02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (3873)

98. mál, menntastofnanir og vísinda utan höfuðborgarinnar

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem við flytjum þrír þm. Framsfl. úr Norðurl. e., er að okkar dómi allveigamikil og mikilsverð till. Ég vil nú leyfa mér að lesa till., sem hljóðar þannig:

„Alþingi lýsir yfir þeim vilja sínum, að stefnt skuli að eðlilegri dreifingu skóla og hvers kyns mennta- og menningarstofnana um landið og tillit tekið til þeirrar stefnu í framkvæmd byggðaáætlana. Enn fremur lýsir Alþ. yfir því, að sérstaklega skuli að því stefnt, að Akureyri verði efld sem skólabær og miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar.“

Það er sem sagt þannig með efni þessarar till., að það er tvíþætt. Fyrri liður hennar er almenns eðlis og felur í sér viljayfirlýsingu Alþ. um það, að stefnt skuli að eðlilegri dreifingu mennta- og menningarstofnana um landið og að tillit verði tekið til slíkrar stefnu í framkvæmd byggðaáætlana. Í öðru lagi er lagt til, að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum, að Akureyri verði sérstaklega efld sem skólabær og miðstöð vísinda og mennta utan höfuðborgarinnar. Ég vil geta þess, að till. mjög svipaðs efnis var flutt á þinginu 1964 og þá var hún rædd hér, og ég vil segja, að hún fékk á margan hátt vinsamlegar viðtökur hér í þinginu. Hún var rædd í n., og það var leitað umsagna um efni hennar víða að, og umsagnir bárust um hana frá ýmsum aðilum. Þær urðu lyktir þessa máls, að till. var að vísu ekki samþ. sem ályktun Alþ., en fékk þá afgreiðslu, að henni var vísað til ríkisstj. Nú er okkur flm. allsendis ókunnugt um, að ríkisstj. hafi gert nokkuð sérstakt í þessu máli, og við teljum því eðlilegt nú á þessu þingi eða eftir þennan langa tíma, að málinu sé hreyft að nýju, og þess vegna höfum við leyft okkur að flytja þessa till., sem að efni til og að meginstefnu er mjög hin sama og sú till., sem lá hér fyrir þinginu 1964. Við viljum benda á það, að þessi till. er hugsuð af okkar hálfu sem framlag í umr. og ákvarðanir í sambandi við svo kallaðar byggðaáætlanir, sem nú er svo mikið um rætt, byggðaáætlanir eða landshlutaáætlanir. Við viljum leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að þróun ýmiss konar félags- og menningarstarfsemi og þjónustustarfsemi verður að haldast í hendur við atvinnuuppbygginguna, ef árangur á að nást af landshlutaáætlunum, því að nútímafólk, sérstaklega yngra fólkið, lætur sér ekki nægja trygga atvinnuafkomu, þó að atvinna sé að sjálfsögðu grundvöllur þess, að menn geti lifað í landinu, en fólk mælir ekki lífskjör sín eingöngu eftir því, hver atvinnan er, heldur lítur það einnig til þess, hver sé hin félagslega og menningarlega aðstaða á þeim stöðum, þar sem það á heima. Þannig viljum við flm., að Alþ. marki ákveðna stefnu í þessa átt, þannig að mennta- og menningarstofnunum sé dreift um landið, eftir því sem mögulegt er og eðli máls krefst. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að með þessu orðalagi, mennta- og menningarstofnun, þá er um að ræða mjög víðtækt hugtak og engin ástæða til þess að þrengja merkingu þess. Hér er að sjálfsögðu átt við skóla- og fræðslustofnanir yfirleitt, en einnig ýmsar aðrar menningarstofnanir eins og bókasöfn, náttúrugripasöfn og listasöfn, minja- og þjóðfræðasöfn, leiklistar- og tónlistarstarfsemi og raunar aðra listastarfsemi.

