17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (3763)

53. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Efni þessarar till. er að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er m.a. tryggi henni öruggan fjárhagsgrundvöll og kveði á um hljómleikaferðir hennar um landið. Stefnt skal að því, að frv. um þetta efni verði lagt fyrir næsta þing.

Eins og kemur fram í grg. till., er Sinfóníuhljómsveit Íslands 20 ára gömul um þessar mundir. Hún var á sínum tíma stofnuð af fjórum aðilum, þ.e. ríkinu, Reykjavíkurbæ, Ríkisútvarpinu og Þjóðleikhúsinu, og starfaði um 10 ára skeið sem sjálfstætt fyrirtæki undir stjórn sérstaks hljómlistarráðs, sem áðurnefndir aðilar munu hafa tilnefnt. Árið 1961 varð sú breyting á stjórn hennar og rekstri, að þetta hvort tveggja var falið Ríkisútvarpinu, en hins vegar héldu sömu aðilar og áður áfram að skipta kostnaði á milli sín eftir ákveðnu hlutfalli. En enginn skriflegur samningur er til um þessa skiptingu, og þess vegna getur hvaða aðili sem er dregið sig til baka, hvenær sem honum þóknast. Það er því óhætt að segja, að Sinfóníuhljómsveitin byggi á mjög ótraustum fjárhagslegum grundvelli. Hún er hins vegar orðin stórt og dýrt fyrirtæki, eins og sést á því, að á þessu ári mun rekstrarkostnaður hennar ekki verða minni en 25–26 millj. kr. og á næsta ári má reikna með því, að rekstrarkostnaður hennar geti orðið um 30 millj. kr. sökum þeirra launahækkana, sem hafa orðið á þessu ári og verða þó líklega meiri á næstunni, ef það verður almenn hækkun hjá opinberum starfsmönnum, því að laun hljóðfæraleikaranna miðast við það. Ég held, að allir geti orðið sammála um, að það sé fjarri öllu lagi, að menningarstofnun, eins og Sinfóníuhljómsveitin er, hvíli á jafnótraustum grunni og hér er rakið og það séu ekki til nein lagafyrirmæli um starfsemi hennar. Það er einnig mikilvægt, að unnið sé að því, að það séu fleiri en þeir, sem búa hér í þéttbýlinu við Faxaflóa, sem geti notið hljómleika hennar, og það sé því tryggt, að hún geti farið a.m.k. öðru hverju í hljómleikaferðir um landið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.