09.03.1971
Sameinað þing: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (3967)

197. mál, móðurmálskennsla í barna- og gagnfræðaskólum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja fáein orð í sambandi við þessa till., vegna þess að e.t.v. átti ég nokkurn þátt í því, að hún kom fram. Hún var lögð fram eftir töluverðar umr. hérna á þingi ekki alls fyrir löngu um móðurmálskennslu í skólum. Ég lýsi því yfir, að ég er fylgjandi þessari till. Mér sýnist mikil nauðsyn á þeirri rannsókn, sem hún stefnir að, og þá um leið á ýmsum úrbótum á því sviði. En ég vil enn undirstrika það grundvallaratriði, sem ég tel, að eigi að fylgja í sambandi við íslenzkukennslu í skólum, og það er það, að málfræðikennslunni sem slíkri verði lokið sem fyrst, eins og ég sagði í umr. um daginn, helzt á því aldursskeiði, sem nú lýkur við svo nefnt barnapróf, og alls ekki seinna en við unglingapróf. Ég tel og byggi það á reynslu minni, að litlu verði bætt við kunnáttu eftir það aldursskeið, og þá reiknar maður með, að sæmilega hafi verið að unnið í barnaskólunum varðandi málfræðikennsluna. Mín reynsla er sú, að eftir að nemendur eru komnir í gagnfræðaskóla til að mynda, þá verði litlu við bætt á þessu sviði. Þá er farið að gæta þeirrar þreytu hjá nemendunum, sem einhvern veginn veldur því, að það er engu hægt að koma inn hjá þeim til viðbótar því, sem þegar er komið. Og þetta veldur svo leiða og jafnvel óbeit á móðurmálinu. Þegar komið er á þetta stig, þá á að mínum dómi að hefja hina lífrænu íslenzkukennslu, sem maður gæti kallað, sem yrði þá byggð á bókmenntum, að sjálfsögðu bæði í bundnu máli og óbundnu, þó að ég persónulega leggi mest upp úr því, að fornsögurnar séu notaðar við þá kennslu. Og eins er það með stafsetninguna. Ég tel líka, að þar verði litlu bætt við, þegar komið er upp yfir þann aldur, þegar nemendur taka nú barnapróf, og alls ekki eftir að þeir hafa lokið unglingaprófi. Þetta er einnig reynsla mín, að við erum að gaufast við þetta í tvo vetur í viðbót, án þess að nokkuð að ráði bætist við. Og enn segi ég það, að eigi þetta að verða kerfið, þá verður auðvitað að ætlast til þess, að íslenzkukennslu í barnaskólunum og unglingaskólunum sé þannig háttað, að fullkomin eða nægileg þekking í stafsetningu sé fyrir hendi, þegar lengra kemur á námsbrautinni; nægileg segi ég, en ekki fullkomin, vegna þess að það er ekki um að ræða raunverulega fullkomna þekkingu á stafsetningu. Þetta þekkja allir þeir, sem fást t.d. við að skrifa eitthvað, við þurfum alltaf öðru hverju að fletta upp orðum til þess að ganga úr skugga um stafsetningu þeirra, og kunna þá jafnvel að vera fleiri en ein kenning á lofti um það, hvernig eigi að skrifa orðið.