Í þessari till. er gert ráð fyrir því, að Akureyri sé sérstaklega efld sem skólabær, og þá er sjálfsagt að minnast þess, að Akureyri er þegar talsvert mikill skólabær og hefur lengi verið, þannig að það er veruleg undirstaða til að byggja á fyrir framtíðina í þessu efni, og það ætti að vera tiltölulega auðveldara að efla Akureyri á þessu sviði heldur en ýmsa aðra staði í landinu. Auk þess er það almennt viðurkennt nú, að ef Norðurlandsáætlun svo nefnd kemst til framkvæmda, þá sé rétt að stefna að því, að Akureyri verði í því sambandi efld verulega sem stærri bær en nú er og þá til þess að verka sem mótvægi á móti því mikla afli, sem höfuðborgin, Reykjavík, er. Við höfum látið okkur detta ýmislegt í hug í sambandi við það að efla Akureyri á sviði skólamála, og í því sambandi höfum við lagt það til sérstaklega, flm. þessa frv., að hafðir séu í huga a.m.k. tveir skólar, sem virkileg þörf er fyrir í landinu. Annars vegar er það tækniskóli og hins vegar verzlunarskóli. Tækniskóli starfar í Reykjavík samkv. sérstökum lögum, en í lögunum um tækniskóla eru einnig heimildarákvæði um það, að starfrækja megi á Akureyri sjálfstæðan tækniskóla, og nú þegar er starfrækt og hefur verið undanfarin ár starfrækt undirbúningsdeild undir tækniskóla. Nú er það jafnframt á vitorði flestra, að Tækniskóli Íslands hér í Reykjavík hefur átt við mjög erfiðan kost að búa á margan hátt, einkum og sér í lagi hvað varðar húsnæði, og er mér ekki fyllilega ljóst, hvort búið er að bæta úr þeim húsnæðisvandræðum, þó að fram hafi komið af hálfu ríkisstj., að úr því verði bætt. En mér er ókunnugt um, að það hafi orðið, og það er eindregin till. okkar, sem að þessu máli stöndum, að nú, þegar Tækniskólinn stendur á þessum tímamótum, að það verður að byggja yfir hann eða útvega honum viðunandi húsnæði með ærnum kostnaði þá sé það fyllilega eðlilegt, að skólinn yrði fluttur til Akureyrar og látinn starfa þar í framtíðinni, á meðan ekki telst þá fært eða eðlilegt, að tveir tækniskólar starfi í landinu.

Annar skóli, sem við höfum minnzt á í þessu sambandi, er verzlunarskóli. Þess er brýn þörf, að verzlunarskóla verði komið upp á Norðurlandi, og ég held nú raunar, að eftir öll þessi ár sé loks að komast á það hreyfing hjá fleirum en okkur, sem að þessu máli stöndum, að það sé nauðsynlegt að efla verzlunarmenntunina í landinu með því að stofna fleiri verslunarskóla, og ég er ekki frá því, að það hafi jafnvei komið til tals, að slíkur skóli yrði á Akureyri, og þá, eins og við höfum bent margsinnis á, flm. þessa máls, að það væri eðlilegt, að samvinnuhreyfingin og samtök einkarekstrarmanna stæðu að slíkum verzlunarskóla í sameiningu. Einnig hefur verið nokkuð rætt um það, m.a. hér á Alþ., að verkalýðshreyfingin eða alþýðusamtökin þyrftu að koma sér upp sérstökum félagsmálaskóla, og ég vil nefna það í þessu sambandi, að við flm. þessarar till. höfum hreyft þeirri hugmynd í sambandi við þetta mál, að hugsanlegt væri, að slíkur skóli yrði á Akureyri og þá jafnvel í sambandi við hugsanlegan verzlunarskóla þar. Að vísu er sjálfsagt að kanna það mál betur, hvort þessi mál fara saman, en ég hygg þó, að svo mætti verða.

Í sambandi við þetta mál allt saman, um eflingu Akureyrar sem skólabæjar, þykir mér rétt að minnast á það, að fyrir nokkrum árum, það eru líklega orðin ein 6–7 ár, þá beittu Norðmenn eða norsk stjórnvöld sér fyrir því að kanna, hvaða möguleikar væru á því að flytja ýmsar stjórnarstofnanir og opinberar stofnanir frá Osló og finna þeim stað utan Oslóborgar. Í þetta var skipuð nefnd, sem vann verk sitt á tiltölulega stuttum tíma og skilaði ítarlegu áliti, sem ég hef haft tækifæri til að kynna mér. Þetta álit kom fram líklega 1963–1964, og þar voru hafðar uppi ýmsar hugmyndir um það, hvernig flytja mætti stjórnarstofnanir, opinberar stofnanir, burtu frá höfuðborginni og finna þeim stað annars staðar. Þá var sérstaklega á það bent, að engin sérstök vandkvæði væru á því að flytja ýmsa sérgreinaskóla úr höfuðborginni og láta þá starfa annars staðar en þar og jafnvel á það bent, að því fylgdu ýmsir kostir. Jafnframt gat nefndin þess, að heppilegt væri í þessu sambandi, ef flytja ætti skólana frá höfuðborginni, að byggja upp sérstök skóla„centrum“ eða skólamiðstöðvar. Að því væri ýmiss konar hagræði, að fleiri skólar en einn störfuðu á sama stað. Með því mundi kennarakrafturinn m.a. nýtast miklu betur, og það er einmitt í þessum anda, sem við höfum túlkað þetta mál.

