23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (3913)

130. mál, flugstöð á Vestmannaeyjaflugvelli

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem í dagskrá er nú bara kölluð Flugstöð á Vestmannaeyjaflugvelli, fjallar raunar um nokkru fleiri þætti í samgöngumálum Vestmannaeyja og Suðurlandskjördæmis heldur en rúmast í því hugtaki einu. Till. er sem sagt á þessa leið:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til þess að bæta verulega samgöngur við Vestmannaeyjar. Í því skyni verði hið bráðasta hafizt handa um eftirgreindar ráðstafanir:

1. Vestmannaeyjaflugvöllur verði stækkaður og búinn fullkomnum öryggistækjum á næsta ári og byggð við hann fullkomin flugstöð.

2. Ríkisstj. beiti áhrifum sínum til þess, að upp verði teknar að nýju áætlunarflugferðir milli Eyja annars vegar og Hellu og Skógasands hins vegar.

3. Endurskipulagðar verði ferðir Skipaútgerðar ríkisins, þannig að komið verði á daglegum skipsferðum milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja.“

Um þessa till. er það sérstaklega að segja, að eins og allir þeir vita, sem kunnugir eru samgöngum innanlands, þá fara meginflutningarnir, bæði fólksflutningar og vöruflutningar, í landinu fram á bifreiðum eftir vegakerfi landsins. En einn er þó sá kaupstaður landsins, sem ekki er í sambandi við þetta vegakerfi og verður þar af leiðandi að hafa sínar samgöngur með öðrum hætti. Það er Vestmannaeyjakaupstaður, og veldur það þeim kaupstað verulegum erfiðleikum að liggja ekki að þessu stærsta samgöngukerfi landsmanna og geta þar af leiðandi ekki notið þess. Á hinn bóginn verður þess ekki vart, að kostnaður við þjóðvegakerfið sé ekki látinn falla á þennan kaupstað eða íbúa hans með svipuðum hætti eins og aðra landsmenn. En af því leiðir að sjálfsögðu sú skylda þjóðfélagsins að búa þeim mun betur að slíkum kaupstað um aðra þætti samgöngumála, sem nýtur ekki þessa þáttar.

Þegar flugsamgöngur hófust fyrir alvöru hér á landi, var hafizt handa um að byggja í Vestmannaeyjum flugvöll eða nánar tiltekið flugbraut, og var hún tekin í notkun fyrst í smáum mæli fyrir u.þ.b. 20 árum og síðan í síauknum mæli. Flugvallarframkvæmdir í Vestmannaeyjum hafa hins vegar verið svo hæggengar, að þessi flugbraut er engan veginn búin enn þá. Hún er í smíðum enn þann dag í dag. Það hefur líka verið byggð önnur braut, þverbraut á þessa, sem fyrir var. Hún er ekki heldur búin. Hvorug þeirra hefur náð þeirri lengd, sem ætlað var, hvorug hefur verið búin þeim öryggisbúnaði, sem sjálfsagður er. T.d. eru þessar brautir ekki raflýstar, þannig að þær séu nothæfar í myrkri. Þetta þykja nú hv. alþm. vænti ég nokkur tíðindi, því að svo óskaplega stinga þessar upplýsingar í stúf við það, sem almenningi í landinu og þá væntanlega ekki að undanskildum alþm. þætti sjálfsagt, að gert hefði verið til framkvæmda. En svona hæggengar hafa þessar samgöngur verið við þennan stóra kaupstað, sem mun vera sá fjórði eða fimmti stærsti í landinu og reyndar sá þeirra, sem að tiltölu skilar þjóðarbúinu hvað mestum arði í útflutningsverðmætum.

Ég gat þess, að hvorki flugbrautir í Vestmannaeyjum né heldur öryggisbúnaður svo sem raflýsing væri í því lagi, sem una mætti við. En ef við komum að aðstöðu farþeganna sjálfra og afgreiðslu flugvéla á þessum stað, þá munduð þið hv. alþm. verða þess varir, ef þið gerðuð ykkur ferð á þennan stað, að þarna er hvorki flugstöð né flugstjórnarstöð í þess orðs merkingu. Í staðinn fyrir þetta tvennt eru að vísu tvær kofabyggingar, báðar þröngar og ekki ýkja stæðilegar, svo að mann uggir, að þær gæti vel tekið af eða þær gætu oltið í einhverju meiri háttar veðri, sem þarna eru ekki ótíð. Þetta gildir jafnt um farþegaafgreiðslu og það, sem kallað er flugturn, en er reyndar ekki turn í þeirri merkingu, sem við venjulega leggjum í það orð, heldur er það bygging af svipaðri stærð og bændur höfðu gjarnan fyrir hænsni sín fyrir u.þ.b. hálfri öld. Mér þykir reyndar fyrir því, að hæstv. samgrh. skuli ekki vera staddur hér í salnum, en hafi hann haft augun sæmilega opin á sínum ferðum um staðinn, þá veit hann allt þetta álíka vel og ég.

