24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (3758)

48. mál, varanlegt slitlag á vegi á Reykjanesskaga

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt öðrum þm. Reykn. að flytja á þskj. 48 till. til þál., eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrn. að hefja nú þegar undirbúning að lagningu varanlegs slitlags á vegina til verstöðvanna á Reykjanesskaga og kanna jafnframt leiðir til fjármögnunar og gera till. til Alþ. þar að lútandi.“

Í grg. fyrir þessari till. koma fram þau rök, sem fyrir flutningi hennar eru af hálfu flm. Hér er um að ræða, að lagt verði slitlag á vegina út frá Reykjanesbraut til verstöðvanna á Reykjanesskaga, en eins og kunnugt er, eru þar verstöðvar, þar sem óhemjumikill afli berst á land á vertíðinni, oft á milli 25 og 30% þess afla, sem á land berst af bolfiski á vertíðinni. Í vegalögum er gert ráð fyrir því, að hægt sé að leggja varanlegt slitlag á hraðbrautir, svo fremi að í 10 ára áætlun sé umferðin orðin um 1000 bifreiðar á dag. Á þessum vegum, þ.e. af Reykjanesbrautinni til Grindavíkur, til Sandgerðis og út í Garð, mun talningin nú sýna, að á næstu 10 árum muni bifreiðafjöldinn, sem um þessa vegi ekur, fara upp í 1000 bifreiðar á sólarhring. Það liggur í augum uppi, að þegar aflinn er fluttur frá þessum verstöðvum til hinna fjölmörgu fiskverkunarstöðva hér við sunnanverðan Faxaflóa, þá hefur það að sjálfsögðu geysimikil áhrif á fiskinn, hráefnið sem slíkt, hvernig með hann er farið og eftir hvers konar vegum ekið er. Þegar nú kominn er svo góður vegur suður á Reykjanesskaga, þ.e. hin steypta Reykjanesbraut, þá sýnist ekki óeðlilegt, að freistað verði að leggja varanlegt slitlag á þá vegarspotta, sem eru frá Reykjanesbrautinni út í verstöðvarnar. Samkv. þeirri vegáætlun, sem nú gildir, er gert ráð fyrir því, að lokið verði við uppbyggingu þessara vega, þannig að hægt væri nú á næsta ári, árinu 1972, að hefja lagningu varanlegs slitlags á þessa vegi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þessa till. Hún skýrir sig sjálf, svo og sú grg., sem með henni fylgir, en þar er getið um, að sveitarstjórnirnar hér suður á Reykjanesskaga hafa haft mikinn áhuga á þessu máli og eru þess mjög hvetjandi, að í slíkt yrði ráðizt. Þá hefur mál þetta verið á dagskrá Fiskiþings og þar gerð einróma ályktun í þá átt, sem hér er lagt til, að farin verði.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. þessari verði vísað til fjvn.