17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

1. mál, fjárlög 1971

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil enga sérstaka yfirlýsingu gefa í því sambandi, hvort ég muni nota heimildina eða nota hana ekki. Það fer auðvitað alveg eftir atvikum, og þó að ég segði þessa skoðun mína hér, þá felst heldur ekki í því, að ég muni ekki nota heimildina. En það vantar margt í þetta efni til að gera það upp við sig, hvort heimild er notuð eða ekki, og það geta verið margar heimildir samþykktar í fjárl., sem ekki eru notaðar, vegna þess að það vantar skilyrði til þess að slíkt sé hægt. Ég t. d. tel ekki koma til mála að nota þessa heimild nema því aðeins, að það sé hægt að setja öruggar tryggingar fyrir þeirri ríkisábyrgð, sem hér er um að ræða, og hér sé eðlilegt kostnaðarhlutfall af heildarkostnaði þess fyrirtækis, sem hér á hlut að máli, og ýmis önnur slík atriði, sem koma til greina, þannig að ég tel ekki tímabært á þessu stigi að vera að gefa neina yfirlýsingu um það, hvorki til né frá.