16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (3710)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Ingimundarson hampaði í ræðu sinni gömlu blekkingunni, að Búrfellsvirkjunin hefði verið útilokuð, ef álbræðslan hefði ekki verið reist jafnhliða. Þetta er í algjöru ósamræmi við það, sem ríkisstj. sagði, þegar lögin um Búrfellsvirkjun voru til umr. á Alþ., ári áður en afstaða var tekin til álbræðslunnar. Ríkisstj. sagði þá, að Búrfellsvirkjun yrði byggð, þótt ekki væri samkomulag um álbræðslu, og það væri ekki meira þrekvirki að reisa hana án álbræðslu en að ráðast í virkjun Sogsins á sínum tíma. Munurinn yrði aðeins sá, að virkjunin yrði byggð í fleiri áföngum, ef álbræðsla yrði ekki reist samtímis.

Af hálfu stjórnarsinna hefur verið lögð á það megináherzla í þessum umr., að rétt sé að bíða vísindalegs úrskurðar um það, hvort flúormengunin frá álbræðslunni muni valda alvarlegu tjóni eða ekki. Þessu er því að svara, að það getur tekið of langan tíma að fá slíkan úrskurð. Útilokað er, að vísindin geti svarað því nú, hvert sé hættumarkið miðað við þær aðstæður, sem hér eru. Til þess að fá úr því skorið getur þurft nokkurra missira reynslu. Sá tími getur reynzt of langur. Þess eru mörg dæmi frá öðrum löndum, að deilt hafi verið um, hvort úrgangsefni frá stórum verksmiðjum mengi loft eða vatn, og að niðurstaðan hafi orðið sú, að eðlilegt væri að bíða eftir úrskurði vísindanna, sem byggðist á nægilegri reynslu. Þegar sá úrskurður var loks fyrir hendi, var mengun vatns eða lofts oft svo komið, að dýralíf og gróður hafði orðið fyrir tjóni, sem seint eða aldrei verður bætt. Glöggt dæmi um þetta eru vötnin miklu á landamærum Kanada og Bandaríkjanna og fjöldi stærri og smærri fljóta í iðnaðarlöndunum. Með því að draga það að koma upp hreinsitækjum í álbræðslunni, þangað til öruggar vísindalegar niðurstöður eru fyrir hendi, tökum við áhættu, sem við vitum ekki til fulls, hvað getur verið mikil, en getur áreiðanlega orðið mjög mikil. Undir slíkum kringumstæðum á það að vera reglan að taka ekki áhættuna.

Það, sem er nú þegar kunnugt um, er það, að strax á s.l. sumri, eftir fárra mánaða rekstur bræðslunnar, komu í ljós óheppileg áhrif á gróður í Hafnarfirði, samkvæmt athugun hins ábyrgasta og reyndasta náttúrufræðings, sem þjóðin hefur átt, Ingólfs Davíðssonar. Margir trúverðugir menn herma einnig, að svipaðra áhrifa hafi gætt á Álftanesi á s.l. sumri, a.m.k. nokkrum hluta þess. Ólíklegt er annað en þessi áhrif aukist við stækkun bræðslunnar, en afköst hennar á s.l. ári voru tæpur helmingur þess, sem þau munu verða í framtíðinni samkv. gerðum samningum. Varðandi hættumörkin er ekki hægt að miða við nema takmarkaða erlenda reynslu, því að ekki er ólíklegt, að íslenzkur gróður þoli verr umrædd áhrif en erlendur sökum annarra og örðugri vaxtarskilyrða. Það er því engan veginn útilokað, að þessi mengunaráhrif geti náð til meiri hluta Stór-Reykjavíkursvæðisins. Það má e.t.v. segja, að ræktunin á þessu svæði skili ekki miklum peningalegum arði í þjóðarbúið. En þó að við nefnum ekki nema þann garðagróður, sem þrífst í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík, þá yrði þjóðin óneitanlega miklu fátækari í menningarlegum og uppeldislegum efnum, ef þessi gróður yrði fyrir alvarlegum skemmdum. Við getum því ekki tekið þá áhættu, sem vofir yfir gróðrinum á Stór-Reykjavíkursvæðinu frá álbræðslunni, ef hreinsitækjunum verður ekki komið upp. Þess vegna verður það að vera ófrávíkjanleg krafa Alþ., að ekki dragist að koma upp þessum tækjum.

