23.11.1970
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3908)

124. mál, atvinnulýðræði

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Með till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er stefnt að því, að starfsmenn fyrirtækja, jafnt í einkarekstri sem í opinberri þjónustu, fái aukinn íhlutunarrétt um stjórn og allan rekstur þess fyrirtækis, sem þeir vinna hjá. Í till. er gert ráð fyrir, að 11 manna nefnd, skipuð fulltrúum launþegasamtaka, vinnuveitenda og stjórnmálaflokka, taki málið til undirbúnings og athugunar, en í fyrstu lotu verði athyglinni einkum beint að fyrirtækjum í eigu ríkis og bæjarfélaga. Eins og ég gat um í umr. hér áðan, þá er þetta síður en svo í fyrsta sinn, sem þetta mál er flutt hér af hálfu okkar Alþb.-manna. Þessi till. var fyrst flutt 1964, flm. hennar var Ragnar Arnalds, og þetta mun vera í þriðja eða fjórða skipti, sem hún er flutt í lítið breyttri mynd. Vegna þessa þarf ég ekki að vera langorður um till. Hv. alþm. hafa eflaust kynnt sér þá ítarlegu grg., sem fylgir henni, þeir hafa haft aðstöðu til þess að lesa hana upp aftur og aftur, og ég tel nú raunar, að nokkurs árangurs verði vart, sbr. þann áhuga, sem nú er mjög áberandi hér á hinu háa Alþingi fyrir atvinnulýðræði og m.a. kom fram í umr. hér áðan. Ég tel þess vegna, að ég þurfi ekki að vera mjög langorður um till., en fylgi henni úr hlaði með aðeins fáeinum orðum.

Það er ekki að efa, að íhlutunarréttur starfsmanna mun hafa holl og góð áhrif á stjórn fyrirtækja og rekstur. En hitt verður að játa, að þetta er ekki auðvelt viðfangsefni. Það er að mínum dómi og okkar Alþb: manna t.a.m. til lítils að kasta inn till., eins og gert hefur verið varðandi þessi mál, svo og svo illa unnum og illa undirbúnum. Þetta mál þarf rækilegan undirbúning og athugun. En þeim mun meiri er nauðsynin náttúrlega, að sem fyrst verði hafizt handa um undirbúning, komið verði af stað umr. á milli launþega og atvinnurekenda og leitað verði eftir reynslu annarra þjóða og þá síðast en ekki sízt, að rannsakaðar verði séríslenzkar aðstæður. Atvinnuhættir á Íslandi eru nefnilega að ýmsu leyti miklu frumstæðari heldur en t.a.m. hjá nágrannaþjóðum okkar. Það er miklu meira jafnvægisleysi á flestum sviðum, ringulreið og verðbólga, ofsagróði og botnlaus taprekstur og þetta svona sitt á hvað. Nefna mætti ýmis fleiri vandamál, sem hljóta að koma upp í þessu sambandi og snerta sérstaklega íslenzkar aðstæður. Það er t.a.m. smæð fyrirtækjanna, fámenni á vinnustað og losaraleg tengsl margra verkamanna við vinnustaðina vegna atvinnuhátta okkar. Má þar t.d. nefna verstöðvarnar, hina árstíðabundnu atvinnu o.s.frv.

En ég sé sem sagt ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta atriði hér, enda er það ítarlega gert í grg. Og eins og ég sagði áðan, ég treysti því, að hv. alþm. hafi kynnt sér þessa grg., og flestir þeirra hafa haft tækifæri til að gera það hvað eftir annað. Þess er því að vænta, og eins og ég sagði áðan reyndar, ekki aðeins þess að vænta, heldur hefur það greinilega komið í ljós, að skilningurinn á nauðsyn atvinnulýðræðis og skilningurinn á réttlæti atvinnulýðræðis er sí og æ að aukast hér á hinu háa Alþingi. Svo að hver veit nú nema þessi till. okkar Alþb.-manna fái loksins samþykkt.

Ég legg til, að till. verði að lokinni þessari fyrri umr. vísað til allshn.