Sem betur fer hafa á ýmsum flugstöðvum landsins, á ýmsum flugvöllum landsins verið gerðar alveg sómasamlegar farþegaafgreiðslur og flugstjórnarstöðvar og reyndar á flugvöllum, þar sem mun minni umferð farþega og varnings á sér stað en á þessum flugvelli, sem ég hef hér gert að umræðuefni. En um hann fara á snærum Flugfélags Íslands 23–26 þús. manna á ári miðað við s.l. fimm ár, en Flugfélag Íslands er að vísu eina flugfélagið, sem heldur uppi áætlunarferðum á þennan stað, en farþegafjöldinn er ekki allur þar með upp talinn, því að allmikið ferðast þar um af fólki á leiguflugvélum, sem ekki er í þessum tölum, sem ég hér nefndi.

Suðurland er með talsverða sérstöðu meðal kjördæma landsins að því leyti, að það er í rauninni tvö lönd, annars vegar Vestmannaeyjar og hins vegar Suðurlandsundirlendið. Og á milli þessara tveggja aðalbyggða kjördæmisins eru reyndar engar áætlunarsamgöngur eins og stendur, er svo geta kallazt. Það er að vísu rétt, að Skipaútgerð ríkisins sendir öðru hverju að sumarlagi strandferðaskipið Herjólf á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, en ekki er þar um neinar áætlunarbundnar ferðir að ræða yfir allt árið, heldur einungis stopular ferðir einu sinni í viku yfir hásumarmánuðina. Eitt sinn hafði Flugfélag Íslands áætlunarflugferðir á þríhyrningnum Vestmannaeyjar— Skógasandur — Hella — Vestmannaeyjar. Þessar flugferðir þóttu ekki gefa nægan arð og voru þess vegna þegjandi og hljóðalaust lagðar niður, og þar með tíðkast engar reglubundnar samgöngur á milli þessara fjölmennustu svæða innan kjördæmisins. Ríkisstj. Íslands hefur mér vitanlega ekkert gert til þess að beita áhrifum sínum í þá átt, að þessum flugferðum væri haldið áfram.

Ég gat þess, að þessar flugferðir mundu ekki hafa gefið stóran arð, og reyndar má vera, að á þeim, ef þær eru taldar út af fyrir sig, hafi verið eitthvert tap. En að nota það sem réttlætingu fyrir því að leggja flugferðirnar niður, það hefur ekki verið gert á öðrum stöðum. Við vitum, að það eru fjöldamargar flugleiðir á Íslandi, sem ekki skila arði, ef þær eru taldar út af fyrir sig með tekjur og gjöld. Þetta sama má reyndar segja um allt innanlandsflug á Íslandi, a.m.k. sum árin. Mér vitanlega hefur þó engum dottið í hug að leggja niður innanlandsflug á Íslandi. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að ef slíkar fyrirætlanir kæmu upp, þá mundu stjórnvöld landsins beita sér gegn því, að af þeim yrði. Á sama hátt álít ég, að stjórnvöldum landsins og þó einkum samgrn. hefði borið skylda til þess að koma í veg fyrir slíkt tap, að þessar áætlunarflugferðir yrðu lagðar niður, og eftir að þær voru samt lagðar niður, ætti íslenzka ríkisstj. að beita sér fyrir því, að þær yrðu teknar upp að nýju, enda er það einn þáttur þessarar till. að skora á ríkisstj. að hefjast nú handa um það að koma þessum flugferðum á aftur, þó að ekki hafi verið á þeim bókhaldslegur gróði einum saman og reiknuðum út af fyrir sig. Allir hlutir, líka á okkar landi, eru háðir nokkrum breytingum, og það liggur ekkert fyrir um það, að þessar ferðir gætu ekki verið eins arðgæfar nú eins og hverjar aðrar flugferðir, og þar af leiðandi tel ég, að það sé óréttlætanlegt af stjórnvaldanna hálfu að gera ekki verulegar tilraunir til þess að koma þeim á að nýju.

