17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

1. mál, fjárlög 1971

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. bar ég fram nokkrar brtt. við fjárlagafrv. ásamt hv. 4. þm. Austf., 1. þm. Austf. og 5. þm. Austf. Þessar till. fjölluðu um fjárframlög til fyrirhleðslna og til hafnargerða á þremur stöðum á Austurlandi. Við atkvgr. eftir 2. umr. voru þessar till. teknar aftur í því skyni, að hv. fjvn. gæfist kostur á að athuga þau atriði, sem þarna voru borin fram. Nú kemur í ljós, að hv. fjvn. hefur tekið upp í till. sínar fyrirhleðslu við Hofsá í Álftafirði, sömu fjárhæð og við lögðum til, að veitt yrði í það verk, og vil ég fyrir mitt leyti þakka hv. fjvn. fyrir það. Hins vegar viljum við leyfa okkur að taka upp þessar till., sem teknar voru aftur eftir 2. umr., til þess að þessar till. komi til atkvgr. áður en fjárlög verða samþ., og þetta eru till. um framlag til fyrirhleðslu í Jökulsá á Dal, 200 þús. kr. og hækkað verði framlag til fyrirhleðslu í Norðurdalsá í Breiðdal upp í 100 þús. kr. Enn fremur, að veitt verði til hafnargerðar á Borgarfirði eystra 2 millj. kr., á Breiðdalsvík 2 millj. kr. og á Fáskrúðsfirði 1 millj. kr. Ég gerði grein fyrir þessum málefnum við 2. umr. og sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka það eða lýsa þessum verkefnum nánar heldur en þá kom fram, en vísa aðeins til þess, sem ég tók fram um þetta við 2. umr.

Þá höfum við sömu þm. leyft okkur að bera fram till. til hækkunar á fjárveitingu til hafnargerðar á Djúpavogi, þannig að í stað 1100 þús. komi 4 millj. Það er nauðsynlegt að gera allverulegar hafnarbætur á Djúpavogi, og verður aðalverkefnið að gera garð nokkuð út frá höfninni, sem nú er, til skjóls og til viðlegu fyrir skip, sem athafna sig á hafnarsvæðinu. Þessar 1100 þús., sem gerð var till. um að veita í fjárl. af hv. fjvn., nægja engan veginn til þess að vinna þetta verk, heldur munu eingöngu hrökkva til þess að sprengja smásker eða klett, sem er til tafar og fyrirstöðu við að gera garðinn, og e. t. v. nægir þessi fjárhæð til þess að gera í höfninni einhverja dýpkun. Við teljum þörf á, að meira sé unnið að þessu verkefni og leyfum okkur því að bera fram þessa till. til hækkunar.

Og loks leggjum við til, að inn í kaflann um hafnargerðir bætist nýr liður, þ. e. til hafnarbóta á Reyðarfirði 3 millj. kr. Á Reyðarfirði hefur verið nokkur undirbúningur að því á undanförnum árum að gera nýtt átak í hafnargerð og fyrir nokkru var keypt efni til hafnargerðar í sambandi við þetta fyrirhugaða verk, en enn þá hefur ekki verið ráðizt í að nota það efni, sem keypt var, og berum við því fram þessa till. með það fyrir augum, að á næsta ári verði kleift að hefjast handa um þetta verk.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessi efnisatriði við þessa umr.