17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

1. mál, fjárlög 1971

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, hefur nú talað fyrir till., sem hann hefur flutt, en ekki er komin úr prentun, um 6 millj. kr. fjárveitingu til læknamiðstöðvar á Patreksfirði. Út af þessu hafa orðið hér umr., og hv. 2. þm. Vestf. hefur gert grein fyrir sinni skoðun í þessu máli.

Nú vil ég skýra frá því, að í gærkvöldi kl. hálf tíu barst mér express-bréf frá sveitarstjóranum á Patreksfirði og i því segir m. a.:

„Hreppsnefnd Patrekshrepps samþykkir, að skrifað verði öllum þm. Vestf. og þess eindregið óskað, að sett yrðu lög um læknamiðstöð á Patreksfirði á þessu þingi og fjárveiting í því tilefni verði sett á fjárlög komandi árs.“

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að bréfið kemur til mín kl. 9.30 í gærkvöldi, þegar fjvn. er búin að ljúka öllum sínum störfum, að bréfið er dagsett daginn áður, 15. desember, en samþykktin, sem hreppsnefndin gerði, var gerð 3. desember. Ég held, að hv. þm. hljóti nú að sjá, að við höfum ekki haft góð gögn í höndunum, þm. Vestfjarða, þó að við hefðum viljað verða við þessari beiðni, sem við erum allir sammála um, að sé mikil nauðsyn að koma á læknamiðstöð á Patreksfirði. Og ég tala fyrir hönd okkar þm. allra, því að við höfum borið okkar ráð saman, að við erum því allir fylgjandi og viljum styðja það mál, en við getum ekki stutt það núna, eins og sakir standa, af því að það vantar öll skilyrðin til þess ekki aðeins það að samþykkja slíka till., heldur til þess að bera hana fram, og skal ég gera grein fyrir því nánar.

Patreksfjarðarlæknishérað hefur fyrir sitt leyti samþ., að komið verði á læknamiðstöð. En hitt læknishéraðið í Vestur-Barðastrandarsýslu, Bíldudalslæknishérað, hefur ekki samþykkt það nema með skilyrðum, m. a. skilyrðum um öruggar samgöngur að vetri til á milli þessara héraða. Hverjir eiga að fullnægja þeim skilyrðum? (HV: Heilbrigðismálastjórnin auðvitað.) Ég held, að það heyri undir samgrn., vegir í landinu. En hvet sem á að gera það, það skiptir ekki neinu höfuðmáli, þá er ekki búið að fullnægja þessu. Þeim er ófullnægt, skilyrðunum til þessa. En það er ekki nóg með þetta, að læknamiðstöðin er ekki til enn, hún er ekki formlega til enn, heldur er það svo, að það munu engin gögn, a. m. k. engin fullnægjandi gögn, liggja fyrir hjá landlækni um þetta mál heiman að, og ég held, að ég hafi tekið svo eftir hjá hv. þm. áðan. Hann hefur spurzt fyrir um það á skrifstofu landlæknis og hann hefur fengið þau svör, að þau gögn fyndust ekki. (Gripið fram í.) Ætli þau séu komin enn? En það hefur engin kostnaðaráætlun verið gerð um læknamiðstöðina. Það held ég, að sé öruggt. Það er engin staðfesting heilbrmrn. fyrir því, að læknamiðstöðin sé samþykkt, sem ekki er von, því að þessi gögn vantar. Það held ég, að þm. hljóti að skilja að við Vestf.-þm. höfum sannarlega áhuga á því að koma þessu máli fram, en hvernig eigum við að gera það, þegar svona er unnið að málinu? Ég held, að það hljóti allir að sjá, að það er útilokað. Það er ekki af óvilja okkar í garð læknamiðstöðvar á Patreksfirði og ætti ég að þekkja þetta alveg eins og hv. 9. þm. Reykv., þar sem ég á heima í næsta sveitarfélagi við Patreksfjörð. Okkur var ómögulegt að flytja nokkra till. um þetta núna vegna þess, hve gögnin voru ófullnægjandi, eða réttara sagt, þau voru engin, nema þetta eina bréf, og meira að segja það bréf er ekki komið til sumra Vestf.-þm. enn í dag. Þetta er ástæðan fyrir því, að það er erfitt fyrir okkur að samþykkja slíka till., sem væri alveg út í loftið. Að flytja till. um fjárveitingu til læknamiðstöðvar, sem er ekki til og alger vöntun á skilyrðunum til þess að geta veitt til hennar fé, það er til lítils. Hitt efast ég ekki um, áhuga hv. þm. í málinu. Hann þekki ég. En við erum allir sammála um þetta, Vestf.-þm., að þessi læknamiðstöð verði að koma upp. Og við munum vinna að því, að skilyrðunum sé fullnægt fyrst. Öðruvísi er þetta ekki hægt. Auðvitað eru hér mistök, eða við getum kallað það vettlingatök, hjá forustumönnunum fyrir vestan að undirbúa ekki málið betur en svona, senda þm. bréf daginn áður en á að ljúka atkvgr. um fjárlög og eftir að fjvn. hefur unnið sitt verk endanlega. Þetta held ég, að hv. þm. hljóti að skilja, og þeir munu þá sjá það, að við erum málinu fylgjandi, því máli að komið verði upp sem allra fyrst læknamiðstöð á Patreksfirði. En við getum ekki unnið að málinu, þegar svona er í pottinn búið heima fyrir.