29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

76. mál, áætlun um skólaþörf landsmanna

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. forseta fyrir það að halda fund í dag, því að það er mikið af málum, sem liggja fyrir og þyrftu að komast til n., og eitt þeirra mála er þessi þáltill., sem hefur legið alllengi hér fyrir þinginu, og er nú kannske ekki alltaf forseta að saka um það, heldur mig, því að ég hef stundum verið fjarverandi, þegar þetta mál hefur verið á dagskránni. En það er áreiðanlega ástæða til þess fyrir okkur þm. að fagna því, að mál skuli vera tekin meira fyrir nú og örar í Sþ. heldur en oft hefur verið áður.

Við flytjum þessa þáltill. nokkrir þm., og ég vil, með leyfi forseta, lesa hana. Hún hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera heildaráætlun um skólaþörf landsmanna næstu 10–15 ár, bæði að því er varðar almenna skóla og hvers kyns sérskóla og aðrar fræðslustofnanir, enda nái áætlunin jafnt til skóla, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, sem hinna, sem ríkið stendur eitt undir eða nú eru reknar af einkaaðilum. Skal áætlun þessi m.a. verða grundvöllur undir gerð framkvæmdaáætlana á sviði skólabygginga. — Skal áætlunargerðinni lokið eigi síðar en einu ári eftir samþykkt ályktunar þessarar. Ber ríkisstj. að leggja áætlunina fyrir Alþ.“

Eins og fram kemur hér í þessari till., er það markmið hennar að kanna raunverulega þörf þjóðfélagsins fyrir skóla á næsta áratug eða næstu 15 árum, ef þess er kostur. Og þessi könnun, sem við höfum þarna í huga, er hugsuð sem eins konar spá um skólaþörf landsmanna í náinni framtíð. Ég vil sérstaklega taka það fram, að hér er ekki beinlínis átt við framkvæmdaáætlanir, heldur verði um að ræða eins konar grundvallarathugun á því, hver sé skólaþörfin, og þá að slík athugun verði grundvöllur undir það, að hægt sé að gera afmarkaðar framkvæmdaáætlanir. Og ég vil líka minna á það, eins og kemur fram raunar í till. sjálfri, að það er gert ráð fyrir, að þessi athugun nái til allra skóla og fræðslustofnana, en ekki aðeins til hinna almennu skóla eins og barna- og unglingaskólanna eða gagnfræðaskólanna eða grunnskóla, skyldunámsskóla eins og nú er farið að kalla þá, heldur yfirleitt til allra þeirra fræðslustofnana, sem líklegt er, að við þurfum á að halda. Þess vegna verður þetta að vera ákaflega víðtæk heildaráætlun, sem nái til hvers konar sérskóla, til menntaskóla, til þarfar um verzlunarskóla, háskóla, um fullorðinsfræðsluna, um skólasjónvarp, skóla fyrir afbrigðilega nemendur af ýmsu tagi, og þannig mætti lengi upp telja. Ef slík áætlun lægi fyrir, þá væri mun auðveldara að gera sér grein fyrir því stóra verkefni að mæta vaxandi menntunarkröfum, sem nú eru alveg augljósar og hljóta að fylgja næstu áratugum og við stöndum frammi fyrir.

Á síðustu árum hefur krafan um aukna menntun á öllum sviðum orðið æ háværari, og áhrifa hennar gætir nú orðið mjög mikið, vil ég segja, á fjárveitingar Alþ. og framkvæmdir ríkisins, en þó hygg ég, að hér sé aðeins um að ræða forsmekk þess, sem verður á næsta áratug og þar á eftir. Ég er sannfærður um, að þáttur skólabygginga í heildarfjárfestingu þjóðarinnar á eftir að vaxa mikið frá því, sem nú er, og þess vegna er m.a. frá efnahagslegu sjónarmiði, frá fjármálalegu sjónarmiði ríkisins, brýn nauðsyn á því, að þessum málum sé gefinn alveg sérstakur gaumur og ekki síður en ýmsum öðrum málum og það sé reynt að áætla þessi mál nokkuð fram í tímann, að svo miklu leyti sem það er hægt.

Það er nú þessa dagana mikið rætt um skólamálin og stefnumörkun í mennta- og menningarmálum, og það er alveg höfuðnauðsyn að gera sér grein fyrir eðlilegum þörfum á vettvangi skólamála yfirleitt, þ. á m. skólabyggingamála um lengri eða skemmri tíma. Menn verða að reyna að gera sér grein fyrir því, hvaða kröfur nútímaþjóðfélag gerir á sviði skólamenntunar og fræðslustarfs yfirleitt og hvað það kann að kosta þjóðfélagið peningalega. Ég vil í sambandi við þetta geta þess, að skólakostnaðarlögin, sem nú gilda, gera ráð fyrir því, að menntmrn. láti gera framkvæmdaáætlanir um skólabyggingar fyrir allt landið. Annars vegar er talað um áætlun, sem taki til 10 ára tímabils, og hins vegar árlega framkvæmdaáætlun, sem á að fylgja till. til fjárveitinga á fjárlögum. En nú er það svo, að skólakostnaðarlögin taka ekki til allra skóla, heldur tiltekinna flokka þeirra. Og það er því hætt við, að framkvæmdaáætlanir um skólabyggingar samkv. skólakostnaðarlögum fjölluðu aðeins um þá skóla, sem lögin ná til, og þá er augljóst, að þá yrði fjöldinn allur af nauðsynlegum skólum og fræðslustofnunum út undan í áætlunargerðinni. Það er m.a. tilgangur okkar flm. með þessari till. að tryggja, að gerðar verði heildaráætlanir um skólaþörf, en ekki eingöngu áætlanir, sem ná yfir tiltölulega þröngt svið eða a.m.k. mjög afmarkað svið.

Ég skal nú ekki, herra forseti, fara fleiri orðum um till., en ég tel ákaflega mikilsvert, að hún fái athugun í n., eftir að umr. er lokið nú, og ég hygg, að það væri eðlilegt, að þetta mál yrði til meðferðar í fjvn. vegna eðlis málsins, og mun leggja það til, að málinu verði vísað til fjvn.