17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

1. mál, fjárlög 1971

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það eru nokkrar viðbótarbreytingartill., sem fjvn. hefur leyft sér að flytja á þskj., sem búið er að leita afbrigða fyrir, en á því miður eftir að dreifa út á Alþ., en mun verða gert innan tíðar. Ég vil leyfa mér að gera í stuttu máli grein fyrir þessum viðbótartill. n.

Kemur þar fyrst brtt. við 4. gr. 401 15. Til að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsmenntunar. Þar leggur n. til, að í staðinn fyrir 12 millj. kr. komi 15 millj. Hér er um mál að ræða, sem er búið að ræða mikið í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv., bæði við 2. umr. málsins og aftur nú við 3. umr., og vænti ég, að hv. alþm. geti eftir atvikum fallizt á, að hér sé komið nokkuð á móti í þessum efnum, að fjárupphæðin verði 15 millj. í staðinn fyrir 12 millj., eins og í frv. er.

Þá hafði fallið niður eða láðst að ganga frá í prentun till., sem fjvn. var búin að ræða og samþykkja á fundum sínum, en það er við 1 04, landbrn., þ. e. töluliður 206, inn komi nýr liður; til kalrannsókna 1 millj. kr. Hér er um mál að ræða, sem ég hygg að allir séu sammála um, að sé og hafi verið mikið vandamál, og á sviði kalrannsókna munu enn um sinn verða viðfangsefni til rannsóknar og úrlausnar og er því talið nauðsynlegt, að þessi liður falli ekki niður úr fjárlögunum og er því till. um að verja 1 millj. kr. í þessu skyni.

Þá er till. við 4. gr., sjútvrn. 299, þar er lagt til, að inn komi nýr liður, þ. e. í viðfangsefninu 05 við þennan tölulið; til fiskiræktar í sjó 300 þús. kr. Þetta er m. a. samkvæmt tilmælum, sem komu frá Fiskifélagi Íslands. Við vitum það, að mikið er um það rætt, að gangi á hina ýmsu stofna nytjafiska hér við land, og það er vissulega þess vert, að hafizt sé handa um að koma á einhverri slíkri starfsemi, sem þessi till. felur í sér, þ. e. að komið verði á stað tilraunum með fiskirækt í sjó. Þessi fjárupphæð er í samræmi við þá beiðni, sem óskað var eftir.

Þá hefur láðst að taka inn í fjárlagafrv. eina stofnun, sem á þar að vera samkv. lögum, en það er umferðarráð. Á síðustu stundu, má segja, eða síðustu dögum komu tilmæli frá dómsmrn. um það að taka inn fjárveitingar í þessu sambandi og hefur orðið að samkomulagi að leggja til, að inn komi nýr liður 255 undir nafninu umferðarráð og þar er gert ráð fyrir, að launaliður verði upp á 450 þús. kr. og önnur rekstrargjöld verði jafnhá, 450 þús. kr., eða gjöld samtals 900 þús. kr.

Þá leggur n. til, að fengnum upplýsingum varðandi liðinn 4. gr. 1 09 384, þ. e. styrktarfé, að niður falli nöfn þriggja aðila, sem gert er ráð fyrir að fái styrk samkvæmt þessum lið, en samkvæmt nýjum upplýsingum eru þeir, sem hér er um að ræða, allir dánir.

Þá er till. n. við 5. gr. frv., þ. e. B-hluta fjárlagafrv., að inn verði tekin áætlun um rekstur Síldarverksmiðja ríkisins. Þessi áætlun barst ekki fyrr en nú nýlega, svo að hún var ekki með í prentun frv. á sínum tíma og náði því heldur ekki að koma með fyrri till. n. Hér er um yfirlit að ræða varðandi Síldarverksmiðjur ríkisins, sem fela í sér rekstrarhalla, sem nemur 25 millj. 413 þús. kr., en varðandi hraðfrystihús Síldarverksmiðja ríkisins er aftur á móti um rekstraráætlun að ræða, sem felur í sér 336 þús. kr. tekjuafgang. Að öðru leyti vil ég vísa til þess, sem fram kemur á þskj. varðandi einstaka liði í rekstri þessara stofnana.

Þá eru hér tveir liðir til viðbótar við 6. gr. frv., sem n. flytur, en það eru nýir liðir. Þ. e. í fyrsta lagi að heimila Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins að greiða allt að 20 aurum af hverjum seldum eldspýtustokk til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þetta er í samræmi við það, sem hér hefur verið rætt um varðandi að hætta að líma sérstaka miða á eldspýtustokkana, og til þess að greiðsla falli ekki niður eða tekjur innheimtist í þessu skyni til Styrktarfélagsins, þá er nauðsynlegt að samþ. þessa heimild, sem hér er lagt til.

Og loks er í öðru lagi till. um að selja prestsseturshúsin Hof í Vík í Mýrdal og Jónshús í Flatey á Breiðafirði.