21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (3742)

40. mál, siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. vildi gefa í skyn, að það hefði nú ekki alltaf verið tekið jákvætt undir till. um samgöngubætur á milli Vestmannaeyja og Íslands af sjálfstæðismönnum. (KGuðj: Rétt er það.) Og svo endurtekur hann þetta, þegar hann er kominn í sæti sitt, og segir: Rétt er það. Hann heldur víst, að hann sé kominn á framboðsfund í Vestmannaeyjum. Það er nú alveg ástæðulaust fyrir hv. 6. þm. Sunnl. að vera að misbrúka talfæri sín á þennan hátt hér í hv. Alþ. Allir hv. alþm. munu vita það, að sjálfstæðismenn hafa beitt sér fyrir samgöngubótum milli lands og Eyja, bæði á sjó og í lofti, og er alveg ástæðulaust að vera að orðlengja það meira nú. Það hefði verið eftir hv. 6. þm. Sunnl. að viðhafa svona orð úti í Vestmannaeyjum í trausti þess, að einhver tryði því þar. En hér í hv. Alþ. þýðir ekki að segja þetta, því að hv. alþm. þekkja miklu betur til þingsögunnar og vita, hvað hefur áður gerzt í þessu máli.

Það er náttúrlega út af fyrir sig ágætt að tala um höfn í Þjórsárósi í sambandi við till. um samgöngubætur við Vestmannaeyjar; og við skulum allir vera bjartsýnir, við skulum allir vona það, að þarna komi höfn. En getum við ekki um leið verið það raunsæir að viðurkenna, að það hljóti að taka nokkurn tíma, nokkur ár, og það sé ekki heppilegt fyrir Vestmanneyinga að bíða eftir samgöngubótum þangað til? Ég held, að við verðum að gera ráðstafanir við þær aðstæður, sem nú eru, til þess að gera samgöngubæturnar sem beztar við Vestmanneyinga og nota Þorlákshöfn. Það verðum við áreiðanlega að gera í nokkur ár, jafnvel þótt hv. 6. þm. Sunnl. réði einn hafnamálunum og legði í það við fyrsta tækifæri að byrja á höfninni í Þjórsárósi. En hv. þm. viðhafði ekki viðkunnanleg orð um hafnamálastjórnina og verkfræðinga okkar. Hann sagði, að hafnamálastjórn væri mjög hugmyndafátæk í sambandi við hafnargerðir, m.ö.o., kynni ekki til verka. Jú, hún vissi það, að það þyrfti að nota grjót í hafnargerð, það væri bezta efnið. Því hafði hafnamálastjórn gert sér grein fyrir. En hvernig hún notaði grjótið, það var ekki gert á réttan hátt. Þá vantaði verksvitið. Grjótið var notað með þeim hætti, að það var bara keyrt út í sjó og það var reynt að gera grjótgarða út í sjóinn. Þannig hafa hafnir okkar verið byggðar, eftir því sem hv. þm. upplýsti. En hv. 6. þm. Sunnl. hugsar sér að byggja höfnina við Þjórsárós með allt öðrum hætti. Það á að grafa hana inn í landið, af því að það hefur víða verið gert erlendis, t.d. í Hollandi og víðar. Og það er sennilegt, að þetta sé mögulegt. En það er langt frá því, að ég treysti mér til þess að gera till. um það, hvernig væntanleg Þjórsáróshöfn skuli gerð. Hv. 6. þm. Sunnl. getur hins vegar gert það. En ánægður mundi ég vera, ef ég sæi hafnargerð þarna, líklega alveg eins og hv. 6. þm. Sunnl.

Hvað rannsókninni líður, sem hv. þm. spurði um á síðasta þingi, þá er það að segja, að það var á s.l. vetri, að ég skrifaði vitamálastjóra og lagði fyrir hann að framkvæma rannsókn á hafnargerð í Þjórsárósi samtímis því, sem hafnargerð væri rannsökuð við Þykkvabæjarsand. En það hafði áður verið rætt um möguleika á því að gera höfn þar, og það virðist vera rétt að láta rannsókn á þessum tveimur hafnarstæðum fara fram samtímis, en það hlýtur að taka nokkurn tíma. Þetta bréf var ákveðið orðað og fyrirmæli um, að þessi rannsókn væri hafin, og ég geri ráð fyrir því, að þessi rannsókn sé byrjuð. En það er víst óhætt að fullyrða, að hún er ekki langt á veg komin. Og hvað sem hafnargerð í Þjórsárósi líður, þá er það öruggt, að í sambandi við sjóferðir á milli Vestmannaeyja og landsins verðum við að nota Þorlákshöfn næstu árin.