08.02.1971
Neðri deild: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (3944)

158. mál, breytt stefna í utanríkismálum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Núna í hádeginu var lesin í útvarp frétt, þar sem segir m.a.: „Suður-víetnamskt herlið, stutt bandarískum flugvélum, gerði í morgun innrás í Laos frá Suður-Víetnam. Um leið var stóraukinn hernaður Suður-Víetnama alls staðar í índókína og lofthernaður Bandaríkjanna aukinn á öllum vígstöðvum. Áður en innrásin hófst í dögun á morgun, hélt stórskotalið Bandaríkjamanna uppi mikilli eldflauga- og fallbyssuskothríð inn yfir landamærin, en um 9000 manna bandarískt herlið og um 20 þús. manna lið Suður-Víetnama hefur beðið átekta við landamærin í rúma viku. Stjórn Laos hefur mótmælt innrásinni harðlega og skorað á stórveldin, sem ábyrgðust hlutleysi landsins á Genfar-ráðstefnunni 1962, að skerast í leikinn.“

Þetta er ískyggileg frétt, og hún kemur til viðbótar mörgum öðrum ískyggilegum fréttum, sem borizt hafa frá Indókína undanfarna daga, fréttum, sem sýna það, að Bandaríkin eru að stórauka hernaðaraðgerðir sínar á þessum slóðum, og hefur þó flestum þótt nóg um þann skefjalausa yfirgang og þann eyðileggingarofsa, sem bandaríski herinn hefur sýnt þjóðum Indókína fram til þessa. Að vísu segir í frétt þeirri, sem ég las úr áðan: „Lögð er rík áherzla á, að engir bandarískir hermenn taki þátt í bardögum.“ Þetta breytir þó að sjálfsögðu engu um þá staðreynd, sem við öllum blasir, að Bandaríkin standa á bak við þessa innrás. Leppstjórn þeirra í Saigon hefur sent hersveitir inn í Laos að undirlagi Bandaríkjanna, enda er bandaríska flughernum beitt til fulltingis innrásarhernum, og bandaríski flugherinn hefur sig raunar meira í frammi nú um þessar mundir heldur en hann hefur nokkru sinni gert í öllu hinu langa stríði í Indókína. En þessi afsökun eða þessi hlálega tilraun til þess að bera sakir af Bandaríkjunum sýnir það, að bandarísk stjórnarvöld óttast fordæmingu fyrir þetta athæfi, og fordæmingu munu þau vissulega hljóta víðs vegar um heiminn. Og á því er enginn vafi, að meiri hluti Íslendinga fordæmir þetta athæfi. Réttur aðili til þess að koma á framfæri slíkri fordæmingu væri að sjálfsögðu hæstv. ríkisstj., en því miður er ekki mikil von til þess, að svo verði. Af hálfu okkar Alþb.- manna hefur hér á hinu háa Alþingi æ ofan í æ verið lýst eftir þeirri afstöðu íslenzku ríkisstj., sem okkur íslendingum mætti vera sómi að gagnvart yfirgangi Bandaríkjanna í Indókína, en við höfum ýmist fengið við slíku loðin svör eða engin. Raunar hefur mér fundizt, að einstakir þm. og talsmenn einstakra stjórnmálaflokka hafi sýnt ósæmilega mikið tómlæti varðandi þá válegu þróun mála, sem orðið hefur í Indókína fyrir tilstilli Bandaríkjanna. Og jafnvel þegar flutt er till., sem snertir þetta mál, þá liggur hún óhreyfð í stöflunum hér á borðum hv. þm. langtímum saman, er ekki einu sinni tekin á dagskrá. Ég á við þá till. sem tveir hv. þm., Magnús Kjartansson og Sigurvin Einarsson, hafa flutt, en henni var útbýtt 2. des. s.l. Þetta er þáltill. um breytta stefnu í utanríkismálum, og þar segir m.a., að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. „að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi, að Bandaríkin hætti styrjaldaraðgerðum sínum í Indókína og kalli heri sína heim, svo að landsmenn fái sjálfir aðstöðu til þess að leysa vandamál sín.“

Ég vil af þessu tilefni lýsa yfir furðu minni yfir því, að svo mikilvæg till. skuli svo lengi liggja óhreyfð, og ég vil láta í ljós þá von mína, að síðustu atburðir þar austur frá verði til þess, að till. þessi og þessi mál öll verði tekin til rækilegrar íhugunar og umr. hér á hinu háa Alþingi.