29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3831)

87. mál, stjórnkerfi sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég kem ekki í ræðustól til þess að andmæla þessari till., nema síður sé, en tilbúnaður hennar finnst mér vera nokkuð einkennilegur, með nokkuð einkennilegum hætti, því að mér er kunnugt um, að hv. 1. flm. till. — um hina tvo veit ég ekki — vissi, að þessi endurskoðun var hafin. Og meginefni þeirrar till., sem hér er flutt, var þegar komið af stað, svo sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vestf. Þetta er út af fyrir sig aukaatriði í málinu, en maður sér ekki alveg tilgang þingmannsins. Ég tel nokkuð víst, að hann hafi vitað um nefndina, sem hóf störf sín 26. maí s.l. En eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vestf., þá skipaði rn. þessa þriggja manna nefnd með fulltrúum frá fiskimálaráði, Fiskifélagi Íslands og rn. til þess að gera könnun og till. um heildarstjórn sjávarútvegsmála, m.a. á skipulagi innbyrðis og tengslum stjórnarstofnana. Nefndina skipa, eins og hv. þm. tók einnig fram, Jón L. Arnalds ráðuneytisstjóri, sem jafnframt er formaður hennar, Már Elísson fiskimálastjóri og starfsmaður eða framkvæmdastjóri fiskimálaráðs. Nefndin gerði sér fljótlega starfsáætlun, þar sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir, að kannað verði, hvort það stjórnkerfi, sem íslenzkur sjávarútvegur býr nú við, sé fullnægjandi. Í þessu skyni hefur verið safnað saman öllum lögum og reglugerðum, sem sjávarútveg snerta með einum eða öðrum hætti. Verður það safn tekið til athugunar og niðurröðunar, til þess að skýrar liggi fyrir um skipulag, verkefni og starfsemi hverrar stofnunar. Nefndin hefur þegar aflað sér gagna um heildarstjórn sjávarútvegsmála í öðrum löndum, og hafa nm. m.a. haft til hliðsjónar yfirlitsrit Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu um þjónustu, sem hið opinbera veitir sjávarútveginum í aðildarríkjum stofnunarinnar. Nefndin hefur gert athugun á stöðu einstakra stofnana í sjávarútvegi gagnvart Alþ., ríkisstj. og rn. svo og athugað þátt stofnana utan sjávarútvegs í töku ákvarðana í málum, er snerta sjávarútveginn í heild eða einstakar greinar hans. Gerð hafa verið drög að framtíðargreiningu verksviðs og starfa og framtíðarskipan rn. Næst tekur við athugun á starfsemi Fiskifélags Íslands. Að öðru leyti hefur nefndin með hliðsjón af heildarskipulagningu einkum beint athygli að fjórum höfuðþáttum, þ.e. fjárfestingar- og rekstrarmálum, eftirliti með hráefnisöflun og framleiðslu, markaðsmálum og rannsókna- og upplýsingastarfsemi. Að lokum tel ég svo rétt að taka fram, að verkefni nefndarinnar eru þess eðlis, að ekki má búast við verulega skjótri niðurstöðu, sem á því sést, að nefndin hefur nú um níu mánaða skeið starfað, að ég tel mjög ötullega, að því verkefni, sem þál. felur í sér, og hefur ekki enn talið sér fært að skila lokaniðurstöðum, en stefnir að því, eins og áður hefur komið fram í umr., að ljúka þessu verki fyrir vorið. Ég tel því, eins og hv. 2. þm. Vestf., að þessi þál. sé óþörf, þar sem meginefni þess, sem hún fjallar um, er þegar komið í framkvæmd, og ég vænti þess, að það sé ekki dregið í efa af hv. Alþ., að þarna eigi þeir aðilar hlut að, sem gerst ættu til að þekkja. Alþ. mun svo á sínum tíma, þegar niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir, fjalla um þær og gera á núverandi skipulagi þær breytingar, sem nauðsynlegar kunna að teljast að mati meiri hl. Alþ., þegar till. liggja fyrir.

Það er enginn vafi á því, að sú afstaða Alþ. að leysa upp hið gamla atvinnumálarn. og skipta því í fleiri rn., var rétt. Ég vænti þess, að sú endurskoðun, sem nefndin hefur nú með höndum, leiði það í ljós, að þessi ákvörðun Alþ., sem tók gildi um s.l. áramót, var rétt. Það er og tvímælalaust rétt, sem hv. 2. þm. Vestf. lagði mikla áherzlu á, að hið gamla skipulag Fiskifélags Íslands, sem nánast tilheyrir fyrri öld, hefur á margan hátt gengið sér til húðar með tilkomu nýrra samtaka, sem fjalla um einstakar greinar í sjávarútvegi. Einnig var tvímælalaust rétt sú ákvörðun meiri hl. Alþ. að stofna til fiskimálaráðs, þar sem öllum þessum aðilum gefst kostur á að skiptast á skoðunum og gera sameiginlegar till. um hina einstöku þætti sjávarútvegsmála. Það ber síður en svo að gera lítið úr starfi fiskimálaráðs, því að ég álít, að það hafi verið merkt spor og stigið í rétta átt, þegar Alþ. ákvað að stofna til þess, þó að áþreifanlegur árangur sé ekki fyrir hendi í öllum þeim greinum, sem æskilegt væri, enda hefur sjálfsagt enginn hv. alþm. búizt við því, að gjörbylting ætti sér stað á svo skömmum tíma. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram við umr. um þessa þál., þannig að sú n., sem fær málið til meðferðar, viti, að byrjað var að fást við meginefni hennar fyrir níu mánuðum.