21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

40. mál, siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það var nú í rauninni óþarfi að standa upp eftir þær aths. eða þakkarræðu, sem hv. flm. flutti hér áðan, bæði til mín og hv. 3. þm. Sunnl., en ég held, að hann hafi nú misskilið mig, þegar hann var að tala um það, að hann vildi taka undir það, sem hv. 3. þm. Sunnl. hafði sagt um daglegar ferðir milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, en hann var ekki eins ánægður með mínar undirtektir hvað þetta atriði snerti. Ég tók það hins vegar alveg fram, að það væri mjög æskilegt að hafa daglegar ferðir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, þegar það þætti fært, a.m.k. á þeim árstíma, þegar það þætti öruggt, þ.e. frá því snemma á vori og þangað til seint á hausti. En skipstjórnarmenn hafa talið, að það þyrfti að athuga, hvort hægt væri að gera áætlun um daglegar ferðir að vetrinum til Þorlákshafnar. Það er einmitt þetta, sem ég skrifaði niður eftir hv. flm. Hann sagði: Það þarf að fylgja reglulegri áætlun. Það þarf að gera ítarlegri áætlun og fylgja henni. Það er þetta, sem skipstjórnarmenn telja vafasamt, að hægt sé að fylgja reglulegri áætlun, ef það væri um daglegar ferðir að ræða vetrarmánuðina. Þetta er mál, sem þarf að skoða og er í athugun, hvort það þætti fært að hafa daglegar ferðir með þessu skipi á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja yfir vetrarmánuðina, þótt allir teldu það æskilegt og vildu gera það. En það þurfa vitanlega að vera ferðir á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja eins oft og mögulegt er, líka að vetrinum til. En ég held, að það sé hyggilegast að fullyrða ekkert um það í dag, hvernig það verður framkvæmt. Það er í athugun.