17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

1. mál, fjárlög 1971

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlagafrv. voru fluttar þó nokkuð margar brtt. frá minni hl. fjvn. og sömuleiðis frá einstökum þm., aðallega þó stjórnarandstæðingum. Þessar till. voru flestar hverjar teknar aftur til 3. umr., svo að fjvn. gæti athugað þær nánar, og eins og þm. almennt munu sjá þá hefur fjvn. tekið mjög tillit til margra þessara till. eða komið til móts við flm. þessara till. Sum málin áttu eftir að fá frekari meðferð í fjvn., en önnur voru aftur tekin til enn betri athugunar og ég tel, að það hafi verið komið mjög til móts við þm. almennt í sambandi við afgreiðslu þessara till. Hitt vil ég segja, að ég lýsi nokkurri furðu minni yfir, að þm. skuli við 3. umr. flytja fjölmargar brtt. upp á fleiri tugi millj., þannig að það er gersamlega útilokað að líta frekar á þær, og ég verð að ætla, fyrir mitt leyti, að slíkur till.-flutningur sé öllu fremur sýndarmennska heldur en að hann beri vitni um það, að menn ætli að vinna virkilega að framgangi slíkra mála.

Hér rétt áðan var að ljúka máli sínu hv. 9. þm. Reykv. og flutti skriflegar brtt. Meðal þeirra till., sem hann flutti, var 6 millj. kr. framlag til læknamiðstöðvar á Patreksfirði, og hann spurði í lok sinnar ræðu, hvort fjvn. gæti nú ekki skotizt á fund til að lita á þetta mál. Ég hygg, ef menn færu almennt að bera fram till., þegar 3. umr. er að ljúka, að við mundum seint ljúka afgreiðslu, ef fjvn. ætti að skjótast til fundar til þess að afgreiða svona eina og eina till., sem þm. flyttu eftir dúk og disk. Hv. þm. nefndi réttilega, að samgöngur hefðu ekki verið upp á marga fiska síðustu daga, og ég ætla ekki að koma inn á það, það gerði ég og fleiri hér fyrir örfáum dögum, en sem betur fer hefur mjög vei úr því rætzt nú síðustu 3 dagana. En mér er kunnugt um eitt í sambandi við læknamiðstöðvarmálið á Patreksfirði, en á þeim fundi sat hv. 9. þm. Reykv. sem oddviti í Ketildalahreppi, fundinum, þar sem þessi læknamiðstöð var til umr., að hann er kominn aftur frá fundi og til Alþ. og búinn að vera hér alllengi, og eins og hann komst heill á húfi, sem betur fer og guði sé lof í þessum veðraham, sem verið hefur, úr Barðastrandarsýslu og hingað til þings, þá hygg ég, að það hefði nú mátt taka með sér eitt bréf. Og ég segi fyrir mitt leyti, að þó málið snerti það kjördæmi, sem ég er þm. fyrir, þá tel ég útilokað að samþykkja þvert ofan í ákvæði læknaskipunarlaga um læknamiðstöðvar, fjárveitingu til læknamiðstöðvar á Patreksfirði. Ég segi það alveg eins og er.

