21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

40. mál, siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, gæfi vissulega tilefni til almennra umr. um samgöngumál Vestmannaeyja, því að þau hafa frá fyrstu tíð valdið Vestmanneyingum nokkrum erfiðleikum og verið þar mjög á dagskrá. Ég mun þó ekki fara út í það, heldur halda mig við efni till. Ég skal þó geta þess, að þó að ekki séu nema rúmlega 5 þús. manns búsettir í Vestmannaeyjum, þá hafa á undanförnum árum rúmlega 30 þús. farþegar verið fluttir flugleiðis og með skipum á milli lands og Eyja eða rösklega sexföld íbúatala byggðarlagsins. Þetta sýnir, að samgönguþörf er þarna kannske enn frekar fyrir hendi en íbúatala bæjarins gefur tilefni til.

Daglegar ferðir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja hafa mjög verið á dagskrá heima í héraði nú að undanförnu. Á síðasta hausti eða fyrri part vetrar var gerð um þær ákveðin ályktun í bæjarstjórn Vestmannaeyja, sem ég hygg, að hafi verið send réttum stjórnvöldum, enda kom það fram hjá hæstv. samgrh., að þetta mál væri í athugun í rn. og hjá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins. Í sambandi við daglegar samgöngur milli Þorlákshafnar og Eyja með því skipi, sem nú gengur mest á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, verður að hafa það í huga, að á rekstri þess yrðu allverulegar breytingar og sérstaklega í sambandi við vöruflutninga. Vestmanneyingar gera sér það vel ljóst, að á því er nokkur annmarki að taka upp vöruflutninga frá Reykjavik um Þorlákshöfn til Vestmannaeyja og það geti leitt til hærri flutningsgjalda en þó eru með Ríkisskip, eins og gjaldskrá þess er í dag, sem öllum þykir þó sennilega nægilega há. Það atriði er einnig í athugun, hvernig þessu yrði bezt við komið og hver kostnaður mundi af því verða. Sú breyting hefur orðið á vöruflutningum, aðallega stykkjavörum, nú að undanförnu, að farið er að flytja þetta í kössum eða svo kölluðum gámum, og mundi ekki á annan hátt verða komið við flutningum á smærri stykkjavöru frá Reykjavík um Þorlákshöfn til Eyja en með slíkum hætti. Það fer mjög eftir því, hvaða samningar tækjust á flutningi þessara vörukassa frá Reykjavík til Þorlákshafnar, hvert flutningsgjaldið yrði. Á flutningunum yrði að vísu ekki mikil breyting. Nú er varan flutt úr pakkhúsi og niður í skip og þar sett í þessa kassa. Í stað þess þyrfti að setja í kassana uppi í pakkhúsi og flytja þá síðan þriggja kortera eða klukkutíma leið á bifreiðum til Þorlákshafnar. Útskipun þar hlyti að verða ódýr miðað við þá uppskipunartaxta, sem nú eru, þar sem ekki væri um annað að ræða en taka þessa kassa í heilu lagi um borð, og þá yrði uppskipun í Eyjum einnig að því leyti ódýrari, að þetta er miklu handhægara viðfangs með þeim tækjum, sem nú eru, heldur en ef þarf að handleika hvert einasta stykki og umstafla því upp á trillur eða bíla eins og áður var gert. Ég er því ekki tilbúinn að samþykkja það enn þá, að það megi ekki flytja smærri stykkjavörur — með útbúnaði eins og nú er farið að nota og hlyti að verða notaður í þessu tilfelli — fyrir sama gjald eða ekki hærra gjald en nú á sér stað hjá Ríkisskip samkv. gildandi töxtum.

