29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (3832)

87. mál, stjórnkerfi sjávarútvegsins

Flm. (Jón Skattason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim ræðum, sem hér voru haldnar af hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Vestf. Ég fagna þeim undirtektum, sem tili. þessi eða efni hennar fékk í ræðum þeirra beggja, þó að ég geti ekki fallizt á niðurstöður þeirra í lokin, að þótt efni till. sé ágætt út af fyrir sig, þá beri ekki að samþykkja hana, vegna þess að starfandi sé sérstök nefnd, sem sé að athuga þessi mál. Það er rétt, að nokkru áður en ég flutti þessa till., þá hringdi ég í ráðuneytisstjóra sjútvrn., Jón Arnalds, í þeim tilgangi að fá upplýsingar hjá honum um starfslið í sjálfu rn. Þær upplýsingar, sem er að finna í grg. till., um fjölda starfsmanna í sjútvrn., eru frá honum komnar. Ég sagði honum þá, af hverju ég væri að spyrja um þetta, og þá sagði hann mér, að fyrir nokkrum mánuðum hefði ráðh. skipað tilgreinda þrjá menn í nefnd til þess að athuga svipað verkefni og ég var með í huga. Hann gaf mér einnig upp nöfn þeirra manna, sem þessa nefnd skipuðu, og þá sá ég strax í hendi mér, að hér var eingöngu um embættismenn að ræða. Í nefndinni var enginn maður starfandi sérstaklega í útvegi eða fiskiðnaði, sem þó eiga mjög mikið undir því, að stjórnkerfi þetta sé byggt upp á þann bezta máta, sem vera má fyrir þessar atvinnugreinar. Ég er ekki með þessu að kasta á nokkurn hátt rýrð á þá ágætu menn, sem þessa nefnd skipa. Ég þekki suma þeirra persónulega mjög vel, og ég veit t.d., að Már Elísson fiskimálastjóri er gjörkunnugur málefnum sjávarútvegsins sökum langs starfs í hans þágu. En ég veit líka, að sumir þessara manna a.m.k. hafa mjög mikið að gera, og ég þykist hafa haft upplýsingar um það á þeim tíma, þegar ég hringdi í rn. og spurði um þessa nefnd og starfshætti hennar, að verkefninu hefði miðað mjög lítið áfram og væri mjög skammt á veg komið. Þegar af þessari ástæðu, að ég tel, að í nefndinni þurfi að sitja fleiri menn en embættismenn, að í henni þurfi að vera starfandi menn bæði frá fiskiðnaðinum og eins frá útveginum, þá taldi ég eðlilegt, að ég hreyfði þeirri till., sem ég hef hér gert.

Hv. 2. þm. Vestf. gat um það áðan, að hann teldi vafasamt að setja lánasjóðina á of fáar hendur. Ég held, að það sé ekki ýkja mikil hætta því samfara í sambandi við stofnlánasjóði sjávarútvegsins. Þeir starfa eftir ákveðnum lögum, lánveitingar þeirra fara flestar og að langmestu leyti eftir lögbundnum reglum, þannig að ég tel, að þó að allar þessar lánveitingar væru á hendi eins aðila, þá væri ekki ýkja mikil hætta á því, að hann mundi fara illa með það vald, sem hann hefði í sambandi við stofnlánaveitingar til sjávarútvegsins. Þessar styrkveitingar, sem hafa verið í höndum fiskimálaráðs, eru mjög lítill þáttur í heildarlánveitingum Fiskimálasjóðs, eru mjög lítill þáttur í heildarfjármögnun og lánveitingum til sjávarútvegsins, og ég held, að út af fyrir sig mundi það engin vandræði skapa með útdeilingu á þessum styrkjum. Það væri hægt að hugsa sér bæði Fiskifélagið og eins Fiskveiðasjóð sem líklegan aðila til þess að annast þessi verkefni annaðhvort í sameiningu eða hvor fyrir sig.

Ég vil aðeins að endingu segja það, að mér finnst, að ef menn vilja ekki fallast á að samþykkja þessa þáltill., þá ættu þeir hv. ræðumenn, sem hér töluðu á undan mér, að geta samþ., að þessi svo kallaða embættismannanefnd, sem er að vinna að endurskoðun á stjórnkerfi sjávarútvegsins, verði útvíkkuð þannig, að til viðbótar þeim mönnum, sem fyrir eru í henni, komi a.m.k. tveir menn, annar skipaður frá útvegi og hinn þá t.d. frá fiskiðnaðinum, og ég vildi nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. sjútvrh., hvort hann sæi nokkuð því til fyrirstöðu, að sá háttur yrði upp tekinn, að þessum mönnum yrði bætt við embættismannanefndina.