29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (3836)

87. mál, stjórnkerfi sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. meira, enda óþarft. Hér er deilt um keisarans skegg. Ég stend hér upp í þriðja sinn til þess að skýra frá því, að vinna við verkefni þau, sem í þáltill. felast, var hafin fyrir níu mánuðum. Það er meginverkefni þessarar nefndar að vinna að því, sem í till. felst. Og svo stendur hér þm. eftir þm. upp til að spyrja að þessu sama. Ég tel ástæðu til þess að undirstrika þetta. Verkefnin eru þegar í höndum þessarar nefndar. Alþ. ákvað með lagasetningu að stofna til svo kallaðs fiskimálaráðs, þar sem allir þættir sjávarútvegsins eru dregnir inn í. Ég skal lýsa því yfir sem minni skoðun, að meðan þessi mál eru undir minni stjórn, verður hver einstök till. þessarar nefndar rædd í fiskimálaráði, þar sem fulltrúar sjómanna, útgerðarmanna, vinnslustöðva og allra þeirra aðila, sem tengdir eru sjávarútvegi, fá um þær að fjalla. Það ætti að vera trygging fyrir því, að það verði ekki bara embættismannaniðurstöður, sem út úr nefndarstarfinu koma, heldur till. þeirra manna, sem gerst til þekkja. Þar er fulltrúi Alþýðusambands Íslands, þar er fulltrúi sjómannasamtakanna, vinnslustöðvanna og allra þeirra, sem nánast eru tengdir þessum málum. Fyrir því ætti að vera fengin sú trygging, sem hv. flm. vilja fá með því að bæta við tveimur mönnum í nefndina. Og svo er um hnúta búið, ef samkomulag næst í þeirri stofnun um niðurstöður nefndarinnar, að fram kemur álit þessara aðila. Hitt er alveg rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, og eins hv. 2. þm. Vestf., að það hafa orðið á s.l. 80–90 árum stórkostlegar breytingar á öllu starfi, félagsstarfi, framleiðslu og fiskveiðum, og þetta hefur kallað fram ný samtök, nýjar skrifstofur, og verkefnin hafa breytzt. En þetta er megintilgangur með stofnun þessarar nefndar, að færa verkefnin saman, samhæfa þau og gera þau ódýrari í framkvæmd, þannig að allir viti raunverulega, hver hönd í þessum útvegi viti, hvað hinar eru að gera. Það sá enginn við stofnun Fiskifélags Íslands um s.l. aldamót, hver þessi þróun yrði. Þetta er eðlileg tímanna rás. Hlutirnir hafa breytzt, og endurskipulagning verður að fara fram á þeim. É,g ítreka það því einu sinni enn, til þess að það fari nú ekkert á milli mála, að nákvæmlega sama verkefni og í till. felst hefur umræddri nefnd verið falið. Til viðbótar þessu skal ég bæta því við, að till. nefndarinnar skulu ræddar í fiskimálaráði, þar sem allir hlutaðeigandi aðilar eiga sinn fulltrúa.