Þessi krafa Alþ. verður síður en svo talin óeðlileg, þegar höfð er í huga afstaða annarra þjóða. Eftir því sem ég veit bezt, er álbræðslan í Straumsvík eina álbræðslan í Evrópu, sem hefur ekki hreinsitæki. Norðmenn eru t.d. mjög strangir í þessum efnum. Álbræðsla svissneska álfélagsins í Þórsnesi, sem er talsvert minni en álbræðslan verður hér, hefur frá upphafi haft hreinsitæki, en samt hefur verið neitað um leyfi til að stækka hana, vegna þess að hreinsitækin hafa ekki þótt nógu vönduð. Henni er meira að segja ekki leyft nú að skila fullum afköstum vegna mengunarhættunnar.

Hvers vegna skyldu Íslendingar gera minni kröfur í þessum efnum en aðrar þjóðir, þar sem hættan getur þó verið meiri hér en víðast annars staðar, sökum þess að íslenzkur gróður hefur erfiðari vaxtarskilyrði. Ef allt væri með felldu, ættu Íslendingar einmitt að gera meiri kröfur en aðrar þjóðir, sökum þess að þeir eiga land, sem hefur orðið fyrir minni skemmdum af völdum mengunar en flest önnur lönd. Það ætti að vera Íslendingum aukin hvatning til að forðast hætturnar og að halda landinu áfram sem heilnæmustu og hreinustu.

Það er með öllu rangt, að krafan um hreinsitæki í álbræðslunni sé sprottin af því, að hér eigi erlendur aðili hlut að máli. Í þessum efnum má ekki gera neinn mun á því, hvort um erlend eða innlend fyrirtæki, einkafyrirtæki eða opinber fyrirtæki sé að ræða. Persónulega skoðun mína í þessum efnum árétta ég m.a. með flutningi brtt. við lögin um Áburðarverksmiðju ríkisins, þar sem lagt er til, að þess verði jafnan gætt, að ekki stafi mengunarhætta frá rekstri verksmiðjunnar. Ástæðan til þess, að slík till. hefur ekki verið flutt fyrr en nú, er sú, að ekki hefur verið upplýst fyrr en í vetur, að teljandi mengunarhætta geti fylgt rekstri áburðarverksmiðjunnar.

Það er annars ekki langt síðan farið var að ræða um mengun í lofti sem alvarlegt vandamál. Með vissum rétti má líka segja, að þetta vandamál hafi ekki komið til sögu í ríkum mæli fyrr en í síðari heimsstyrjöldinni og eftir hana með tilkomu stóraukins efnaiðnaðar og framleiðslu alls konar gerviefna. Það tók iðnaðarþjóðirnar verulegan tíma að átta sig á þeirri hættu, sem hér var að gerast. Það má jafnvel segja, að það hafi ekki verið öllu fyrr en á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1968, að þjóðirnar hafi almennt áttað sig á, að hér væri komið til sögu stórfellt vandamál, sem kallaði á alþjóðlegt samstarf á margvíslegum sviðum, t.d. varðandi mengun hafsins. Ég man ekki eftir öllu sögulegri og áhrifameiri fundi en á Allsherjarþinginu 1968, þegar flutt var framsöguræða með till. Svía, að kölluð yrði saman sérstök alþjóðleg ráðstefna um verndun mannlegs umhverfis eða nánara sagt um aðgerðir til að hindra mengun lofts, vatns og lands. Svíar buðust jafnvel til að gerast gestgjafar að þessari ráðstefnu, og verður hún haldin í Stokkhólmi á næsta ári. Eftir ræðuna stóð hver fulltrúinn upp af öðrum, og þökkuðu allir Svíum fyrir frumkvæði þeirra og lýstu jafnframt þeim hættum, sem mannlegu umhverfi stafaði af margvíslegri mengun. Þó mátti vel ráða af þessum ræðum, að hér væri aðeins verið að ræða um upphaf eins geigvænlegasta vandamáls, ef ekki tækist að stöðva þá öfugþróun iðnvæðingarinnar, sem hér væri á ferðinni.

Í framhaldi af þessum sögulegu umr. á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1968 hefur ekki annað mál verið rætt öllu meira í heiminum en mengunarvandamálið síðustu tvö árin. Margt bendir til, að þær umr. og þær aðgerðir, sem vonandi fylgja í kjölfarið, eigi eftir að valda eins konar byltingu í mati verðmæta og lífsgæða. Menn skilja það miklu betur eftir en áður, að hreint loft og heilnæmt land er í röð allra mestu verðmæta og náttúrugæða. Hröð iðnvæðing er ekki lengur sama keppikefli og áður, ef ekki tekst jafnhliða að halda umhverfinu heilnæmu og andrúmsloftinu ómenguðu. Í samræmi við þetta hefur aukizt skilningur á mikilvægi þeirra atvinnugreina, gamalla og nýrra, sem hægt er að efla og auka, án þess að því fylgi aukin hætta fyrir mannlegt umhverfi.

