09.03.1971
Sameinað þing: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3966)

197. mál, móðurmálskennsla í barna- og gagnfræðaskólum

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 324, er um sérstaka athugun á móðurmálskennslu í barna- og gagnfræðaskólum. Efni till. er að fela menntmrh. að láta í samráði við fræðslumálastjóra, kennarasamtökin, rithöfundasamtök og heimspekideild Háskóla Íslands fara fram sérstaka athugun á því, hvort íslenzkukennslu í barna- og unglingaskólum og gagnfræðaskólum sé almennt að meira eða minna leyti áfátt, og gera till. til úrbóta um námsefni og kennslutilhögun, eftir því sem nauðsynlegt telst að lokinni rannsókn.

Í till. eru nefnd nokkur tiltekin atriði varðandi móðurmálskennsluna, sem gert er ráð fyrir, að rannsökuð verði.

1. Hvort kennsla í íslenzkri málfræði taki of mikið eða of lítið af námstímanum, hvort áherzla sé lögð á að kenna það, sem nauðsynlegast er, og hvort eitthvað af námsefninu geti talizt óþarft.

2. Hvort næg áherzla sé á það lögð að kenna nemendum að lesa og tala skýrt í heyranda hljóði.

3. Hvaða árangur stafsetningarkennslan ber.

4. Hvernig skólunum takist að auka orðaforða nemenda, kenna þeim notkun íslenzkra orðtaka eða orðskviða og bæta á annan hátt málfar þeirra í ræðu og riti, t.d. með því að draga úr notkun útlendra orða eða orðskrípa.

5. Hvernig tekizt hafi að kynna nemendum sígildar, íslenzkar bókmenntir og vekja eða auka áhuga á slíkum bókmenntum.

6. Hvort næg áherzla sé lögð á að kenna nemendum ljóð og að greina stuðlað mál og rím frá óbundnu máli. Enn fremur er gert ráð fyrir því í till., að niðurstaða athugunarinnar verði lögð fram á Alþ. og birt opinberlega á sínum tíma.

Um þessa till. get ég að mestu leyti látið mér nægja að vísa til þeirrar grg., sem fylgir till. á þskj. 324.

Um þessar mundir er ákaflega mikið rætt um skólamál hér á landi, þ. á m. þá skóla, sem till. fjallar um sérstaklega, barna- og gagnfræðaskólana. Og margar fullyrðingar koma fram um galla, sem menn telja vera á þessum skólum, og er það eðlilegt, að slíkt beri á góma, því að bæði er, að lagðar eru fram miklar fjárhæðir af almannafé til skólahalds í landinu og þjóðin á mikið undir því, að hin uppvaxandi kynslóð hafi það gagn af skólavistinni, sem bezt má verða.

Nú er ekki í þessari till. fjallað um skóla almennt og ekki einu sinni um barna- og unglingaskóla almennt, heldur um einn þátt kennslunnar eða starfseminnar í þessum skólum, móðurmálskennsluna, en móðurmálskennslan er einmitt eitt af því, sem hefur verið mikið rætt á undanförnum tíma, m.a. hér á Alþ. og svo víðar á opinberum vettvangi, og hún er a.m.k. að mínum dómi og sjálfsagt margra annarra í raun og veru undirstaða annarrar skólastarfsemi, því að ef ekki tekst að kenna nemendum móðurmálið, þá vantar þá í mörgum tilfellum þá undirstöðu, sem þarf til þess að geta lært meira, og það hefur a.m.k. verið skoðun manna hér á landi, að sá, sem kynni vel móðurmálið, jafnvel þótt hann kynni ekki mikið annað, væri miklu betur búinn undir það að ganga út í lífsbaráttuna heldur en sá, sem ekki kynni það. Móðurmálið hafa menn að sjálfsögðu lært með ýmsum hætti. Fyrr á tímum lærðu börnin og unglingarnir það af hinum eldri, lærðu það á heimilunum, lærðu það af bókunum, sem skrifaðar hafa verið hér á landi, og hver af öðrum. Nú læra menn það í skólunum. Mér finnst, að það sé mjög æskilegt að geta gert sér grein fyrir því, hvernig þessi kennsla er nú í raun og veru, hver árangur verður af henni og hvort það er rétt, að móðurmálskennslunni sé að meira eða minna leyti áfátt og þá í hverju. Því hef ég lagt til, að þetta verði athugað þannig, að tekin verði fyrir einstök atriði, sem hér eru nánar tilgreind í till.

Eitt af því, sem ég held, að sé ekki nógu mikill gaumur gefinn í skólum, er að kenna nemendum að lesa og að tala móðurmálið, þ.e. að lesa upphátt og tala. Mér finnst það fara í vöxt, að ungt fólk, a.m.k. sums staðar á landinu, sé óskýrt í máli og veigri sér við að lesa upphátt. Á þessu held ég, að þurfi að ráða bót. Annað atriði, sem ég vil sérstaklega nefna, er hið menningarlega tjón, sem af því hlýzt, ef þjóðin missir „rímeyrað“, ef þjóðin hættir að hafa tilfinningu fyrir stuðluðu máli, eins og hent hefur frændþjóðir okkar í nágrannalöndunum. Þær eru búnar að týna stuðlamálinu niður fyrir nokkuð löngu síðan, þó að forfeður þeirra, eins og okkar, kynnu þetta mál. En það er aðeins hér á Íslandi, sem það hefur varðveitzt, eins og við ein höfum varðveitt hina fornu tungu Norðurlanda og við ein getum lesið bækur, sem skrifaðar voru fyrir mörgum öldum. En auðvitað er það svo, að alveg eins og stuðlamálið laut í lægra haldi á öðrum Norðurlöndum, þá er hætta á, að það lúti í lægra haldi hér einnig vegna áhrifa frá stærri þjóðum. En skólarnir þyrftu sannarlega að stuðla að því, að svo verði ekki.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að halda um þetta neina ræðu og læt nægja að vísa til grg., en legg til, herra forseti, að málinu verði frestað og vísað til hv. allshn.