Það er rétt, sem kom hér fram hjá hv. flm. till., að á undanförnum árum hafa vöruflutningar frá Reykjavík til Eyja numið um 6 þús. tonnum, stundum aðeins minna og stundum aðeins meira. En það er ekki öll sagan sögð þar, því að það er farið að flytja vörur með flugvélum, sérstaklega hinar viðkvæmari vörur, til Eyja í miklu stærri stíl en ég hygg, að menn almennt geri sér grein fyrir. Má t.d. geta þess, að samningar hafa tekizt við ölgerðirnar um, að allt öl og tómar umbúðir frá þeim sé flutt flugleiðis milli Eyja og Reykjavíkur. Á sínum tíma voru slíkar vörur einnig fluttar milli Akureyrar og Eyja. Ef um daglegar ferðir milli Þorlákshafnar og Eyja yrði að ræða, þá er ég sannfærður um það, að þá mundu einnig vöruflutningar aukast með skipinu frá því, sem nú er, ef hægt væri að koma því þannig fyrir, að það þyrfti ekki að verða dýrara en er nú í dag.

Farþegaflutningar voru fyrst til að byrja með mjög miklir með Herjólfi. Farþegatala komst yfir 10 þús. á ári, en hefur lækkað nú hin síðari ár. Vegna bættra flugsamgangna hefur fólk frekar kosið að ferðast með flugvélum, þó að það sé nokkru dýrara en að ferðast með Herjólfi. Ef komið yrði á daglegum ferðum milli Þorlákshafnar og Eyja, eins og Vestmanneyingar stefna mjög að og telja reyndar ekki annað koma til greina í framtíðinni, þá hygg ég, að farþegatala mundi aukast mjög verulega með skipinu eða því skipi, sem gengi á milli. Vestmanneyingar tala um það svona í heldur léttari tón, að aldrei hafi verið betri samgöngur milli Vestmannaeyja og fastalandsins, eins og við köllum það, en í verkföllunum í vor, þann mánaðartíma, sem þau stóðu. Þá fékk Herjólfur undanþágu til að flytja fólk þessa leið og fór þá daglegar ferðir. Þetta var ákaflega vel séð í Eyjum og sannfærði Vestmanneyinga um, að þetta væri það, sem hlyti að koma í framtíðinni, hlyti að verða sú samgönguleið, sem þeir kæmu til með að nota, bæði, að því er ég hygg, til farþega- og vöruflutninga.

Heimamenn hafa ávallt verið mjög vakandi fyrir þeim möguleikum, sem til eru til flutninga milli lands og Eyja. Þeir gera sér fulla grein fyrir hinum erfiðu aðstæðum í sambandi við þá, en hafa þó verið vakandi fyrir þeim. Vil ég benda á, að það var fyrir tilstilli þeirra á sínum tíma, að hér var gerð tilraun með farþegaflutninga með hinu svo kallaða svifskipi, sem hingað kom til lands og var hér til reynslu, ef ég man rétt, í einn mánuð og gekk hluta þess tíma milli lands og Eyja. Við bundum satt að segja nokkrar vonir við það, að farartæki af þessari gerð mundi leysa þá hlið málsins að flytja farþega og bifreiðar milli lands og Eyja hina stytztu leið, en það er aðeins 10 mín. sigling með slíku faranæki upp í Landeyjasand gegnt Vestmannaeyjum. Því miður hefur sú þróun ekki orðið í byggingu þessara skipa, sem við vonuðum og höfðum ástæðu til á þeim tíma að vona, að mundi verða, eftir þeim upplýsingum, sem við þá fengum frá framleiðendum þessara farartækja. En það virðist sem einhver stöðnun hafi verið í því. A.m.k. hafa ekki enn þá verið uppi neinar ráðagerðir um að byggja skip af þeirri stærð, sem mundi henta til þessara flutninga. Það skip, sem hér kom og Íslendingar fengu að reyna, var of lítið til flutninga með bifreiðar. Það má segja, að það væri nægilega stórt til flutninga með farþega einvörðungu, en til flutninga með bifreiðar og farþega samtímis var það talið of lítið, og hygg ég, að flestir hafi verið sammála um það, sem athuguðu það mál og reyndu far með því skipi. Hins vegar sýndi það sig, að farartæki af þessari gerð mundi henta mjög vel við þær aðstæður, sem þarna eru, og alveg ótrúlega vel, jafnvel þó að um eitthvert brim væri að ræða við Landeyjasand. Það hittist þannig á, að logn og blíða var að heita mátti allan tímann, sem skipið var hér til reynslu, nema næstsíðasta daginn, sem það var hér, þá brimaði allt í einu verulega við sandinn, og var þá farin reynsluför á skipinu frá Eyjum upp í Landeyjasand. Sá árangur, sem fékkst af því, að þetta farartæki fór án nokkurrar hindrunar bæði gegnum brimgarðinn og upp í sandinn og út aftur, sannfærði okkur um það og gaf okkur vonir um, að þetta mundi í framtíðinni verða lausn á málinu að því leyti, sem við sáum fram á það, að það gæti fullnægt flutningi með farþega og bifreiðar. En eins og ég sagði, þá hefur því miður orðið stöðnun á framleiðslu farartækja þessarar gerðar af þeirri stærð, sem við mundum telja hentuga eða nægjanlega fyrir okkur.