Ráðh. er heimilt að stofna miðstöðvar samkvæmt till. landlæknis og eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Til þess að veita féð verður að liggja fyrir till. landlæknis til heilbrmrn. Og heilbrmrn. hefur lagt fram till. við fjvn. um þrjár læknamiðstöðvar. Eina, sem tekin var inn á fjárlög ársins 1970, læknamiðstöð á Egilsstöðum, og tvær læknamiðstöðvar, sem teknar eru nú upp í þetta fjárlagafrv., læknamiðstöð á Ísafirði og læknamiðstöð í Borgarnesi. Ég hygg, að það muni vera tvö læknishéruð, sem sameinast í Borgarnesi, og þess vegna uppfylla þau þau ákvæði laganna, ef tvö eða fleiri læknishéruð sameinast, og á Ísafirði liggur fyrir sameining fjögurra læknishéraða. Það liggur ekki fyrir okkur í fjvn. nokkur samþykkt um, að tvö læknishéruð hafi sameinazt í V.-Barðastrandarsýslu, en læknishéruðin í þeirri sýslu eru tvö, og það finnst ekki stafkrókur frá landlækni eða heilbrigðisstjórninni, en fjárlögin eru komin á lokastig. Og ég er hissa á jafnduglegum manni og hv. 9. þm. Reykv., sem er nú búsettur í þessu læknishéraði og hefur það fram yfir okkur hina, að hann skuli ekki hafa rætt við okkur í fjvn. um þetta mál og beðið n. að hraða því eða beðið n. að fá umsögn heilbrigðisyfirvaldanna í þessu máli. Þess vegna verð ég því miður að ætla, fyrst þessi vinnubrögð eru höfð á, — en vonandi er það röng tilgáta, — að þetta sé of mikil sýndarmennska en ekki sá áhugi, sem þyrfti að vera fyrir jafngóðu máli og hér er um að ræða. Við höfum vel getað rætt saman, þm. Vestf. og Hannibal Valdimarsson, um þau málefni, sem eru efst á baugi hverju sinni og miklu minni og lítilfjörlegri mál heldur en þessi, og það hefði verið mjög ákjósanlegt, að hann, sem einn okkar sat þennan fund, hefði snúið sér að 1. þm. Vestf. og sagt: Getum við ekki boðað hér til fundar, þm. Vestf., út af þessu máli? En hann gerði það ekki, blessaður. Já, forgangan er nú komin, þegar flutt er skrifleg till. hér á síðustu stundu við afgreiðslu fjárlaga.

Ég ætla svo ekki að ræða meira um þetta. En ég fór að lesa þessar brtt., sem liggja fyrir á þskj. 280, og mér varð starsýnt á till. frá hv. 2. þm. Reykn., Jóni Skaftasyni, þ. e. 2. lið b, til byrjunarframkvæmda við byggingu gagnfræðaskólahúss í Mosfellssveit, og ég fór til forseta og spurði, hvort Jón Skaftason mundi ekki mæla fyrir þessum till. sínum, sem hann flytur, — þær eru nokkuð margar, — og forseti sagði, að hann hefði ekki beðið um orðið, svo að ég bað þá um orðið, — það var áður en Hannibal Valdimarsson tók til máls. Ég ætlaði að spyrja flm. um það, hvað hann ætti við með till., til byrjunarframkvæmda við byggingu gagnfræðaskólahúss í Mosfellssveit 1 millj. og 500 þús. Mér kemur þessi till. í raun og veru á óvart, — ætlast hv. þm. til, að tveir gagnfræðaskólar verði byggðir í Mosfellssveit samtímis? Þannig stendur á, eins og þeir vita, sem hafa kynnt sér fjárlög ársins 1970, að það er veitt til byggingar gagnfræðaskóla á Varmá í Mosfellssveit, til framkvæmda 2 millj. 780 þús. Og við 2. umr. kom fram till. frá fjvn. um að veita til byggingar gagnfræðaskóla á Varmá 5 millj. 403 þús., svo að það eru komnar í byggingu þessa gagnfræðaskóla tæplega 8.2 millj. kr., en svo kemur hv. 2. þm. Reykn. og leggur til, að það verði byrjað að veita til byrjunarframkvæmda við skólann 1½ millj. Það getur vel verið, að það sé um einhvern misskilning hjá mér að ræða, að hann ætli sér að byggja þarna annan skóla, en ég tel, að það sé búið að veita anzi vel til þessa skóla á Varmá og eftir nákvæmlega sömu reglum og til annarra þeirra skóla, sem teknir hafa verið á framkvæmdastig.

Mér finnst ólíklegt, að þm. sé svo ókunnugur í sínu kjördæmi og fylgist svo illa með afgreiðslu fjárlaga, bæði á s. l. ári og eins það sem af er afgreiðslu fjárlaga á þessu ári, að þetta hafi virkilega getað farið fram hjá honum. Mér fannst rétt að þetta kæmi fram, en því miður er hv. 2. þm. Reykn. ekki viðstaddur.