05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (3961)

193. mál, bann við að hljóðfráar þotur fljúgi yfir Ísland

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Áður en ég vík að þeirri till., sem ég vildi mæla hér fyrir, þá vil ég vekja athygli hæstv. forseta og hv. þm. á því, að hér er ekki viðstaddur í þingsölunum neinn ráðh. Mér er að vísu kunnugt um það, að ýmsir telja, að þáltill. séu ómerkari heldur en lagafrv. Engu að síður er í þáltill. hreyft ákaflega merkum málum, málum, sem geta síðan stuðlað að nauðsynlegri þróun í lagasetningu í landinu, og mér finnst það vera ótæk vinnubrögð með öllu, að hér sé enginn ráðh. viðstaddur til þess að ræða slík mál við þm. Mér finnst, að í framferði eins og þessu komi fram óvirðing við Alþ., sem forsetar þingsins eiga ekki að una.

Till. sú, sem ég flyt á þskj. 316, fjallar um það, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að leggja bann við því, að hljóðfráar þotur fljúgi yfir Ísland og landgrunnssvæðið umhverfis landið með svo miklum hraða, að sprengihljóð myndist. Ástæðan til þess, að ég veitti þessu vandamáli athygli, er sú, að ég á sæti í samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs og þar hefur æði mikið verið fjallað um þetta mál. Þar var lögð fram till. á s.l. ári þess efnis, að Norðurlandaráð skoraði á ríkisstj. allra Norðurlanda að leggja bann við slíku flugi, að því er varðar hljóðfráar farþegaþotur. Á fundum samgöngumálanefndarinnar hafa verið lagðar fram mjög ítarlegar grg. um þetta mál, og þar hafa mætt færustu sérfræðingar Norðurlanda, bæði Danmerkur og Svíþjóðar, og það varð niðurstaða, almenn niðurstaða nefndarinnar eða þessara sérfræðinga, að þetta vandamál væri svo alvarlegt, að það yrði að gera tafarlausar ráðstafanir til þess að banna slíkt flug yfir Norðurlöndum. Á síðasta þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í s.l. mánuði afgreiddi samgöngumálanefndin þessa till. Í nefndinni eru 13 þm., og af þeim voru 12, sem mæltu með því að skora á ríkisstjórnirnar að taka upp skilyrðislaust bann. Einn nm. taldi hins vegar fulllangt gengið með þessu og vildi, að bannið yrði skilorðsbundið. Þegar greidd voru atkv. í Norðurlandaráði, þá virtust sárafáir með þessari brtt., og hún var felld með öllum þorra atkv., en síðan var ályktunin, sem skorar á ríkisstjórnir Norðurlanda að hafa þennan háttinn á, samþykkt einróma.