Þá hefur einnig skapazt nýtt viðhorf, eins og fram kom í framsöguræðu hv. flm. till., í sambandi við bifreiðaeign Vestmanneyinga. Það munu vera orðnar þar um 500 fólksbifreiðar. Eigendur þessara farartækja óska að sjálfsögðu eftir því eins og aðrir að geta notað sitt helgarfrí og sitt sumarfrí til þess að komast á þjóðvegakerfi landsins með eins handhægu móti og á eins ódýran hátt og frekast er kostur á. Hæstv. samgrh. benti réttilega á það, að á s.l. sumri hefðu þessir flutningar aukizt verulega, og stafar það af því, að þá var fargjald með bifreiðum frá og til Vestmannaeyja lækkað mjög mikið eða um nær helming. Það, sem ég hygg, að Vestmanneyingar séu mjög sammála um, er í fyrsta lagi það, að eins og aðstæður eru í dag, verði komið á daglegum ferðum milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og þá með því skipi, sem nú er fyrir hendi. Herjólfur hefur vissulega reynzt mjög traust og gott og happasælt skip, en til flutninga á bifreiðum er hann alls óhæfur. Við illan leik er hægt að koma þar, ef ég man rétt, sex eða átta litlum bifreiðum á dekkið, en við slíkar aðstæður, að menn hálfpartinn veigra sér við því að setja bifreiðar sínar um borð í skipið, því að þó að allrar varúðar sé gætt, eru aðstæður þannig um borð, þegar farið er að troða bifreiðunum niður á milli lúgu og lunningar, að menn eru alltaf mjög uggandi yfir því, að eitthvað beri út af og þeir fái þá bifreiðar sínar skemmdar, jafnvel þó að gott veður sé, — ég tala nú ekki um, ef þarf að flytja þær í misjöfnu veðri. Það er því mjög um það talað heima í Eyjum, og ég hygg, að það sé það, sem Vestmanneyingar eru sammála um að stefna að, að fá nýtt skip í þessar ferðir, sem þannig sé byggt, að það sé jafnframt hentugt til bifreiðaflutninga, fyrst og fremst til farþega- og bifreiðaflutninga og þá einnig að sjálfsögðu til vöruflutninga. Það gera sér auðvitað allir ljóst, að þarna er um nokkuð kostnaðarsama framkvæmd að ræða, og miklu varðar, hvernig staðið verður að því máli. Það hefur verið mjög um það rætt, að Vestmanneyingar sjálfir tækju að einhverju leyti þátt í byggingu slíks skips með fjárframlagi, hefðu þá að sjálfsögðu óskoraðan umráðarétt yfir því og fengju þá ríkisframlag í sambandi við stofnkostnað og rekstur skipsins, eins og á sér stað um flóabáta víða um landið. En þetta er að sjálfsögðu mál framtíðarinnar, en málið er það aðkallandi, að ég hygg, að öllum sé ljóst, að lausn verður að finnast á því, og ég segi: Lausnin verður að koma fyrir næsta sumar.

