23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3859)

93. mál, löggjöf um rétt til óbyggða, afrétt og almennings

Flm. (Ásberg Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 97 að flytja till. til þál. um heildarlöggjöf um nýtingu og rétt til óbyggða, afrétta og almenninga. Tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að gera könnun á eignarrétti, takmörkuðum eignarréttindum, svo sem ítökum og afnotarétti, svo og landamerkjum afrétta, almenninga á landi og í vötnum og annarra óbyggðra svæða í landinu. Enn fremur að undirbúa heildarlöggjöf um nýtingu og rétt til þessara svæða. Skal leggja frv. um þetta efni fyrir Alþ. svo fljótt sem unnt er.“

Til skamms tíma hefur meginhluti Íslands verið talinn óbyggilegur með öllu og ónýtanlegur nema til beitar fyrir búfé, þar sem gróður var. Nútímahugmyndir um þetta efni eru allt aðrar. Komið hefur í ljós, að á hinum auðu og óbyggðu svæðum felast mikil verðmæti, og líkur benda til, að mun meiri hluti landsins sé í raun byggilegur en talið hefur verið. Hugmyndir manna um nýtingu vatnsorku hafa gerbreytzt á síðari árum, og margir líta á jökla vora sem ein mestu auðæfi landsins. Þar sé fólgin sú orka, sem ókomnar kynslóðir Íslendinga muni nota og megi jafna til kolanáma og olíu- eða gaslinda annarra þjóða.

Þótt landamerkjalög hafi verið hér í gildi um langt skeið, hefur komið í ljós, að landamerki eru víða mjög óglögg, og sérstaklega er óljóst um takmörk lögbýla annars vegar og afrétta og almenninga hins vegar. Skýr lagaákvæði skortir um rétt til afrétta og almenninga. Má í því sambandi benda á hin miklu málaferli, sem hafa verið um Veiðivatnasvæðið og svo um Nýjabæjarafrétt og Laugarfellsöræfi. Þá munu nú og risin mikil málaferli um rétt til botns í almenningum vatns.

Telja má víst, að rétturinn til afrétta og almenninga sé með mjög mismunandi hætti víða um land. Lönd utan byggða heyra sum undir jarðir þær, sem að þeim liggja, og eru þá hluti af þeim sem jarðareign. Önnur eru afréttir tiltekinna sveitarfélaga eða upprekstrarfélaga. Hver réttur sveitarfélags til afréttar síns er, mun vera með nokkuð mismunandi hætti. Sum afréttarlönd eru vafalítið bein eign sveitarfélaganna. Réttur þeirra til annarra er hins vegar e.t.v. aðeins afnotaréttur í tiltekna átt. Um þetta eru engin almenn lagaákvæði, og dómsúrskurðir eru fáir um þetta efni, svo að þar getur verið um mörg vafamál að ræða. Um almenninga eru ýmis ákvæði í Jónsbók, sem flest munu orðin úrelt nú á tímum, enda sniðin í fyrstu eftir norskum landsháttum og því efasamt, hversu vel þau hafa átt við hér á landi. Að svo miklu leyti sem almenningar eru enn til, mun annars víða vera svo komið, að tilteknar jarðir hafa eignazt tiltekin afnot þeirra, og munurinn á þeim og afréttum mun því vera orðinn óljós nú á tímum. Loks eru inni á hálendinu landssvæði, sem liggja utan afrétta, þ.e. jöklar og öræfi, sem enginn einstaklingur getur leitt heimildir að.

Um rétt til afrétta og almenninga, sem ekki tilheyra sveitarfélögum, upprekstrarfélögum eða einstökum jörðum, er því nokkur vafi. En eftir því sem stöðu ríkisvalds er háttað nú á tímum, virðist eðlilegast, að ríkið sé aðili þessara réttinda, enda er sú regla yfirleitt ríkjandi með öðrum þjóðum. Til skamms tíma skipti litlu máli um eignarrétt þessara landssvæða. Umferð um afréttir og óbyggðir landsins var nær engin. Engum datt í hug, að neinar verulegar nytjar væru af þessu landi. Menn höfðu ekki skilning á því, að gróður landsins væri í stórri hættu og nauðsyn bæri til að verja landið gegn uppblæstri með uppgræðslu og gróðurvernd. Menn gera sér ekki ljóst, að heiða- og fjallavötn búa yfir miklum möguleikum til fiskiræktar og vötn hálendisins hafa grundvallarþýðingu í sambandi við virkjunarmál landsins.