Ástæðan fyrir því, að menn taka þetta mál upp, er sú, að það hefur lengi verið vitað, að áhrifin, hávaðinn, gnýrinn, sprengihljóðin frá þotum, valda ákaflega mikilli röskun á lífi manna. Þetta hefur verið vitað þann tíma, sem venjulegar þotur hafa flogið hraðar en hljóðið, það eru t.d. herþotur, en þessar aðstæður breytast í mjög alvarlegt horf, ef það á að taka upp framleiðslu á hljóðfráum farþegaþotum. Bæði eru þær miklum mun stærri en hernaðarþoturnar, og eins mun flug þeirra ná yfir miklu víðtækara svæði og langtum stærri hluta af hnettinum. Hljóð það, sem myndast. ég reyndi að gera nokkra lýsingu á því í grg. þessarar till. og skal ekki endurtaka það hér, — en það er mat sérfræðinga, að þarna sé um að ræða svo alvarlegan skarkala, að hann raski mjög högum manna og geti haft hættuleg áhrif á veikburða fólk og jafnvel á dýr. Og þetta er ástæðan til þess, að nauðsynlegt er talið að banna slíkt flug yfir löndum eða í nágrenni landa, svo nálægt, að þessi gnýr berist til jarðar. Það eru aðallega sprengihljóðin, sem eru fyrst í þrýstibylgjunni, sem myndast undir þotunum. Slíkt bann er víða til umræðu og ekki sízt í þeim löndum, sem vinna nú að því að framleiða slíkar þotur. Þannig er slíkt bann fyrirhugað sérstaklega í Bandaríkjunum og í Frakklandi, og slíkar tillögur liggja fyrir mörgum þjóðþingum í Evrópu. Ástæðan fyrir þessari hreyfingu er raunar ekki aðeins sú, að þessi hávaði er miklu alvarlegri en venjulegur skarkali frá flugi, jafnvel í nánd við flugvelli, heldur er ástæðan einnig sú, að mjög margir draga í efa, að hér sé um að ræða rétta stefnu hjá flugvélaframleiðendum að framleiða slíkar hljóðfráar þotur. Þróunin hefur orðið sú í flugvélaframleiðslu, að það eru framleiðslufyrirtækin, sem leggja á ráðin um nýjar flugvélagerðir. Þær eru ekki framleiddar eftir óskum flugfélaganna, heldur eru þær hreinlega búnar til, hannaðar í þessum framleiðslufyrirtækjum, og síðan er treyst á það, að samkeppni flugfélaganna leiði til þess, að þau kaupi þessar nýju gerðir af vélum. Þær öru breytingar, sem verða á farþegaflugvélum, hafa leitt til þess, að mörg flugfélög eiga við mikil efnahagsleg vandkvæði að stríða, vegna þess að þau verða að breyta flugvélakosti sínum mun hraðar en hagkvæmt er talið. Það er talið, að það sé mjög efnahagslega erfitt fyrir flugfélög að breyta vélakosti sínum í grundvallaratriðum örar en á 10 ára tímabili, en verði tekin upp þessi stefna að hefja farþegaflug með hljóðfráum þotum, þá mundi koma þarna til alger grundvallarbreyting, sem mundi leiða miklar hættur yfir efnahag margra flugfélaga. Mér er t.d. kunnugt um það, að ekki minna flugfélag en SAS hefur ákaflega miklar áhyggjur einmitt af þessu. Nú draga raunar margir í efa, hvað unnið sé með því að taka upp farþegaflug með hljóðfráum þotum. Menn benda á það, að sá aukni hraði, sem það hefur í för með sér, skipti almenning ákaflega litlu máli. Það er ekki orðið neitt samhengi á milli þess tíma, sem það tekur að fljúga t.d. á milli Ameríku og Evrópu, og svo hins vegar þess tíma, sem það tekur fólk að komast frá heimilum sínum og út á flugvellina, og þó að flugleiðin yfir Atlantshaf styttist um 2-3 klukkustundir, þá hefur þetta ekkert raunhæft gildi. Þetta er hégómlegt markmið, það skiptir fólk engu máli, ekki sízt vegna þess, að það er læknisfræðilega viðurkennd staðreynd, að það tekur menn talsverðan tíma að ná sér eftir slíkt flug, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Þeir verða að taka vissan tíma í að ná eðlilegu jafnvægi. Þess vegna er hreyfing uppi víða um lönd að banna, að slíkar hljóðfráar þotur fljúgi yfir löndin. Það er einnig liður í almennum mótmælum gegn þessari stefnu flugvélaframleiðenda. Slík mótmæli hafa víða komið fram, t.d. frá Bandaríkjunum, eins og menn vita, og það eru uppi þær hugmyndir, að það muni takast að efla þessa andstöðu svo mjög, að horfið verði frá því að fara inn á þá braut að stunda flug með hljóðfráum þotum, þannig að þetta er einnig liður í þeirri baráttu.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar. Hins vegar hef ég í fórum mínum gögn frá samgöngumálanefnd Norðurlandaráðs um þetta mál, og ef sú n., sem um málið fjallar, hefur hug á því að líta á þau, þá er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að afhenda þau.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að málinu verði vísað til hv. allshn.