09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3900)

118. mál, hagnýting fiskimiðanna umhverfis landið

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af fsp., sem hv. 3. þm. Sunnl. bar hér fram til okkar flm. þessa máls. Hann spurði um það, hvernig við hugsuðum okkur í stórum dráttum, að skipta ætti landhelginni upp í veiðisvæði. Mér er það fyllilega ljóst, eins og hann kom raunar inn á og við tökum sérstaklega fram í grg. okkar, að hér er um mjög vandasamt verk að ræða, sem vafalaust mundi valda nokkrum ágreiningi og jafnvel árekstrum milli starfandi sjómanna. Við erum ekki alveg reynslulausir um það hér á landi. Það hafa verið ákveðin hér í mörg ár veiðisvæði fyrir ákveðin veiðarfæri, af því að allir vita, að það gengur mjög illa úti á miðunum að nota á sama svæðinu bæði veiðarfæri eins og línu og önnur staðbundin veiðarfæri og hins vegar veiðarfæri, sem dregin eru, eins og dragnót og botnvörpu. Þetta samræmist illa á sömu svæðunum. Því höfum við Íslendingar ákveðið vissa svæðaskiptingu með tilliti til þess að hindra árekstra milli þessara veiðarfæra. Í Noregi er mér tjáð af kunnugum mönnum, að um svipað sé að ræða, nema bara að Norðmenn séu enn þá lengra komnir í þessum efnum heldur en við. Þetta er sú meginhugsun, sem á bak við till. okkar liggur, að skipta veiðisvæðum eins og mögulegt er, þannig að ekki þurfi að koma til tíðra og mjög dýrra árekstra á milli báta, er nota mismunandi veiðarfæri. Og þó e.t.v. sé ekki rétt að segja, að friðunarsvæði út af fyrir sig sé veiðisvæði, þá er það þó svo, að við teljum, að nauðsynlegt sé að ákveða viss friðunarsvæði hér innan fiskveiðilandhelginnar.

Till. gerir ráð fyrir því, að skipuð sé níu manna nefnd til þess að ákveða þessar reglur í smærri atriðum, og það er stungið upp á því í sjálfri till., að nefndin sé þannig skipuð, að í henni séu menn, sem þekki vel til þessara mála, og treysti ég því a.m.k., að þeir muni geta komizt frá þessu verkefni á sómasamlegan hátt, þannig að við getum skipulagt okkar fiskveiðilandhelgi með hliðsjón af því, að við fáum sem mestan arð út úr fiskveiðum okkar, án þess að við séum að skemma hverjir fyrir öðrum og án þess að við göngum of nærri stofnum nytjafiska innan landhelginnar.