Það hefur komið á daginn, að afréttir og óbyggðir Íslands búa yfir miklum möguleikum, sem snerta landsmenn alla. Af örfáum lagagreinum, sem fjalla um afréttir og almenninga, má yfirleitt ráða, að löggjafinn líti svo á, að þessi lönd séu almenningi frjáls til afnota, nema þau séu háð eignarrétti lögbýla eða sveitarfélaga eða sveitarfélög hafa öðlazt afnotarétt af tilteknum svæðum. Í þessu sambandi má minna á lög um fuglaveiði og fuglafriðun nr. 33 1966. Þar segir í 5. gr.:

„Öllum íslenzkum ríkisborgurum eru fuglaveiðar heimilar í afréttum og almenningum utan landareignar lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra.“

Samkv. þessari gr. er þýðingarmikið að vita, hvaða afréttir landsins eru háðar eignarrétti einstaklinga, upprekstrarfélaga eða sveitarfélaga. Hins vegar er í lögum um lax- og silungsveiði nr. 76 1970, í 5. gr., ákvæði, sem bendir til, að afnotahefð hafi skapazt. Þar segir:

„Búendum, sem rétt eiga til upprekstrar á afrétt, er einum heimil veiði í vötnum á þeim afrétti til búsþarfar á sama hátt og verið hefur, enda sé veiðiréttur í þeim vötnum eigi einkaeign. Eigi má leigja veiði í slíkum vötnum eða leyfa hana með öðrum hætti. Veiðifélögum við slík vötn er heimilt að ráðstafa veiði í samræmi við lög þessi.“

Þetta bendir til þess, að löggjafinn líti þannig á, að það sé ekki eignarréttur á afréttarvötnunum, en hins vegar hafi búendur, sem eiga upprekstrarréttinn, öðlazt einir veiðihefðina. Þannig eru þau fáu lagaákvæði, sem snerta þessi mál, yfirleitt nokkuð óskýr og teygjanleg. Sama máli gegnir um þá fáu dóma, sem gengið hafa um þessi mál. Þó virðist mega draga þá ályktun af þessum dómum, að sá, sem telur sig eiga eignarrétt á landssvæði utan landareignar lögbýla og ofar byggð, hafi sönnunarskyldu fyrir staðhæfingu sinni um beinan eignarrétt. Sérstaklega á þetta við um hrein öræfasvæði, eins og t.d. dómur Hæstaréttar frá 29. apríl 1969 um Nýjabæjarafrétt gefur tilefni til.

Um fjölmörg landssvæði utan landareigna lögbýla ríkir veruleg óvissa um beinan eignarrétt. Er því ljóst, að brýna nauðsyn ber til að taka þessi mál til gagngerðrar athugunar og reyna að koma fastri skipan á þessi mál, þannig að réttarstaða þeirra, sem hér eiga hagsmuna að gæta, verði skýrt mörkuð. Það land, sem hér er um að ræða, hefur verið að blása upp á undanförnum áratugum og er víða örfoka. Þessa gróðureyðingu verður að stöðva hið fyrsta og hefja jafnframt stórfellda sókn til að auka gróðurfar og almennar nytjar þessara landshluta. Slíkt stórátak verður að sjálfsögðu ekki gert nema með samstilltu átaki margra aðila og öflugum stuðningi ríkisvaldsins með hæfilegum fjárveitingum af almannafé. Víst er, að ríkið sjálft á mikinn hluta þessara landssvæða, og ber því siðferðisleg skylda til þess að bæta sín eigin landssvæði. Það þarf því að kveða tryggilega á um það, hverjir eigi rétt til óbyggðanna á Íslandi, afréttanna og almenninganna. Það er grundvallarforsenda þess, að hafizt verði handa um gróðurvernd og auknar nytjar þessa landssvæðis.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar að sinni. Hér er vissulega um þýðingarmikið og margþætt mál að ræða, sem snertir alþjóð. Ég vænti þess, að hv. alþm. séu sammála mér um það, að tímabært sé, að málið verði ítarlega kannað, eins og till. gerir ráð fyrir. Að þessari umr. lokinni leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til allshn.