Eitt mjög þýðingarmikið atriði í sambandi við stafsetninguna er það, að svo kallaða hljóðfræði, sem nú er yfirleitt ekki farið að kenna fyrr en undir unglingaprófið, en mest þó í 3. og 4. bekkjum, þessa hljóðfræði á að kenna strax og farið er af alvöru að kenna stafsetninguna, vegna þess að á henni byggist stafsetningin að svo miklu leyti. Sá, sem ekki kann hljóðfræði eða er sæmilega að sér í hljóðfræðinni, getur ekki náð tökum á stafsetningunni eins og skyldi. Þess vegna segi ég það, að það á ekki að bíða með að kenna hljóðfræðina, sem er undirstaða stafsetningarinnar, þangað til skyldunáminu er að ljúka, heldur á að gera þetta miklu fyrr. Yfirleitt á að gera meiri kröfur að mínum dómi til barnanna í námi, miklu strangari kröfur heldur en gengur og gerist. Þetta er að vísu misjafnt. Mér er kunnugt um það hér í einum skóla, að íslenzkukennari, sem hefur með að gera pilt eða dreng, 11 ára dreng, sem ég þekki til, hann gerir það miklar kröfur til nemenda í sínum bekk, að þeir eru að mínum dómi, eftir því sem ég hef kannað málið, búnir að ljúka því, sem þörf er á að kunna t.d. varðandi stafsetninguna. En þá vantar að sjálfsögðu mikið varðandi þekkingu á tungumálinu að öðru leyti, orðaforða og annað slíkt. En þetta er dæmi um það, hverju má áorka, ef vel er að unnið og ef kröfur eru gerðar til nemendanna, einnig á barnsaldri. Ég hef orðið var við það, — foreldrar hafa sýnt mér dæmi um það, — hvaða kröfur eru gerðar varðandi kvæði t.d. Nemanda er sett fyrir kvæði að læra heima, venjulega eru honum valin léttustu kvæði skáldanna okkar, og svo er e.t.v. sleppt úr nokkrum erindum. Þegar maður fer að athuga þessi erindi og ástæðuna fyrir því, að þeim er sleppt úr, þá er það greinilegt, að það er vegna þess, að þarna koma fyrir nokkur fágæt orð, það er ekki lagt á barnið að læra þessi orð, heldur er þessum erindum sleppt fyrir bragðið. Allt þetta þarf að taka til rækilegrar athugunar, og það er von mín, að þessi athugun öll og rannsókn leiði til þess, að þeir kennarar, sem trúað er fyrir íslenzkukennslunni að því er varðar eldri nemendur en þá, sem eru í barna- og unglingaskólum núna, þeir hafi frjálsari hendur, sem allra frjálsastar hendur í kennslunni, og þá á ég við það, að þeim veitist tækifæri til þess að glæða tilfinningu nemendanna fyrir móðurmálinu, auka orðaforða þeirra og vald þeirra á málinu, bæði að því er varðar að tala það og einnig að rita.

Ég sé nú ekki ástæðu, held ég, til þess að bæta neinu sérstaklega við þetta, en vil þó segja eitt í sambandi við setningafræði, sem hefur verið fordæmd allmjög af hálfu ýmissa aðila, ekki síður en málfræðistaglið, sem við höfum leyft okkur að nefna svo. Að mínum dómi er setningafræðin allt annars eðlis. Það verður ekki talað um hana sem stagl. Til þess að læra setningafræðina þarf töluverðan skilning, og jafnframt því sem sá skilningur eykst, þá eykst að mínum dómi hæfileiki nemandans til þess að hugsa rökrétt. Ég álít, að setningafræði sé ekki óskyld stærðfræðinni að þessu leyti. Og svo að ég segi nú aftur frá reynslu minni sem kennara, þá er setningafræðinámið oft þannig í sinni verkan, að það er eins og nemendurnir frelsist úr málfræðinni og yfir á þetta svið. Og það sama gildir reyndar um okkur kennarana, að við, sem höfum fengizt við þessa íslenzkukennslu í gagnfræðaskólunum, unglinga- og gagnfræðaskólum, við hressumst allir, þegar komið er út í setningafræðina, vegna þess að þá er bæði það, að nemendurnir eru að verða áhugasamari og að öllu leyti andlega hressari við námið, og eins hitt, að við finnum meiri tilgang með því, vegna þess að hvað svo sem líður gagnsemi setningafræðinnar, — hún er nú dregin í efa, þó að hún komi sannarlega að miklu gagni t.d. varðandi mál eins og latínu, sem hreint ekki verður lærð, nema menn kunni sæmilega setningafræði, — en hvað sem öllu þessu líður, þá er hún þó þjálfun. Hún þjálfar hugsun nemandans og eykur þar með þroska hans. Þetta vildi ég nú aðeins taka fram til þess að fyrirbyggja misskilning, sem mér virðist hafa aðeins örlað á í sambandi við tal mitt um málfræðistaglið um daginn. Ég vil þar undanskilja setningafræðina.