Þá vil ég geta þess, sem skiptir miklu máli í sambandi við þetta. Það er, að við höfum lagt til, að Akureyri verði ekki einungis skólabær, heldur líka það, sem við köllum miðstöð menningar og vísinda utan höfuðborgarinnar. Og þá felst í þessu það, að ýmiss konar menntir, fræði og vísindi, slíkar menntir verði auknar, þannig að Akureyri verði áður en langir tímar líða viðurkennd sem aðsetur æðri mennta- og vísindastofnana, þar sem m.a. væru stundaðar rannsóknir og fræði á vísindalegum og akademískum grundvelli. Nú kunna ókunnugir e.t.v. að halda um þetta atriði, að þar sé á litlu að byggja. En ég held, að svo sé ekki. Það er áreiðanlega mögulegt, og það er skynsamlegt að tengja saman hugmyndina um skólabæ og miðstöð mennta og vísinda. Það er líklegt og hefur raunar sannazt nú þegar, þó að í litlu sé, að skólamiðstöðin mun draga að sér efnilega menntamenn og kennara, sem áhuga hefðu á að sinna vísindastörfum að nokkru með kennslu. Slíkt getur farið saman á Akureyri eins og annars staðar. Og þá er þess að geta, að þegar er sprottinn úr grasi vísir að rannsóknarstofnunum á Akureyri og nágrenni, einkum á sviði náttúrufræði og svo kallaðra raunvísinda. Náttúrugripasafnið á Akureyri hefur á ýmsa lund eflzt mjög mikið síðustu ár. Þar er fuglasafn gott, enda er það kjarni safnsins frá upphafi, en grasasafnið er einnig mikið að vöxtum og mun fyllilega standast samjöfnuð við grasasöfn í Reykjavík. Grasgarðurinn svo kallaði á Akureyri er alveg einstakur í sinni röð. Forstöðumaður náttúrugripasafnsins, Helgi Hallgrímsson, er ungur vísindamaður og áhugasamur um eflingu vísindastarfsemi á Norðurlandi. Hann hefur ritað nokkuð um það og bent á það rækilega, að vísindastarfsemi á Norðurlandi ætti að hafa aðalaðsetur á Akureyri. En Helgi Hallgrímsson á heima á bæ nokkuð utan við Akureyri, úti á Arskógsströnd, og þar hefur hann komið sér upp nú þegar náttúrufræðilegri rannsóknarstöð, og þar hyggst hann stunda rannsóknir á sjávarlífinu við Eyjafjörð og raunar mörgum öðrum atriðum. Hann hefur þar með félögum sínum, sem standa með honum að þessu og eru flestir menntaskólakennarar, fengizt við ýmsar merkar rannsóknir, og ég vil geta þess sérstaklega, að þessi vísindastöð Helga Hallgrímssonar á Víkurbakka hefur m.a. fengið styrk úr Vísindasjóði til sérstakra jarðvegsrannsókna, og hefur vísindastöðin skilað áliti um þær rannsóknir. Ég vil einnig geta þess, að Rannsóknastofa Norðurlands tók til starfa fyrir nokkrum árum á Akureyri. Þar er að störfum mjög hæfur vísindamaður, ungur maður, Jóhannes Sigvaldason magister í náttúrufræði, og hann hefur þegar getið sér mjög gott orð sem vísindamaður, og ég held, að það sé óhætt að segja, að eftir hann liggi mjög merkar rannsóknir, sérstaklega kalrannsóknir og aðrar jarðvegsrannsóknir.

Þá vil ég geta þess, að á Akureyri er sérlega gott bókasafn, og þar er einnig skjalasafn í sambandi við bókasafnið, og þetta bókasafn á Akureyri er alveg áreiðanlega langbezta bókasafn utan Reykjavíkur og hefur eflzt mjög mikið á undanförnum árum og er sífellt að eflast. Og þá er líka að geta þess, sem ég tel, að sé mjög merkilegt atriði, en það er Minjasafnið á Akureyri, sem við hér í till. bendum á, að gæti orðið þjóðfræðastofnun. Ég vil taka það fram í sambandi við þetta, að þetta er ekki beinlínis hugmynd okkar sem slíkra, heldur eru það menn á Akureyri, sem hafa bent á, að svo gæti orðið. Hygg ég, að Helgi Hallgrímsson hafi skrifað hvað mest um það og bent á, að minjasafnið gæti orðið grundvöllur að þjóðfræðastofnun, akademískri stofnun, sem hafa mundi mjög mikið vísindalegt gildi og rannsóknargildi í þjóðfræðum.

Ég skal nú ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég hef bent hér á höfuðatriði málsins og mundi leggja til, að þetta mál færi til allshn., sem hafði málið til skoðunar fyrir fimm árum. Það er víst ein umr., sem ráðgerð er um þetta mál, og ég legg þá til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn., þegar umr. lýkur nú.