Fyrir rösklega einum áratug eða líklega fyrir 12 árum réðst Skipaútgerð ríkisins í það að byggja sérstakt strandferðaskip til þjónustu við Vestmannaeyjar. Að vísu vantaði ekki plögg um það frá alls konar forstjórum og embættismönnum og forráðamönnum þessarar útgerðar, að það væri ekkert vit í slíkri skipsbyggingu. En skipið var nú byggt samt, af því að í það skiptið fór nú svo, sem reyndar allt of sjaldan skeður, að alþm. mátu meira nauðsynina heldur en vífilengjur embættismanna. Alþingi samþykkti að smíða þetta skip, og það var gert. Það hefur nú starfað í um það bil 12 ár og komið að ómetanlegum notum og reyndar oft og tíðum verið eina samgöngutækið, sem Vestmanneyingar hafa haft fyrir sínar þarfir. Þetta er strandferðaskipið Herjólfur. Á þessu tímabili hefur Skipaútgerð ríkisins gert gagngerar áætlanir um nýja tilhögun strandferða á Íslandi. Skipakostur hennar hefur verið við það miðaður, eldri skip hafa verið seld og ný hafa verið byggð eða eru í byggingu eins og Hekla, sem nú siglir hér á ströndinni. Í þessum yfirstandandi mánuði var nú talað um, að koma ætti nýtt strandferðaskip til sögunnar, ný Esja. En hvort sem það dregst nú lengur eða skemur, að það skip komi, þá er augljóst mál, að þegar þessi skip eru bæði komin til þjónustu við landsmenn, þá ætti að geta rýmkazt mjög um fyrir strandferðaskipið Herjólf, og þá ætti ekki að vera nauðsynlegt að binda hann alveg við þær ferðir, sem hann nú er í.

Hér á þingi hefur verið flutt till. og af ýmsum látinn uppi þó nokkur áhugi fyrir því, að nýtt skip yrði byggt til þess að annast farþega-, bifreiða- og mjólkurflutninga, daglega flutninga á milli Vestmannaeyja og lands, milli Vestmannaeyja og þá einna helzt Þorlákshafnar. Þetta er allt saman góðra gjalda vert, en ég hygg, að hægt muni vera að koma á daglegum eða a.m.k. allmörgum vikulegum ferðum á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar með strandferðaskipinu Herjólfi, án þess að þær ferðir, sem hann er í nú, féllu niður, þegar tvö ný strandferðaskip — ég á þar við Esjuna og Hekluna — eru komin til starfa hjá Skipaútgerð ríkisins. Þá mætti sem sagt taka Herjólf í það að koma á daglegum eða nærri daglegum ferðum á milli Vestmannaeyja og lands. Ég veit það, að Herjólfur er ekki byggður fyrir þess kyns siglingar. Engu að síður hefur hann sýnt það, að hann er gott skip og traust og getur afkastað býsna miklu í flutningum, bæði vöru og farþega, sem mundi koma að mjög miklum notum, ef hann gæti haft þessar ferðir að aðalverkefni. Það er þess vegna lagt til í þessari till., að við endurskipulagningu á flutningum Skipaútgerðar ríkisins, þegar nýju strandferðaskipin tvö eru komin í notkun, verði Herjólfur tekinn meira til þeirra þarfa að annast flutninga daglega eða sem næst daglega á milli Vestmannaeyja og lands. Þetta er byggðarlaginu alveg sérstaklega nauðsynlegt, vegna þess að þrátt fyrir alla kosti flugsamgangna geta þær ekki á næstu tímum orðið dagvissar ferðir fyrir Vestmanneyinga. Reynslan sýnir, að í u.þ.b. 90 daga á ári er ekki fært til flutninga eða til flugs á þessari leið, og það er nú ekki svo, að hér sé bara um fjórða hvern dag að ræða. Það veit enginn fyrir fram, hvenær þessir dagar koma. Þetta getur verið heil vika eða jafnvel lengri tími í einu, sem engin flugvél kemst þessa leið, og er það mjög bagalegt. Það má kannske segja, að það sé svo sem ekki alveg öruggt, að hægt sé að komast upp á hvern dag á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, en eins og nú er komið hafnargerð á báðum þessum stöðum, þá má ætla, að það yrðu ekki margir dagar árlega, sem féllu úr, þannig að ekki væri hægt að komast þessa leið.

Ég vil að lokum, áður en ég lýk máli mínu um þessa till. og nauðsynina á því að taka upp bættar samgöngur milli Vestmannaeyja og lands, minna á það, að allir, sem augu hafa opin í þessu landi, hafa séð, að það er stöðugt að verða erfiðara og erfiðara að halda uppi nútímalegum þjóðfélagsháttum í byggðarlögum, sem eru umkringd sjó, á eyju. Við höfum séð hverja eyjuna af annarri við strendur landsins, sem áður var byggð, fara í eyði. Og nú er svo komið, að maður hefur það á tilfinningunni, að það sé ekkert langt þangað til aðeins ein eyja verður í byggð við strendur þessa lands, Heimaey í Vestmannaeyjum. Ef það er alveg látið sitja á hakanum að vinna eitthvað að bættum samgöngum fyrir þennan þýðingarmikla kaupstað, þá er til í málinu, að þar halli aftur af blómanum í byggðinni. En það er ég sannfærður um, að enginn alþm. óskar eftir að horfa fram á. Það væri ekki heldur æskilegt efnahagslega fyrir íslenzka þjóðfélagið, því að slíkur hefur til þessa arður þess af þessum kaupstað og fólkinu, sem þar býr, verið.

Herra forseti. Um leið og ég lýk máli mínu legg ég til, að á einhverju stigi umr. verði till. vísað til allshn., en umr. frestað á meðan.