29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (3835)

87. mál, stjórnkerfi sjávarútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þessi till. um heildarendurskoðun á fyrirkomulagi stjórnkerfis sjávarútvegsins sýnist mér fara í rétta átt. Hún fer í þá átt, að það beri að endurskoða stjórnkerfi okkar grundvallaratvinnuvegar með það fyrir augum að færa saman þær fjöldamörgu stofnanir, sem í þjónustu þessarar atvinnugreinar eru. En þær eru eiginlega mýmargar og sumar með lítt aðgreinanleg verkefni. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þetta er í raun og veru sjúkdómseinkenni á okkar þjóðfélagi. Það er ekkert sérstakt um sjávarútveginn. Það er allt saman bútað og bitað niður í alls konar skrifstofur og stofnanir, sem margar hverjar, tvær eða þrjár, eru að vinna að sama verkefninu. Á þessu höfum við engin efni, og þar að auki vinnast verkin verr og skipulagslausar með svona fyrirkomulagi. Ég er alveg viss um, að það er rétt, sem hér er lögð áherzla á í till., að það eigi að framkvæma endurskoðun á þeim ríkjandi lagafyrirmælum, sem um þessi efni gilda, með það fyrir augum að færa stjórnkerfið saman, gera það þar með einfaldara, ódýrara og virkara. Ég held því, að það sé meginefni þessa máls, hvort sú nefnd, sem hæstv. ráðh. hefur skipað, hefur fengið það verkefni, sem þessi till. miðast við. Ef svo er, þá má segja, að framkvæmdin sé í fullum gangi og till. fullnægt, þó að ég hins vegar líti ekki fram hjá því, að ég kynni betur við og treysti betur á, að verkið væri vel af hendi leyst fyrir sjávarútveginn, ef í nefndinni ættu sæti starfandi aðilar úr sjávarútvegi og fiskiðnaði, en ekki embættismenn eingöngu, hversu ágætir sem þeir eru. Og ég get ekki trúað því, að hæstv. ráðh. væri neitt í vandræðum með að finna menn úr fiskiðnaði og sjávarútvegi til þess að taka þátt í slíku nefndarstarfi eða að gera upp á milli þessara mörgu aðila. Slíkur vandi hefur verið yfirstiginn af ráðh. fyrr og ekki verið hopað í það vígi að hafa heldur engan úr þeirra röðum og losna við vandann þannig og skipa í þetta eintóma embættismenn til þess að leysa vandann. Það er ekki hin rétta lausn.

Það hefur ekki komið fram hér, hvert hið afmarkaða verkefni þeirrar þriggja manna nefndar, sem nú starfar, er, og það vil ég fá að vita. Miðast verkefni nefndarinnar, sem nú er að starfi, við það verkefni, sem afmarkað er hér í þessari till:? Ég tel það stefna í rétta átt, og svo framarlega sem nefndin á ekki að vinna að því að samhæfa þetta og fækka stofnunum og gera þannig skipulagið einfaldara, ódýrara og virkara, þá er a.m.k. full ástæða til að samþykkja þessa till.

Ég sagði það áðan, að ég teldi þetta eiginlega eins og mý á mykjuskán, þegar við fáum mynd af því, hversu margar stofnanirnar eru. Auk sjútvrn. er það Fiskifélag Íslands, fiskimálaráð, ýmsar tæknilegar stofnanir, Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, og af lánastofnunum Fiskveiðasjóður og Fiskimálasjóður. Með öryggismál sjávarútvegsins fer Siglingamálastofnunin. Svo er það verðlagsráð sjávarútvegsins, Fiskmatið o.fl. Þetta er eins og mý á mykjuskán, enda alveg í samræmi við það, sem hefur gerzt á síðustu árum í okkar þjóðfélagi. Það er alltaf verið að unga út nýjum skrifstofubáknum og nýjum stofnunum af lítt þörfu og stundum alóþörfu máli. Við höfum rannsóknarstofnanir hingað og þangað út um borg og bý, ein til þess að rannsaka líf í ósöltum vötnum og önnur í söltum vötnum og þar fram eftir götunum. Ekkert má þetta vera saman. Svona mýgrútur stofnana var af orðhögum manni fyrir nokkrum árum kallaður veðramót, og þau eru orðin mörg veðramótin hjá okkur, en þau eru nokkuð dýr, og þau eru ekki þar eftir afkastamikil. Nei, það væri áreiðanlega ástæða til þess að líta á fleiri stofnanir og fyrirtæki í þjónustu okkar atvinnulífs og fækka þeim, leggja yfirleitt áherzlu á að fækka þeim, færa verkefnin saman og gera þau ódýrari og jafnframt líklegri til þess að bera jákvæðan árangur. Þessi fjölmennu ráð, sem hafa verið sett á fót, eins og fiskimálaráð og iðnaðarráð og ég veit ekki, hvað þau heita öll, ég held, að þau skili heldur litlum hlut að landi flest. Um Fiskifélag Íslands, sem er mjög gömul stofnun, er það að segja, að um það eru ekki til nein lög. Fiskifélagið starfar án nokkurrar lagasetningar. Það eru bara til félagslög þar. Og ég er alveg sannfærður um það, að það hefði verið affarasælla fyrir sjávarútveg og fiskiðnað að efla Fiskifélagið, setja um það landslög og ákveða því víðtækt og þýðingarmikið verkefni með landslögum, heldur en að setja aðra stofnun við hliðina á því til þess að vinna að sumum verkefnum þess. Það er ég sannfærður um.

Ég orðlengi ekki frekar um þetta. Ég er fylgjandi þessari till., tel, að hún eigi erindi, þó að þriggja manna nefndin starfi, og það væri æskilegra að bæta við mönnum frá sjávarútvegi og fiskiðnaði í viðbót við þá þrjá embættismenn, sem starfið hafa hafið, og leysa það sem fyrst með það fyrir augum, sem í till. felst, að færa þessar mörgu stofnanir saman og gera þannig kerfið einfaldara, virkara og ódýrara.