23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (3916)

130. mál, flugstöð á Vestmannaeyjaflugvelli

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Austf., kom inn á Hornafjarðarferðirnar, þannig að ég tel rétt að gefa hér nokkrar upplýsingar. Ég skal taka það fram, að sú nefnd, sem ég kann að vinna í, eykur ekkert rekstrarkostnað Ríkisskips. Hún er alveg ólaunuð og verður það að sjálfsögðu. Þetta er áhugamannanefnd, sem við höfum sótt eftir, að yrði skipuð, og hún hefur því miður ekki vald til að gera beinar áætlanir. Hún hefur vald til að gera till. um áætlun, sem við ætlumst að sjálfsögðu til, að verði tekið tillit til. Um Hornafjarðarferðirnar gerum við okkur alveg ljóst, að kæmi þetta til, þá er þetta nokkur skerðing á aðstöðu þeirra. En það liggur fyrir, að nýtt skip á vegum Skipaútgerðarinnar hefji ferðir nú alveg innan tíðar. Þó að hálfs mánaðar ferðir Herjólfs falli niður, þá kemur ferðum til Hornafjarðar til með að fjölga, eftir því sem ég bezt veit, ég vil ekki segja hve mikið, en það er öruggt, að þær koma til með að verða fleiri eftir að nýja skipið kemur, þó að Herjólfur verði tekinn út úr Hornafjarðaráætluninni, heldur en þær hafa verið fram að þessu, og möguleikar á flutningi á vörum aukast. Það er einnig vitað, að þarna verður um stærra skip að ræða en Herjólfur er. Ég hygg því, að þó að þessi breyting verði gerð, eins og við höfum lagt til og farið fram á, þá verði Hornfirðingar sem betur fer betur settir en áður, enda tökum við fullt tillit til þess í okkar till. Við ætlumst ekki til, að Hornafjarðarferðir með Herjólfi falli niður, fyrr en hið nýja skip kemur í gagnið. Sem betur fer eru Hornfirðingar að sumu leyti betur settir en við. Þeir eru þó í sambandi við þjóðvegakerfi landsins, þó að það séu annmarkar á því, eins og hv. 2. þm. Austf. benti réttilega á, og vetrarferðir geti orðið þar erfiðar. Þeir hafa flugvöll, sem hefur nýtzt betur en Vestmannaeyjavöllur eftir því sem ég bezt veit. Það virðist vera meiri veðursæld þar. Fram undan er eitt hið stærsta mál fyrir þá á Hornafirði og Austfirðinga, sem er lagning hins svo kallaða hringvegar eða þess kafla, sem eftir er að leggja af hringvegi kringum landið, þannig að ég vona, að við séum ekki að gera Hornfirðingum of mikinn miska með þeim till., sem við höfum lagt fram um ferðir Herjólfs í framtíðinni.