Þetta nýja lífsgæðamat eða verðmætamat, sem er að ryðja sér til rúms í heiminum, mun m.a. opna augu manna fyrir því, að Ísland er miklu auðugra land en álitið hefur verið til þessa. Ísland býr yfir þeirri auðlegð, sem nú er að verða talin mikilvægust, ómenguðu andrúmslofti og hreinu umhverfi. Á Íslandi er líka að finna möguleika fyrir vaxandi atvinnuvegi, sem ekki hafa mengunarhættu í för með sér. Hér eru ekki aðeins auðug fiskimið við strendurnar, sem veita skilyrði til blómlegra fiskveiða og fiskiðnaðar, ef nógu mikið kapp er lagt á nauðsynlega friðun fiskstofnanna. Hér er að finna stórkostlega möguleika til að auka fiskrækt í ám og vötnum. Hér er með vaxandi ræktun og þá ekki sízt með skynsamlegri ræktun beitilandsins hægt að auka landbúnað, sem m.a. getur orðið undirstaða vaxandi útflutningsiðnaðar. Hér má á grundvelli vatnsorkunnar byggja upp ýmiss konar iðnað, sem fylgir ekki teljandi mengunarhætta. Hreint og heilnæmt umhverfi mun svo hvetja ferðamenn til að sækja hingað í sívaxandi mæli.

Þannig hefur Ísland skilyrði til að vera eitt auðugasta og heilnæmasta land í heiminum, ef þjóðin ber gæfu til að vinna í anda þess nýja verðmætamats, sem nú er að ryðja sér til rúms.

Til þess að þetta megi takast þarf vitanlega margt að gera. Við þurfum m.a. nýja löggjöf um náttúruvernd og sérstaka löggjöf um ráðstafanir gegn mengun í lofti og vatni. Hvort tveggja er nú nokkuð á veg komið. Á þingi 1968 flutti Eysteinn Jónsson og fleiri framsóknarmenn till. um endurskoðun náttúruverndarlaganna frá 1956, og varð samkomulag um, að sérstök nefnd annaðist þessa endurskoðun. Sú nefnd samdi frv. til nýrra náttúruverndarlaga, sem lagt var fram á Alþ. 1969, en náði ekki samþykki þá. Það hefur aftur verið lagt fyrir þetta þing, en horfur eru á, að það dagi enn uppi vegna áhugaleysis ríkisstj. Dýrt væri, ef frv. dagaði enn uppi, því að það felur í sér miklar endurbætur á núgildandi löggjöf. Þá flutti Ólafur Jóhannesson, formaður Framsfl., á Alþ. í fyrra till. um, að ríkisstj. væri falið að láta undirbúa löggjöf um ráðstafanir gegn skaðlegri mengun í lofti og vatni. Þessa till. dagaði uppi á þinginu í fyrra, en Ólafur flutti hana aftur í þingbyrjun nú, og hefur hún nú verið samþ. samhljóða. Þess verður að vænta, að ríkisstj. láti undirbúa slíka löggjöf svo kappsamlega, að hægt verði að samþykkja hana á næsta Alþ. En þótt lög um þessi efni séu mikilvæg, er hitt ekki þýðingarminna, að þeim verði framfylgt. Hér má ekki sýna neina linkind eins og þá, að ekki verði komið upp hreinsitækjum í álbræðslunni. Ef byrjað verður á að láta undan þar, er hætta á, að frekari undantekninga verði leitað. Þess vegna er það óumræðilega mikilvægt vegna framtíðarstefnunnar í þessum málum, að hún verði strax nægilega skýrt mörkuð í samskiptunum við álbræðsluna. Þeir, sem guggna strax í upphafi, eru ekki líklegir til að vera skeleggari síðar. En jafnhliða fullkominni löggjöf og einbeittri framkvæmd hennar þarf svo að haga allri uppbyggingu atvinnuveganna í samræmi við hið nýja verðmætamat, að hreint andrúmsloft og óspillt land sé meðal hinna allra mestu náttúrugæða. Þess vegna þarf að leggja sérstakt kapp á eflingu þeirra atvinnugreina, sem ekki fylgir teljandi mengunarhætta, eins og fiskveiða, fiskvinnslu, fiskræktar í ám og vötnum, ræktunar landsins, margvíslegs smærri iðnaðar o.s.frv. Hér bíða þjóðarinnar miklir óreyndir möguleikar, sem verða því betur nýttir sem þjóðin leggur meira kapp á heilbrigða landsbyggðastefnu og nýtir þannig auðlegð landsins alls. Og því aðeins mun þjóðinni vegna vel í landinu, að hún kappkosti að halda því hreinu og heilnæmu. — Ég þakka svo þeim, sem hlýddu. Góða nótt.