29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (3854)

91. mál, innkaup landsmanna

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 95 að flytja till. til þál. um athugun á hagkvæmni innkaupa fyrir landsmenn. Tillgr. sjálf er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun, í samráði við launþega- og neytendasamtökin, á hagkvæmni innkaupa til landsins s.l. þrjú ár, að því er tekur til verðs og gæða, og birta almenningi niðurstöðurnar.“

Það er staðreynd, sem allir landsmenn vafalaust þekkja, að við verjum stærri hluta af þjóðartekjum okkar en flestar ef ekki allar menningarþjóðir fyrir vestan okkur og austan til þess að flytja inn nauðsynjavarning til landsins. Við höfum sjálfir ekki enn þá komizt það langt í sambandi við iðnað t.d. hér á landi, að við getum framleitt mikið af vörum, sem við notum, og þurfum því að flytja þær inn, og ýmsar aðrar sérástæður okkar gera það að verkum, að við verðum um nokkuð langa framtíð ábyggilega mjög háðir innflutningi. Það lætur því að líkum, að það skiptir mjög verulegu máli fyrir hag landsmanna, hvernig staðið er að því að gera innkaup til landsins. Ástæðan til þess, að þessi till. er flutt, er sú, að ég las í Morgunblaðinu 18. sept. á s.l. ári grein eftir einn af stærri innflytjendum þessa lands, sem vakti athygli mína mjög verulega, og skal staldrað lítils háttar við hana, af því að ég þóttist vita, að þar væri um fjallað af manni, sem nokkuð hlyti að þekkja til þess, sem hann var að skrifa um. Þá fæddist sú hugmynd, hvort ekki væri rétt fyrir Alþ. að láta sig þetta mikilvæga mál, hagkvæmni innflutningsins til landsins, nokkru skipta og ákveða að rannsaka hagkvæmni innflutnings ákveðins tímabils, að því er tekur bæði til verðs og gæða, og birta síðan almenningi niðurstöðurnar. Ég tel, að hér sé um mjög brýnt hagsmunamál allra að ræða, og ég vil taka það fram, að í flutningi þessarar till. felst ekki neinn broddur um það, að ég telji innflutningsverzlunina sjálfa ekki fyllilega nauðsynlegan atvinnuveg fyrir landið. Þvert á móti. Ég er sannfærður um, að innflutningsverzlunin er mjög nauðsynlegur þáttur í okkar atvinnulífi, en ég tel, að gera megi þá kröfu til innflutningsverzlunarinnar, sem gerð er a.m.k. til sumra annarra atvinnugreina, fyrst og fremst þeirra, sem flytja út og verða að heyja samkeppni á erlendum mörkuðum um söluvarning sinn, að hún sé rekin á svo hagkvæman hátt fyrir landsmenn sem mögulegt er. En grein þessa innflytjanda gaf síður en svo tilefni til þess að ætla, að svo væri. Og hann er ekki sá eini, sem heyrzt hefur halda því fram, að mjög verulegar fjárhæðir mætti spara í þjóðarbúskap okkar, ef meiri hagkvæmni gætti í sambandi við innflutningsverzlunina.

Ég skal ekki orðlengja þetta mikið. Ég tel þó rétt að víkja að nokkru, sem raunar kemur fram í grein þessari, sem birt er sem fskj. með þál. Greinarhöfundur nefnir þar dæmi um innflutning á járni á árinu 1969, sem hann tekur upp úr hagskýrslum. Ber hann þar saman innkaupsverð á 20 þús. tonnum af járni frá fjórum löndum, sem hann kallar a, b, c og d. Munurinn á innkaupsverði á 20 þús. tonnum járns á árinu 1969, eftir því hvort þau innkaup eru gerð frá landinu a eða landinu d, er 248 millj. kr. Og hann segir svo í greininni:

„Til glöggvunar skal bent á, að fyrir þessar 248 millj. kr. mætti kaupa tuttugu 50 tonna fiskibáta eða tíu 100 tonna fiskibáta eða 150 3–4 herbergja íbúðir eða 1000 dráttarvélar, og þannig mætti lengi telja.“

Nú geri ég ráð fyrir því, að þessi innflytjandi beri hér saman járn af sambærilegum gæðum, annað finnst mér ósennilegt, en ef svo er, þá er hér um svo gífurlegan verðmun að ræða, að með ólíkindum er, og þyrfti að fá upplýst, hvernig á þessu gæti staðið.

Við vitum, að til þess að tryggja það, að Íslendingar selji ekki útflutningsvörur sínar á undirverði, þá er í íslenzkum lögum ákveðið, að fylgzt sé með því verði, sem fyrir útflutninginn fæst hverju sinni. Stjórnvöld hafa heimild til og hafa enda stundum gert að banna útflutning ákveðinnar vöru, þegar talið hefur verið, að verðlag hennar væri óeðlilega lágt. Þetta er vafalaust hagkvæmt og eðlilegt, og ég fæ ekki séð, að nein rök mæli því sérstaklega í gegn, að einhverju svipuðu eftirliti verði komið á, að því er tekur til innflutningsins. Það mætti hugsa sér, að a.m.k. í sumum greinum innflutningsins, þar sem inn er flutt magnvara í stórum stíl, gæti verið eðlilegt, að einhver stofnun — þá dettur mér í hug t.d. Seðlabankinn eða einhver af hans undirstofnunum — fylgdist með verðlagi á slíkum varningi. En ég skal ekki fara langt út í þá sálma, því að till. gerir ráð fyrir því, að þetta sé athugað í samráði við launþega- og neytendasamtökin í landinu. Ef þessi till. fæst samþ., þá geri ég mér vonir um, að hún geti leitt til einhverra skipulagsbreytinga, er tryggi það, að neytendur í landinu geti búið við hagkvæmara verðlag á innfluttum varningi og jafnvel meiri gæði í mörgum tilfellum en við höfum átt að venjast til þessa.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um till. þessa verði frestað og henni vísað til hv. allshn.