Það hefur einnig verið mjög um það rætt og kom mjög til umr. í bæjarstjórn, þegar ákveðin samþykkt var gerð um málið þar, að þetta mál mundi aldrei verða í því lagi, sem við sjálfir óskuðum eftir, nema Vestmanneyingar sjálfir hefðu umráðarétt yfir því skipi, sem þarna gengi á milli. Við gerum okkur það ljóst, að Ríkisskip þarf mörgum kröfum að sinna, og má vel vera, að sumt af því, sem gerzt hefur í sambandi við rekstur þess, sé afsakanlegt. Annað er það, sem við teljum, að ekki hafi farið úr hendi eins og við hefðum óskað, en ég geri ráð fyrir, að forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hafi einnig sína skoðun á þeim hlutum eins og við, en ég hygg, að það sé nú mjög almennt talið úti í Eyjum, að þetta verði aldrei í lagi, fyrr en Vestmanneyingar sjálfir fái umráðarétt yfir því skipi, sem þarna gengur á milli. Það getur kannske verið matsatriði í hverri ferð, hvort senda á skipið til Þorlákshafnar, hvort aðstæður eru hagkvæmar til að senda það til Þorlákshafnar — á ég þá aðallega við vetrarferðir — eða hvort eðlilegt sé að senda það til Reykjavíkur og þá hvort nægilega mikið vörumagn sé liggjandi fyrir í Reykjavík á hverjum tíma. Það verður náttúrlega að meta það, hvort heppilegra er fjárhagslega séð og þá hvort það mundi valda nokkrum vandræðum, þó að skipið yrði látið fara einstaka ferðir til Reykjavíkur til að sækja þangað þungavöru og þá flytja frá Eyjum bæði afurðir og annað, sem það stundum hefur gert, þegar umskipun á sjávarafurðum á sér stað. En eins og hæstv. samgrh. benti á, er málið í athugun hjá réttum aðilum, hjá samgrn. og framkvæmdastjórn Skipaútgerðarinnar. Ég hef tjáð honum það sem mína skoðun, að Vestmanneyingar muni ekki sætta sig við annað en að fá skip í daglegar ferðir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og þeir muni vart sætta sig við annað en að fá umráðarétt eða ráðstöfunarrétt á skipunum í sambandi við þessar ferðir. Ef til þess kemur, að það þurfi að flytja till. um þetta mál í sambandi við 6. gr. fjárlaga, þá hef ég tjáð hæstv. ráðh., að ég muni gera það, ef hann telji þess þörf, því að málið er að mínum dómi og okkar allra, sem það þekkjum, svo aðkallandi, að það verður að fást einhver lausn á því fyrir næsta vor. Við höfum kannske beðið rólegri en segja má, að ástæða hafi verið til, vegna þess að okkur eru ljósir þeir örðugleikar, sem Ríkisskip er nú í með flutninga í kringum landið, en þetta mun breytast, þegar síðara skipið, sem nú er í smíðum á Akureyri, verður tilbúið til ráðstöfunar fyrir Ríkisskip. Þá mun þessi aðstaða breytast.

Eins og kom fram hjá hæstv. samgrh., þá hefur hann fullan hug á því, að sú lausn fáist í þessu máli, að Vestmanneyingar geti við hana unað. En framtíðin er án efa sú, að byggt verði nýtt skip til þessara flutninga og þá byggt með það fyrir augum, að það geti einnig annazt birgðaflutninga undir þiljum, en ekki á dekki eins og nú er, þannig að Vestmanneyingar geti á sem ódýrastan hátt komizt í beint samband við þjóðvegakerfi landsins. Keflvíkingum og Suðurnesjabúum þykir það hár skattur að greiða 40 kr. fyrir að fá að aka Keflavíkurleiðina. Ég held, að ég hafi aldrei greitt neinn opinberan skatt með meiri ánægju heldur en þær 40 kr., því að við, sem þurfum að flytja bifreiðar sjóleiðis hvort sem er frá Vestmannaeyjum til fastalandsins eða annars staðar frá til Reykjavíkur eða í sambandi við þjóðvegakerfið, við vitum alveg, hvað það kostar. og mundum án efa með mikilli ánægju greiða þann skatt, sem Suðurnesjabúar kvörtuðu undan að greiða á sínum tíma, þegar Keflavíkurvegurinn var lagður.

Um till. sjálfa er í sjálfu sér ekkert að segja. Málið er í athugun heima í héraði. Það er í athugun hjá réttum stjórnvöldum, hjá samgrn., og er því að treysta, að viðunandi lausn finnist á því, þannig að þeir, sem úti í Vestmannaeyjum búa, geti talið, að þeirra óskum hafi verið mætt á eðlilegan hátt.