05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3922)

131. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur oft verið flutt áður hér á Alþ. án þess að það hafi fengið afgreiðslu og án þess að iðnaðurinn hafi fengið þá úrbót, sem till. fjallar um.

Því var heitið, þegar Ísland gekk í Fríverzlunarbandalagið á síðasta ári, að unnið skyldi að því að bæta aðstöðu iðnfyrirtækja í sambandi við rekstrarlánin, og af hálfu formanns Félags ísl. iðnrekenda var þá lögð áherzla á það, að úrbætur í þeim efnum væru eitt hið mikilvægasta, sem iðnaðurinn þyrfti á að halda eða þyrfti að fá fram, til þess að hann gæti staðizt þá auknu samkeppni, sem af EFTA-aðild leiðir. Þrátt fyrir það hafa enn ekki fengizt neinar úrbætur í þessum efnum, og aðstaða iðnaðarins hvað rekstrarlán snertir er á margan hátt lakari nú heldur en hún var t.d. fyrir ári síðan, sem leiðir af því, að rekstrarkostnaður, m.a. vegna kauphækkana, hefur stóraukizt og rekstrarlán þau, sem viðskiptabankarnir hafa veitt, hafa hvergi nærri aukizt að sama skapi. Það er því hin mesta nauðsyn og jafnvel enn þá meiri nauðsyn nú en nokkru sinni fyrr, að Alþ. taki þetta mál til meðferðar og geri nú meira en svæfa það í nefnd.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál fleiri orðum að sinni, vegna þess að ég veit, að öllum hv. þm. er það kunnugt, hverjir þeir erfiðleikar eru, sem iðnaðurinn glímir við í þessum efnum, og að öðru leyti vísa ég svo til grg.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að umr. sé frestað og málinu vísað til allshn.