda stóriðju vaða hér yfir og ráða hér lögum og lofum. Það er vissulega kominn tími til, að landsmenn geri hikandi og tvíráðum stjórnarvöldum ljóst, að lengur duga ekki fögur orð ein saman, að nú er kominn tími til athafna. Fyrsta verkið í þeim efnum má gjarnan vera að fyrirskipa álhringnum að setja tafarlaust upp hreinsitæki í verksmiðjunni í Straumsvík. — Góða nótt.